15.07.1918
Efri deild: 66. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í B-deild Alþingistíðinda. (866)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Frsm. (Guðjón Guðlaugsson):

Bjargráðanefnd hefir ekki haldið fund með sjer að þessu sinni til þess að athuga frv., og ætlar sjer enga ályktun að gera í málinu. Því er það vítalaust af henni, þó að málið væri nú tekið á dagskrá. Þetta er þó ekki svo að skilja, að allir nefndarmenn sjeu sammála; því mun víst ekki að fagna, og hafa þeir óbundin atkvæði sín.

Háttv. Nd. hefir gert breytingu á 6. gr. Var sú breyting gerð eftir ósk og flutningi hæstv. fjármálaráðherra. Var það sama tillagan og hann bar fram hjer í deildinni. Við flutningsmenn frv. álítum þessa breytingu þýðingarlausa og ekki rjettmæta, en fyrst nú svona er komið, viljum við ekki gera ágreining út úr svona aukaatriðum. Við viljum þvert á móti gera andstæðingum okkar í þessu máli sáttatilboð, en tilboðið er í því fólgið, að þeir haldi ekki fram neinum brtt. fyrst við gerum það ekki. Við viljum helst að frv. verði samþykt óbreytt eins og það nú er, svo að það lendi ekki í hrakningi milli deildanna. Við vildum því óska, að hv. flutningsmenn brtt. á þgskj. 504 tækju hana aftur. Málinu getur verið hætta búin af því, ef gerð væri einhver breyting. Það er þess vegna sem jeg legg áherslu á, að brtt. þessi nái ekki samþykki, en ekki af því, að till. sje svo efnismikil. Það skiftir í sjálfu sjer litlu máli, efnisins vegna, hvort hún verður samþykt eða ekki. Jeg hjelt, satt að segja, að guð almáttugur hafi haft meira í huga en svo, er hann skóp þá háttv. 1. þm. Bang. (E. P.) og háttv. þm. Snæf. (H. St.), og jafnvel 5. landsk. þm. (H. Sn.), að þeir gætu verið þektir fyrir að koma með svona smávægilegar brtt.

Vona jeg að háttv. deild líti eins á þetta mál og jeg, og geri engar óþarfabreytingar á frv.