15.07.1918
Neðri deild: 71. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í B-deild Alþingistíðinda. (898)

118. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Forsætisráðherra (J. M.):

Því er ekki að neita, að jeg tel mjög óheppilegt, að háttv. Ed. skyldi taka þetta ráð, að hverfa alveg frá frv., er samþykt var í þessari háttv. deild og koma fram með þetta frv. í staðinn. Ekki vegna þess, að jeg verði ekki að telja þetta frv. miklu betra í sjálfu sjer og fastara í rásinni, svo að jeg get ekki annað en gefið því atkvæði mitt. Með því er tekin upp sú regla í uppbótar-veitingunni, sem jeg hefi stöðugt á undanförnum þingum talið þá einu rjettu. En jeg tel óheppilegt að háttv. Ed. skuli hafa farið svo að, þar sem jeg býst ekki við því, að þessi háttv. deild muni geta fallist á þessa reglu nú fremur en áður.

Jeg finn ekki ástæðu til þess að halda langar tölur um málið, jeg hygg það gersamlega þýðingarlaust. Hv. þingdm. hafa eflaust ráðið það að fullu við sig, hvernig þeir muni snúast í málinu. En jeg ætla það byggilegast, að frv. fái að ganga til 3. umr. og að fjárveitinganefndir beggja deilda reyndu að koma sjer saman. Því ef farið er að deila um málið, hygg jeg að þingtíminn yrði nokkuð langur. En nú er óþarft að ræða málið frekar, það hefir verið þaulrætt dag eftir dag, bæði á þessu þingi og undanförnum þingum.