12.07.1918
Efri deild: 64. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 889 í B-deild Alþingistíðinda. (885)

118. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg hefi verið með í því, að skrifa undir brtt á þgskj. 494, en jeg þarf fáu við það að bæta, sem fyrri háttv. flm. (S. F.) tók fram, og það því síður, sem háttv. fjárveitinganefnd hefir tekið brtt. þessum vel.

En það var eitt, sem jeg hafði við ræðu háttv. frsm. (E. P.) að athuga.

Hann sagði um staflið c. í 1. brtt. á þgskj. 494, að nefndin hefði haft sjer það til afsökunar fyrir að taka ekki ákvæðið upp, að hjer væri um svo lítið að ræða, að dýrtíðaruppbót af því mundi ekki verða meira en 3.000 kr.

En jeg er sannfærður um, að hjer er um allmikla villu að ræða, sem að líkindum stafar af því, að nefndin hefir ekki haft rjett gögn í höndum.

Eftir upplýsingum, sem jeg hefi fengið, skal jeg benda á að eins tvö prestssetur, Árnes, þar sem afgjaldið er 800 k., og Kollafjarðarnes, þar sem afgjaldið er 400 kr.

Af þessum upphæðum einum mundu veittar 360 kr. í dýrtíðaruppbót. það hlýtur því eftir mínu áliti að vera fjarstæða, að dýrtíðaruppbót af launahæð, sem svarar slíkum afgjöldum á öllu landinu, fari ekki fram úr 3.000 kr.

Auk þessa ber þess að gæta, að eftir því, sem stendur síðast í 1. gr. frv., að ef embættismanni er lagt til jarðnæði, húsnæði eða önnur fríðindi sem hluti af launum, skuli það metið til peninga og teljast með til launa hans; er hjer þá um stórbreytingu að ræða, frá því sem var í fyrra. Því var ekki að eins, að engin dýrtíðaruppbót væri veitt af jarðarafgjöldum, heldur var einnig dregið frá dýrtíðaruppbótinni á launin úr landssjóði og sóknargjöldin, sem svara 40% af jarðarafgjaldinu.

Hjer er því um stórkostlega breytingu að ræða, ef brtt. okkar nær ekki fram að ganga.

Og jeg verð að líta svo á, að nefndin hafi haft óábyggileg skjöl í höndum, ef henni telst svo til, að sparnaðurinn við þessa breytingu fari ekki fram úr 3.000 kr.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um málið.