12.07.1918
Neðri deild: 69. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 872 í B-deild Alþingistíðinda. (860)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Jörundur Brynjólfsson:

Það voru nokkur orð í tilefni af ræðu hv. 1. þm. Árn. (S. S). Hann gat þess, að ekki væri nema sanngjarnt, að landbúnaðurinn hefði dálítið gott af þessum atvinnuvegi. Jeg skal ekki mæla á móti þessu, en hins vegar finst mjer, að maður hefði getað vænst þess, að nú væri ekki sjerstaklega tækifæri til þess, eins og nú er ástatt; mjer er kunnugt um það, að þessi atvinnugrein hefir öðrum fremur gert landbúnaðinum erfitt fyrir, en mjer finst að menn geti nú síst haft það í huga, að baka honum erfiðleika, því að það er ekki helst innlendi síldarútvegurinn, sem hefir gert landbúnaðinum erfiðast fyrir, heldur hinn útlendi. En ef um hreina spurningu væri að ræða um það, hvort landssjóður ætti að græða á sölunni eða ekki, þú verð jeg að svara því svo, að það væri ekki nema eðlilegt, að hann hefði heldur ágóða heldur en hitt; en upphaflega, þegar málið kom inn á þingið, þá var það tilætlunin að koma í veg fyrir stórtjón meðal hinna smærri útgerðarmanna, og þá var alveg óvíst um síldarsöluna, en nú má svo heita að hún sje alveg áhættulaus. En það var ekki að eins þetta eina atriði sem vakti fyrir nefndinni; hún sá líka aðra kosti við að láta landssjóð kaupa síldina; það fyrst að meira myndi verða aflað af síld í landinu, og það var eftir áliti nefndarinnar alls ekki tilgangslaust, og í öðru lagi var það, að með þessu móti var það miklu auðveldara fyrir landsstjórnina, að hafa nokkrar síldarbirgðir til umráða; getur það haft mikla þýðingu fyrir landbúnaðinn, því að á þann hátt getur hún veitt mönnum miklu hagkvæmari kaup á síld en ella. Nú horfir málið þannig við, að það verður miklu auðveldara að útvega síld og selja hana ódýrara, án þess þó að menn taki meira af gróða síldarútvegsmanna en og þykir mjer það nóg, því að jeg vil ekki viðurkenna, að það hafi nokkurn tíma verið tilgangur þingsins að kaupa síld í „spekúlations“-skyni fyrir landssjóð.