12.07.1918
Neðri deild: 69. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 870 í B-deild Alþingistíðinda. (858)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Pétur Jónsson:

Jeg held að jeg þurfi ekki margt að segja, því að ýmsir háttv. þm., sem talað hafa, hafa svarað mörgu fyrir mig. Það var þá aðallega viðvíkjandi brtt. á þgskj 490, sem jeg stóð upp, þar sem farið er fram á, að fella burtu 7. gr. frv., sem þýðir það, að arðurinn skuli allur renna í landssjóð. Það er náttúrlega ekkert á móti því, að till. þessi komi til atkv. En jeg var búinn að færa rök fyrir því, að það er ekki sanngjarnt, þegar þingið ætlar að styðja útgerðarmenn, að vjer jöfnum saman hagnaðarvoninni af síldinni og áhættu þeirri, er landssjóður tekur á sig með frv. Því að eins og jeg hefi ávalt talið það skyldu mína, að stuðla að því að haga svo til, að áhætta landssjóðs verði sem minst eða hverfi, þá hefi jeg þó ekki viljað gera frv. þetta svo áhættulaust fyrir landssjóð, að það komi að engu gagni, og því síður get jeg gengið inn á, að fyrir svo litla áhættu sje tekin sú okurborgun, sem ekki munu finnast dæmi til, ef alt fer að sköpuðu um síldarsöluna. Því að það væri hreint og beint okur, ef landssjóður tæki 50 þús. tunnur fyrir 10 kr. tunnuna, því að síldin er miklu meira virði. Og kemur heldur aldrei til þess vonandi, að hún komist ekki í meira verð, þótt svo að eigendur sitji með hana. Eins er um borgunarskilmálana, að áhættan er svo nauðalítil. Jeg skal benda á, að gert er ráð fyrir, að helmingur síldarinnar, 50 þús. tunnur, sje borgaður fyrir 15. nóvember, 5½ milj. kr. af 6 milj., sem samið er um. Og þó að salan gengi stirt, þá ætti þó víst ekki að þurfa nema 6 vikur í viðbót, og væri það þá komið fyrir áramót. Er þá allur hallinn ekki nema ½ milj. kr. Munar landssjóð ekki mikið um það, og er þá öllu borgið. En það er óviðurkvæmilegt, er landssjóður er búinn að kaupa síld, að fara að halda verðinu í heilt misseri, úr því að ekki er hægt að segja, að neitt sje í hættu. Jeg hugsa sem svo, að það sje ekki alveg sami örðugleikinn fyrir síldarútvegsmenn, að vera án peninganna, og fyrir landssjóð að útvega þá. Þess vegna verður að ganga að bönkunum. Geti þeir ekki lánað landssjóði, þá geta þeir ekki heldur umliðið skuldunauta sína, og er þá sætt sameiginlegt skipbrot landssjóðs og landsmanna.

Jeg vil þá að lokum að eins taka það fram, að ef 7. gr. verður feld burtu, þá hljóta auðvitað flutningsmenn málsins í Ed. að taka frv. aftur, því að þeir munu ekki vilja fara að gangast fyrir því, að gera síldarútvegsmönnum beinan skaða.