11.07.1918
Neðri deild: 68. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 857 í B-deild Alþingistíðinda. (844)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Pjetur Ottesen:

Jeg skal ekki lengja umræðurnar mikið. Að eins vildi jeg leita mjer upplýsinga um það, áður en gengið er frá þessu máli, hvað liði samningunum um sölu á þessum 50.000 tunnum, sem heimilt er að flytja til Svíþjóðar, hvort borgun á þeim er bundin því skilyrði, að síldin sje komin um um borð í skip, eða hvort tiltekinn er einhver tími, sem síldin skuli borgast á, hvernig sem fer um flutning á henni til Svíþjóðar. Þetta er mikilsvert atriði nú, þegar svona þröngt er um skipakost til flutninga og siglingaleiðir ótryggar. Hæstv. forsætisráðherra mintist á þetta út af athugasemd háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.). En það svar var ekki fullnægjandi. Hann sagði að bjargráðanefnd gæti fengið að sjá skeyti, sem stjórninni hefir borist um þetta efni; en það er ekki nóg. Það er að vísu gott fyrir þá, sem sæti eiga í bjargráðanefnd, en við hinir, sem ekki eigum þar sæti, þurfum líka að fá tækifæri til þess að kynnast þessu máli. Það er mikið undir því komið, hvernig greiðsluskilyrðin á þessum hluta síldarinnar eru. Og jeg vildi helst, að málinu væri ekki ráðið til lykta hjer á þinginu fyr en þeir samningar eru fullgerðir.

Þá er annað atriði, sem jeg vildi vekja athygli á. Það er það, að þessar 100.000 tunnur sem landssjóður kaupir, verði að sjálfsögðu látnar ganga fyrir annari síld, sem veiðist í sumar, til útflutnings. Jeg veit, að útbúnaður er nú til þess að veiða allmikla síld á þessu sumri og einn útvegsmaðurinn hefir sagt mjer það, að ef afli yrði í meðallagi í sumar, þá mundi veiðast helmingi meira en þetta, sem gert er ráð fyrir að landssjóður kaupi.