11.07.1918
Neðri deild: 68. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 858 í B-deild Alþingistíðinda. (847)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Sigurður Stefánsson:

Jeg er þakklátur hæstv. forsætisráðherra fyrir þann ádrátt, sem hann gaf um, að sýna bjargráðanefnd skeyti það, sem fjallar um málið frá hendi kaupenda síldarinnar. En jeg vildi gjarnan óska þess, að því fylgdi yfirlýsing stjórnarinnar um það, hvernig hún lítur á ýms atriði, svo sem hve nær síldin skuli greidd, hvort hún skuli greidd, þegar hún er komin í skip eða áður. Þetta er ef til vill ekki svo hættulegt atriði, þegar litið er á fyrri reynslu. Bretar hafa t. d. keypt síld frítt um borð, en samt greitt hana áður en hún var flutt í skip, og sama ætti reyndin að veiða hjer. En skoðun mín er sú, að það geri menn efasamari og meira hikandi við að greiða frv. atkv., ef nokkuð er í óvissu um þetta atriði. Stjórnin getur ef til vill ekki sagt neitt um þetta með vissu, en hún ætti að láta uppi við bjargráðanefnd álit sitt um þetta, og hvort nokkuð sje að óttast fyrir þingið í þessu efni, þótt svo færi, að samningar væru ekki fullgerðir, þegar málinu verður ráðið til lykta. Það er því ósk mín, að stjórnin gefi bjargráðanefnd ábyggilegar upplýsingar um, hvað hún telur fært í þessu efni.

Auðvitað væri einnig æskilegt að vita skoðun stjórnarinnar í þessu máli, hvort hún er frv. andvíg, eða ekki. Það höfum við ekkert heyrt um, en mjög mikilsvert er, að þingið viti, hverjum augum stjórnin lítur á málið í heild sinni. Það heyrir til mjög mikilvægrar samvinnu milli þings og stjórnar, að þingið renni ekki blint í sjóinn um skoðun stjórnarinnar. Jeg hefi heyrt, að hæstv. fjármálaráðherra hafi greitt atkv. gegn frv. í Ed. Jeg vil ekki skilja það svo, sem hann hafi verið „principielt“ andvígur frv., heldur mun hann hafa álitið frv. óaðgengilegt af því, hve greiðslufresturinn er stuttur. Um skoðun hinna hæstv. ráðherra veit jeg ekki. Hæstv. forsætisráðherra hefir að vísu hreyft athugasemdum, sem eru vel þess verðar, að nefndin íhugi þær, en hann hefir ekki lýst yfir því, hvort það muni kosta atkv. hans, ef bjargráðanefnd felst ekki á, að taka þær til greina.

Mjer þótti háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) kveða nokkuð djarft að orði, þar sem hann sagði, að hann sæi ekkert samband milli þessa máls og landbúnaðarins. Þó að hjer sje ekki um landbúnaðarafurðir að ræða, þá er ekki hægt að líta á þetta mál öðruvísi en í sambandi við landbúnaðinn, eins og horfur hans eru nú. Jeg skal minna háttv. þm. (S S.) á, að hve miklu gagni síldin kom landbúnaðinum á síðastliðnu voru. Þá keypti stjórnin hundruð sekki af síldarmjöli, sem til voru í landinu, og bjargaði það bændum frá því að fella skepnur sínar. (S. S.: Það kemur ekki þessu frv. við). Mjer þykir það kynlegt, ef það kemur ekki málinu við, að trygging sje fyrir því, að mörg þúsund tunnur af fóðurbæti sjeu til í landinu, sem hægt er að grípa til eftir þörfum. (S. S.: Sá fóðurbætir verður til hvort sem er) Háttv. þm. (S. S.) getur ekkert um það sagt; við getum ekki fengið neina vissu fyrir því að svo verði. (S. S.: Hjer hafið þið fengið snaga til að hengja hattinn ykkar á). Þetta er enginn snagi; jeg vil frábiðja mjer þau orð. Jeg þykist vera jafnmikill vinur landbúnaðarins sem sjávarútvegsins Og þegar 20 milj. krónur standa í síldarútveginum finst mjer, að landið ætti að hlaupa undir bagga með honum, ef þörf krefur, án þess að taka tillit til þess, að hann sje keppinautur landbúnaðarins. Enda verður erfitt að reisa skorður við samkepni þessara atvinnuvega, og efast jeg um, að þeir muni sitja nokkurntíma á þingi, er það gætu með lögum gert, svo að rjettlátt yrði.

Hjer er að eins að ræða um lítilsháttar aðhlynningu fyrir síldarútveginn. Um neinn stórgróða fyrir þennan atvinnuveg getur ekki verið að ræða, heldur að eins að hann fljóti yfir verstu torfærurnar, sem nú eru á leið hans.

Það er mjög leitt, ef samningarnir við Svía verða ekki fullgerðir áður en þessu máli er ráðið til lykta. Vitanlega er ekki unt, að gefa stjórninni sök á því. En jeg vona, að fá skýr svör hjá stjórninni um afstöðu hennar í málinu og einnig um borgunarskilmálana. Jeg vænti þess, að hæstv. stjórn láti sjer ekki nægja, að kasta þessu skeyti í bjargráðanefnd, heldur láti hún einnig nefndinni í tje skilning sinn á því. Jeg hefi ekki heyrt um þetta skeyti fyr en nú. Jeg heyri sagt, að hæstv. fjármálaráðherra hafi skýrt frá því í háttv. Ed., en um það var mjer ekki kunnugt.