08.07.1918
Efri deild: 60. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í B-deild Alþingistíðinda. (824)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Magnús Kristjánsson:

Það gleður mig stórlega, að deildin virðist nú orðið nokkurn veginn einhuga um þetta mál, og vona jeg að eins verði um hv. neðri deild.

Svo einkennilega hefir skift um síðan við 2. umr., að nú eru þær ástæður, sem fluttar voru á móti frv., horfnar, og þar með sannað, að skoðun sú, er jeg hjelt fram við síðustu umr., hefir við góð og gild rök að styðjast. En aftur eru fram komnar aðrar ástæður, sem gætu orðið málinu hættulegar. Það er tilgangur frv. að styðja síldarútgerðina. En nú er Svo komið, að ýmsir útvegsmenn mundu helst kjósa, að málið fjelli niður. Jeg vil þó leggja jafna áherslu á, að málið nái að ganga fram, og jeg hefi áður gert. Vona jeg, að hv. deild sjeu ljósar ástæður mínar af þeim umr., sem undan eru farnar.

Till. um gjalddagann eru að mínu áliti aukaatriði. Brtt. á þgskj. 467 er alt annars eðlis. Það er mjög æskilegt að hún verði samþykt. Ef hún verður feld, mun þess freistað að koma 7. gr. inn í frv. í Nd., óbreyttri, í sinni upphaflegu mynd, og væri það að vísu æskilegast. Af brtt. um gjalddagann mun jeg greiða atkv. með brtt. háttv. þm. Ísaf. (M. T.). Vona jeg, að hæstv. stjórn skoði það ekki sem móðgun við sig þó að hún verði samþykt. Er stjórninni í lófa lagið að gera samninga svo úr garði, að þetta verði landssjóðnum engin byrði. Aftur væru útvegsmenn nauðulega staddir, ef þeir gætu ekki greitt fólki sínu kaup fyrir veturnætur, og væri það þó raunar of seint fólksins vegna, því að það þarf að afla sjer bjargræðis fyrir veturinn fyrir laun sín. Mörgum útgerðarmönnum mun örðugt að útvega sjer lánsfje. Væri því heppilegast að samþykkja brtt. á þgskj. 469.

Svo að jeg víki að ummælum háttv. 1. landsk. varaþm. (S. F.), skil jeg ekki í því, að brtt. á þgskj. 467 verði á næsta þingi það þrætuepli, að standi í nokkrum manni. Ef um nokkurn verulegan hagnað verður að ræða, munu allir sanngjarnir menn verða því fylgjandi, að nokkur hluti hans gangi til síldarframleiðenda. Brtt. er mjög væg, og ber jeg það traust til háttv. Nd., að hún setji inn aftur þá grein, sem feld var úr hjer í deildinni, ef þess þarf með.