08.07.1918
Efri deild: 60. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í B-deild Alþingistíðinda. (823)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Magnús Torfason:

Það gleður mig að málið horfir nú svo við, að hæstv. fjármálaráðherra hefir sjeð sjer fært að taka aftur fyrri brtt. sína. Hins vegar þykir mjer mjög leitt, að hann hefir ekki líka tekið aftur þá seinni. Jeg hefi komið með brtt á þgakj. 479. Hún er ekki fram komin af því, að jeg sje óánægður með frvgr., heldur til þess að fyrirbyggja annað verra. Með öðrum orðum, jeg hefi komið fram með hana til samkomulags við hæstv. fjármálaráðherrann. Ráðherrann, og raunar tveir ráðherrar frekar en einn, heldur því fram, að landssjóður mundi þurfa að borga út þær 2 milj. kr., sem samkvæmt minni till. falla í október, en jeg er sannfærður um, að þess þarf ekki. Bankarnir þurfa ekki annað en að flytja skuldir útgerðarmanna yfir á landssjóð, og það er vafalaust, að bankarnir fengjust til þess. Landssjóður þyrfti því ekki að leggja út nema ef til vill örlítið af þessum fyrstu 2 milj. kr. Jeg vil því leggja til, að brtt. mín verði samþykt, þótt jeg vildi heldur hafa kosið frvgr. óbreytta. Aftur legg jeg afarmikla áherslu á, að brtt. á þgskj. 467 verði samþykt, þar sem áhætta landssjóðs hefir minkað stórkostlega síðan 2. umr. var háð. Nú eru miklar horfur á, að gróði verði af þessu frv., og getur deildin því sóma síns vegna ekki felt brtt.