12.07.1918
Efri deild: 64. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 892 í B-deild Alþingistíðinda. (887)

118. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Frsm. (Eggert Pálsson):

Háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) hjelt því fram, að fjárveitinganefndin hefði farið eftir skökkum útreikningum, að því er snertir afgjald prestssetranna. Jeg skal að vísu enga ábyrgð á þeim reikningum taka, því að jeg hefi ekki sjálfur gert þá. En nefndin hefir fengið til þess ábyggilegan mann, og hefir hann farið eftir skýrslum þeim, sem dýrtíðaruppbótin hefir verið reiknuð eftir.

Og tölurnar hefi jeg hjer fyrir framan mig með mannsins eigin hendi, öllum til sýnis, svo að augljóst er, að ekki hefi jeg gert reikningana, nje heldur hefi ranghermt nokkuð í framsögu minni. Sje um misreikning að ræða, þá er hann að kenna manni þeim, sem fjárveitinganefndin hefir falið starfið, en því trúi jeg illa, og hygg ekki heldur, að háttv. 4. landsk. þm. (G. G) mundi trúa því, ef hann vissi, hver maðurinn er.

Þá spurði háttv. 2. þm. G.-K. (K. D.), hvort nefndin vissi, hvern byr málið muni fá í Nd. Jeg lít nú svo á, að ekki sje hægt fyrir einn þm. eða nefnd að svara því, allra síst þegar tími er svo naumur, sem nú er.

En jeg veit þó, að margir háttv. þm. þar eru með frv. þessu, en aftur veit jeg um aðra, sem eru móti því. En til þess að vita fyllilega, hversu margir eru hvorir um sig, þyrfti að fara í könnunarferð, en til þess er enginn tími.

Jeg lít líka svo á, að engum háttv. þm. sæmi það hringl, að fara eftir því, hvernig aðrir líta á málið. Maður á fyrst og fremst að fara eftir sinni eigin skoðun og sannfæringu, en ekki annara.

Það er heldur ekkert einsdæmi, þótt önnur deildin samþykki frv. án þess að vita, hvað hinni líður. Háttv. Nd. hefir svo oft samþ. frv. án þess að spyrja Ed. álits.

En þar sem nú, eins og jeg hefi áður tekið fram, fjárveitinganefndin taldi frv. frá Nd. með öllu ófært, þá varð hún annaðhvort að leggja árar í bát eða koma með nýtt frv. í líkingu við þetta.