12.07.1918
Efri deild: 64. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í B-deild Alþingistíðinda. (886)

118. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Kristinn Daníelsson:

Jeg ljet það á mjer skilja við 2. umr., að naumur tími væri til þess að gera athuganir og ýmsa útreikninga, sem nauðsynlegir eru til þess, að geta tekið afstöðu til þessa máls, sem verið hefir miklum breytingum undirorpið hjer í þinginu.

En þetta er mikilsvert mál, og má sjá það af því, að jeg hefi hjer fyrir framan mig tvo stóra pakka af skjölum, sem öll fjalla um þetta eina mál.

En það var sjerstaklega ein fyrirspurn, sem jeg vildi leyfa mjer að leggja fyrir háttv. fjárveitinganefnd. Það var hvort hún hefði grenslast eftir því, hverjum undirtektum þetta nýja frv. muni sæta í Nd.

Því að enda þótt til hjer sjeu þeir menn, sem ekki álíta svo vandgert við starfsmenn landsins, að það geri þá neitt til, þótt mál þetta fjelli niður með öllu, þá vona jeg samt, að þeir sjeu færri, sem svo hugsa.

Og jeg fyrir mitt leyti vil styðja að því, að frv. verði samþ., svo framarlega sem von er um góðar undirtektir í Nd.

Annað finst mjer ekki hæfa en gengið sje að því með alvöru, úr því að málið hefir nú verið dregið svo í gegnum alt þingið.

Jeg hefi ekki getað kynt mjer einstök atriði málsins sem skyldi, en jeg vil þó taka undir með háttv. sessunaut mínum (S. F.), að jeg hefði heldur kosið, að laun læknanna væru hækkuð en þeim sje veitt dýrtíðaruppbót á aukatekjurnar. Getur það oft verið vandasamt að reikna út, hve miklar þær eru, og sjest það meðal annars á áliti launanefndarinnar, sem hafði skýrslur frá læknum um aukatekjur þeirra, hve misjafnir þeir reikningar verða, enda er það eðlilegt, því að mönnum getur vel blandast hugur um, hve mikið þeir eigi að reikna sjer í „netto“- eða „brutto“-tekjur.

Auk þess hefi jeg altaf álitið að rjettara væri, að launa læknunum sómasamlega, en hafa heldur hóflegan taxta á borgun fyrir læknisverk.

En mál þetta er mjer að sumu leyti of nákomið til þess, að jeg geti farið langt út í það. Á jeg sjerstaklega við, að með þessu er lítil bót unnin á kjörum embættismanna þeirra, sem var fyrsta tilefnið til, að mál þetta var borið upp á þingi, og viðurkent hefir verið, að hafi átt við misrjetti að búa.

En eins og jeg hefi áður sagt, þá tel jeg það mikils virði, að eitthvað sje vitað um forlög frv. í Nd. áður en því væri ráðið til lykta hjer.