11.07.1918
Neðri deild: 68. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í B-deild Alþingistíðinda. (838)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Sigurður Stefánsson:

Það eru örfá orð, sem jeg vildi sagt hafa, því að háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J) hefir nú tekið til athugunar þá hlið málsins, er snertir landbúnaðinn. Þegar vjer lítum á frv., eins og það er nú, þá er það hrein og bein bjargráð fyrir landbúnaðinn. Vjer verðum að gæta þess, að samkvæmt horfunum á sölu síldarinnar til Svíþjóðar, þá er hægt að selja þar 50.000 tunnur, sem ef til vill yrðu seldar hjer í landinu fyrir mjög lágt verð. Það er því ekki ástæða til þess fyrir formælendur landbúnaðarins, að setja sig upp á móti þessu frv., því að jeg veit ekki hve nær auðfenginn fóðurbætir kemur sjer vel ef ekki nú. Jeg verð að álíta, að stjórninni sje alt hægara um vik, er hún er sjálfráð um þennan hluta, hefir umráð yfir allmiklum síldarforða, heldur en ef hún ætti að fá hann hjá framleiðendum með því verði, er þeir settu á hana, eða takmarka útflutninginn á þeirri síld, sem þeir hefðu yfir að ráða.

Þá dugir ekki í þessu efni að vera að tala um misrjetti milli sjáfarútvegsins og landbúnaðarins, því að jeg álít löggjafarvaldinu það skylt, að styðja hvern þann atvinnuveg, sem í nauðum er staddur. Þá verð jeg einnig að játa, að hversu mikið „lotteri“, sem síldarútvegurinn er, þá hefir hann þó og einkum aflað landssjóði stórkostlegra tekna, og þar að auki auðgað ýmsa menn. En eins og þessum atvinnuvegi er nú komið, þá er hann mjög svo nauðulega staddur, og munu nú þeir vera miklu fleiri, sem svo að segja fljóta meðan þeir ekki sökkva, heldur en hinir, sem nægilegt bolmagn og fjármagn hafa.

Þessi leið, sem hjer er gert ráð fyrir að farin verði, er því ágæt til þess að bjarga þeim, sem illa eru staddir, og halda þannig við útgerðinni Auk þess ber þess að gæta, að þótt þetta frv. verði nú felt hjer, þá bætir það ekkert úr um fólkshald bænda á þessu sumri. Útgerðin er sem sje komin af stað og útgerðarmennirnir hafa þegar ráðið fólkið til sín, svo að bændur ná ekki í það í þetta skiftið. Auk þess hygg jeg, að margur búandinn muni hugsa sig um tvisvar, áður en hann fer að ráða dýrt kaupafólk til þess að vinna jörðina, eins og hún nú er á sig komin. Ef frv. verður aftur á móti samþykt, þá tel jeg, að það ljetti að vonum undir með landbúnaðinum, að landssjóður hefir ótakmarkað vald yfir miklum síldarbirgðum til fóðurbætis fyrir búpening.

Frv. þetta var í fyrstunni samið að ráði fulltrúa síldarútgerðarinnar, bæði af Vestur- og Norðurlandi, sem sátu á ráðstefnu hjer í Reykjavík fyrir skömmu.

Auðvitað eru nokkrir stórgróðamenn hjer, sem ekki þykjast kæra sig um neina liðveislu löggjafarvaldsins en það er allkynlegt, að þegar svo leit út, sem þetta mundi verða áhættuspil, þá þögðu þeir, en nú, þegar það er sjeð, að áhættan er lítil eða engin, þá þjóta þeir upp til handa og fóta og vilja engin afskifti þingsins af þessu máli. Þessi framkoma þeirra verður ekki skýrð á annan veg en þann, að nú sjái þeir, að gróðavon þeirra verður minni en ef alt hefði setið við það, sem áður var.

Þá ber og þess að gæta, að þótt þetta frv. verði samþ., þá er öðru nær en að útgerðarmönnum sje öllu góðu bættir. Hjer er að eins gert ráð fyrir, að landssjóður kaupi 100.000 tunnur, en vitanlega eiga þeir þrátt fyrir þetta 2/3 af tunnum sínum liggjandi. Fiskist nú ekki meira en það, sem ráð er gert fyrir að landssjóður kaupi, þá liggja útgerðarmennirnir með stórt „kapital“, þó að þetta bjargi að nokkru. Jeg held því, að það væri ekki rjett af þinginu að fleygja málinu frá sjer, og það sem gerir mig enn ótrauðari fylgismann þess, eru horfur landbúnaðarins að þessu sinni. Það hafa líklega fáir núlifandi manna horft fram á önnur eins stórvandræði fyrir landbúnaðinn og nú, en ef síldin veiðist hefir maður von um vissan og ódýran fóðurbæti.

Jeg vil taka undir það með háttv. 1. Húnv. (Þór J.), sem hann sagði um sölu síldarinnar. Jeg álít og vona, að stjórnin gangi svo frá samningunum, að hættan verði engin, og að Svíar borgi síldina þegar hjer á staðnum, þó að ekki sje hún komin í skip Jeg veit, að margir eru áhyggjufullir um þetta atriði, en jeg verð að treysta því, að svo verði gengið frá þessum samningum, að ekkert sje í hættunni. Og þó að einhver þau forföll komi fyrir, að skipasendingin farist fyrir, þá lendi sá skaði á Svíum en ekki á landssjóði. Það væri mjög ákjósanlegt, að stjórnin gæti nú þegar gefið skýlausa yfirlýsingu um þetta atriði.

Jeg vona svo að málið gangi fram, og sest því niður.