12.07.1918
Neðri deild: 69. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í B-deild Alþingistíðinda. (862)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Einar Jónsson:

Jeg skal efna það öðrum betur, sem lofað hafa að vera stuttorðir, en efna það þó ekki. Það er alls ekki rjett að vera hjer að blanda saman landbúnaði og sjávarútveg, því að það er, eins og jeg tók fram í gær, ekki nokkurt orð í frv. um það að landúnaðurinn geti notið góðs af því.

Háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) var að tala um, að hjer væri verið að gera tilraun til þess að láta landbúnaðinn græða á síldarútveginum. (J. B.: Nei, nei, jeg sagði það ekki). Jeg sje ekki heldur hvernig því yrði fram komið. Síldarútvegsmenn hafa í fyrstu leitað hjálpar landssjóðs, en nú eru þeir svo stífsinnaðir, að þeir vilja ekkert með þetta frv. hafa, vegna þess að nú lítur betur út með síldarsöluna. En þótt stjórnin sjái sjer kann ske fært að styrkja þetta málefni eitthvað, þá sje jeg ekki að það komi landbúnaðinum neitt við.

Það er alt af verið að minna mig á, að það komi fram á næsta málinu, sem er á dagskránni, en þar til er því að svara, að þetta mál kemur til atkvæðagreiðslu alveg óháð hinu málinu, og auk þess getur vel farið svo, að þetta frv. verð samþykt, en till. feld, og því á ekkert að vera að bendla þessi tvö mál saman.

Jeg lofaði að hafa það ekki eins og hinir, sem talað hafa, að lofa að vera stuttorður, en efna það ekki, og ætla því að hætta. (Einhver þm.: Þetta er líka meira en nóg).