11.07.1918
Neðri deild: 68. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í B-deild Alþingistíðinda. (840)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg heyri sagt, að háttv. formaður bjargráðanefndar (P. J.) hafi spurt um skilyrðin fyrir sölu á þeirri síld, sem selja á til Svíþjóðar. Jeg get ekki sagt neitt um það núna. En ef bjargráðanefnd óskar eftir því, mun stjórnin fús á að sýna henni skeyti, sem um það hafa í milli farið, og eru í þeim skeytum allar þær skýrslur, er nú er hægt að fá hjer um þetta efni. Jeg þykist þess fullviss, að hinir ráðherrarnir hafi ekki neitt á móti því, eða nokkuð við það að athuga.

Jeg ætla mjer ekki að taka til máls um sjálft málið að svo komnu. Jeg er að vísu í dálitlum vafa um það, hvort alt frv. er svo heppilegt eða sjálfsagt, sem margir háttv. þm. virðast álíta. En það er eitt atriði í frv., sem jeg tel aðalatriðið, og sem er sjálfsagður hlutur, að þingið setji einhver ákvæði um. Það er ákvæðið í 4. gr. um það, hvernig skifta skuli síldinni á milli þeirra, sem framleiða hana. Jeg hygg, að í þessu efni sje ákvæði frv. mjög svo heppilegt og skynsamlegt. En hvað önnur atriði í frv. snertir, þá mun það vera nokkuð mikið vafamál, hvort alt er rjett athugað, sem þar stendur. Jeg geri ráð fyrir, að ekki þurfi að leggja aðaláherslu á önnur atriði en þetta eina, sem jeg hefi nefnt, en sum hinna eru samt nokkuð varhugaverð. Fyrst og fremst er þess að geta, að varlegra væri að hafa frestina til greiðslu á síldinni af landssjóðs hálfu lengri. En fjármálaráðherrann mun ætla að koma með brtt. um greiðslufrestinn við 3. umr., og skal jeg því ekki tala frekar um það atriði. En annað atriði er líka allviðsjárvert. Það er að skuldbinda landssjóðinn til þess að taka síldina á þeim höfnum öllum, sem nefndar eru í 3. gr. frv., þó að ekki sje hugsað um nema þessar 6 hafnir, er beinlínis er skyldað að kaupa síldina á. Það eru Seyðisfjörður, Eyjafjörður, Siglufjörður, Reykjarfjörður, Önundarfjörður og Ísafjarðarkaupstaður. Nú getur vel farið svo, að ómögulegt verði að taka síldina til útflutnings á einni eða tveimur höfnum. Það getur því orðið nokkuð mikill kostnaður að flytja alla síldina á útflutningshafnirnar. Mjer skilst, að í frv. sje ætlast til, að seljendur selji síldina á skipi á þeim höfnum, sem nefndar eru í frv. (P. J.: Jú, svo er til ætlast). Kostnaðurinn við að flytja hana til þeirra hafna, sem hún verður flutt út frá, legst því á landssjóðinn. (P. J.: Síldin verður landssjóði þeim mun dýrari, sem því nemur). Já, síldin verður þeim mun dýrari. En það er alveg óútreiknanlegt, hvað það getur orðið mikið. Menn hafa rekið sig á það, hverjum annmörkum þetta getur verið bundið, svo að þetta getur orðið mjög óþægilegt atriði.

Svo vildi jeg að eins drepa lauslega á það, að framleiðendur eru skyldaðir til að hafa umsjón með þeirri síld, sem þeir selja, þó ekki endurgjaldslaust, nema til ársloka. Nú getur vel farið svo, að þó að síldin sje seld, þá verði hún falin framleiðendum til geymslu fram á sumar. Það mun hafa komið fyrir áður. Þetta atriði getur því orðið varhugavert, þó að ekki sje líklegt að mikil hætta stafi af því.

Jeg legg ekki mikla áherslu á gróðahlutann, sem landssjóður fær. Jeg lít svo á, að það eigi ekki að vera tilgangurinn, að landssjóður græði á þannig lagaðri aðstoð við framleiðsluna. Það, sem sjerstaklega þarf að tryggja, er að landssjóður bíði ekki skaða við þá ábyrgð, sem hann tekst á hendur, þegar framleiðendur eru búnir að fá það fyrir sína vöru, sem þeir þurfa, til þess að geta framleitt hana.

Mín skoðun er sú, að frv. eigi fram að ganga. Í frv. er sem sagt eitt mjög nauðsynlegt atriði um skiftingu síldarinnar. Að öðru leyti er frv. varla eins mikils virði og menn virðast halda. Þessi einstöku atriði vildi jeg að eins nefna ná, ef ske kynni að nefndin vildi athuga þau til 3. umr. En líklega hafa þau þegar verið athuguð í nefndinni.

Að lokum skal jeg láta þess getið, að áhættu landssjóðs tel jeg eftir atvikum ekki mikla eftir frv.