15.07.1918
Neðri deild: 71. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í B-deild Alþingistíðinda. (899)

118. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Sigurður Sigurðsson:

Jeg verð að lýsa yfir því, sem skoðun minni, að sje um það að ræða, að bæta á einhvern hátt kjör embættis- og sýslunarmanna landssjóðs, þá sje eðlilegra að gera það með dýrtíðaruppbót, heldur en með breytingum á launalögunum, beinlínis eða óbeinlínis. Því er ekki að neita, að frv., sem samþykt var hjer á dögunum, er breyting — ef ekki beinlínis, þá óbeinlínis — á launum embættismanna, og mætti líta svo á, að með því væri verið að benda á braut til breytinga á launakerfinu, að ófriðnum loknum. En jeg er á því, eins og jeg hefi alt af haldið fram, að ekki eigi að hrófla við launalögunum, meðan ófriðurinn helst, eða þetta ástand, sem nú er. Og vilji menn á annað borð bæta embættismönnum upp dýrtíðina, eigi það að vera með dýrtíðaruppbót.

Annað mál er það, hvort frv. á þgskj. 503, er aðgengilegt. Um það geta verið skiftar skoðanir. Jeg get sagt það strax, að jeg er mjög óánægður með það. Jeg get jafnvel tekið svo djúpt í árinni, að jeg hefði kosið að málinu hefði ekki verið hreyft á þessu þingi, en við því hefir ekki verið unt að sporna. En jeg vil greiða atkv. þeim brtt., er miða til. bóta og færa útgjöldin niður. Jeg mun t. d. greiða atkv. með brtt. á þgskj. 506 og frv. sjálfu til 3. umr., því að ekki er loku skotið fyrir það, að þá megi koma að fleiri umbótum, sem jeg kalla, og gera það aðgengilegra fyrir okkur, sem kallaðir erum sparnaðarmenn þingsins.