16.07.1918
Neðri deild: 72. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 914 í B-deild Alþingistíðinda. (909)

118. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Pjetur Jónsson:

Jeg hefi ekki rætt mikið um þetta mál; jeg hefi að eins lagt því liðsyrði, að það kæmi til þessarar umr. Annara er það að segja um þetta launafrv., að það hafa verið gerðar tilraunir til þess að koma á samkomulagi milli nefndanna í báðum deildum, en nú er svo komið, að hvor nefndin situr föst við sinn keip, og þótt í rauninni kæmi fram allmikil tilslökun hjer í Nd., um þær greinar, sem mest er um deiit, þá hefir þessi tilraun til samkomulags endað svo, að það er ekki hægt að fá neina tryggingu fyrir því, að þetta frv. nái samþykki hjer á þinginu, þótt þetta frv. verði samþykt hjer.

Frá þessu vildi jeg skýra, af því að jeg hefi heyrt, að margir óskuðu þess, að þetta frv. næði fram að ganga, og býst jeg við, að margir háttv. þm. uni því illa, að engin niðurstaða verði um það, að bæta launakjör embættis- og sýslunarmanna landsins.

Um frv. það, sem fyrir liggur, get jeg sem sagt ekkert annað sagt, en að jeg hefi ljeð því atkvæði mitt, svo að það mætti komast til þessarar umr. Annars lít jeg svo á, að ef frv. sem þetta hefði komið fram í fyrra, með því frv. sem þá lá fyrir, þá hefði verið sjálfsagt að athuga það rækilega, sem nokkurskonar endurbætur á dýrtíðarlögunum, en nú horfir það alt öðruvísi við, þegar ekki er neinn tími til að víkja því við í þá átt, sem við hjer í hv. Nd. ætlumst til. Það er svo sem gefinn hlutur, að þessar launabætur embættismanna landsins hefðu orðið mjög litlar og smáskornar, af því að ekki var fært að ganga lengra að þessu sinni, ekki hægt að gefa nema það allra naumasta, en jeg hygg nú samt, að þótt við hefðum greitt atkv. með till. um flesta embættismennina, sem nefndir voru í þessu launafrv., þá hefði það verið óhætt, vegna þess, að þeir voru flestir búnir að sætta sig við þá úrbót, sem þar var gefin, svo að frv. hefði að nokkru leyti náð tilgangi sínum, og einkanlega þó ef aukið hefði verið inn í þeim mönnum, sem vantaði í frv. þegar það fór hjeðan úr deildinni, og þá sjerstaklega sýslumönnunum. En þótt jeg svo hafi greitt þessu frv. atkv. mitt, og ætli að gera það áfram, ef það tekur ekki breytingum, sem skaða það, þá er það samt ekki af því að jeg álíti það ekki herfilegustu kórvillu að fara að taka það fyrir nú.

Jeg verð að lýsa yfir því, að jeg og samnefndarmenn mínir erum gramir yfir því, að ekki auðnaðist að fá þann enda á málið, er bætti svo úr launakjörum þeirra manna, sem frv. ræðir um, að það yrði nokkurn veginn notalegar bætur fyrir þá, en má ske eru þó þessar umbætur skárri en ekki neitt.