12.07.1918
Neðri deild: 69. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í B-deild Alþingistíðinda. (854)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Sigurður Sigurðsson:

Jeg á hjer ofurlitla brtt., sem lítið fer fyrir, óg háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) hefir því líklega sjest yfir hana. Hún er á þgskj. 490, og fer fram á það, að 7. gr. frv. falli burtu.

Jeg hefi gert þessa brtt. í því skyni, að gera frv. að mínu áliti aðgengilegra. Þær ástæður, sem aðallega liggja fyrir þessari till., eru tvær. 1. Tel jeg það hæpið og ekki viðfeldið, að gera þarna ráð fyrir miklum ágóða. (S. St.: Hjer er ekki gert ráð fyrir miklum ágóða). Það er víst gert ráð fyrir ágóða, því að þar sem gert er ráð fyrir að skifta ágóða, þar er gert ráð fyrir að ágóði verði. 2. Álít jeg, að ef til þess kæmi, að einhver ágóði yrði, sem jeg skal engu um spá, þá tel jeg að öllu leyti eðlilegra, samkvæmt eðli málsins, að hann renni óskoraður til landssjóðs að öllu leyti. Og ef um einhvern ágóða yrði að ræða, lít jeg líka svo á, að stjórnin gæti varið honum að einhverju leyti til þess þá að færa niður verð, frekar en enn er gert ráð fyrir, á síld, sem kann að verða seld innanlands til manneldis eða skepnufóðurs. Ef ummæli þeirra háttv. þm. við 2. umr. eiga við nokkuð að styðjast, sem sögðu, að þetta frv. væri líka hjálp fyrir landbúnaðinn, þá nær það ekki nokkurri átt, nema á þessum grundvelli, að færa niður verð á síld, sem ætluð er til skepnufóðurs. En ef brtt. mín verður feld og 7. gr. þannig fær að standa óbreytt, þá fæ jeg ekki sjeð, að það sje rjett, sem látið var í veðri vaka í gær, að þetta frv. sje nokkur stoð fyrir landbúnaðinn.

Jeg tek þetta fram út af þeim umr., sem fjellu í gær um þessa hlið málsins. En jeg skal geta þess, að þetta ræður ekki atkv. mínu í málinu. Jeg hefi þegar áður gert ljósa grein fyrir afstöðu minni til frv., og ætla ekki að endurtaka það, sem jeg sagði um málið í gær. En hins vegar vænti jeg þess, að till. mín verði samþ.