15.07.1918
Efri deild: 66. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í B-deild Alþingistíðinda. (868)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg vildi vekja athygli á því, að varasamt kynni að vera að afgreiða þetta mál fyr en alt er óhagganlega víst um þær 50 þús. tunnur, sem áætlað er að selja til Svíþjóðar. Það er að vísu búið að gera samninga við Svía um kaup á síldinni, en innflutningsleyfi er enn ekki fengið frá sænsku stjórninni. Þó má telja mjög líklegt, að það fáist. Jeg vildi skjóta þessari athugasemd til hv. deildar, án þess að jeg þó óski, að málið verði tekið út af dagskrá.