16.07.1918
Efri deild: 67. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í B-deild Alþingistíðinda. (920)

118. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Frsm. (Eggert Pálsson):

Frv. þetta er komið aftur til háttv. Ed., eftir að hafa gengið í gegnum lögskipaðan hreinsunareld í háttv. Nd.

Nefndin lítur svo á, að breytingar þær, sem þar hafa verið gerðar á frv., sjeu síst til bóta, en hins vegar hefir frv. ekki verið gerbreytt, eða með öðrum orðum, aðalgrundvelli þess ekki raskað.

Eins og háttv. þm. sjá, þá er aðalbreytingin fólgin í ákvæði því, sem sett hefir verið inn í frv., um að einhleypir menn fái mikið minni dýrtíðaruppbót en kvongaðir, og hverju þetta munar, er óþarft fyrir mig að skýra frá; það sjá aðrir háttv. þm. eins vel og jeg.

Þá hefir og verið gerð breyting á 2. gr., staflið b, en þessar breytingar eru, eins og jeg tók áðan fram, engar gerbreytingar, og grundvöllur frv. hinn sami og áður var, og með tilliti til þess telur fjárveitinganefndin ekki vert annað en ganga að frv.

En breytingar þessar gera það að verkum, og það mun vafalaust síðar sýna sig, að það er erfiðara fyrir stjórnina að framkvæma lögin en ella hefði verið, og það verður fyrir breytingarnar, sem frv. hefir tekið, áreiðanlega fleiri vafaatriðin, er þarf að úrskurða af stjórninni, en 6. gr. er einskonar trygging gegn öllu slíku fári, því að eftir henni er stjórnarráðið æðsti dómur um öll slík vafaatriði, og því getur nefndin ekki sjeð ástæðu til annars en samþ. frv. þrátt fyrir gallana, sem það hefir á sig fengið.

Jafnframt vil jeg leyfa mjer að skjóta því til hæstv. forseta, hvort „málsgreinin“ í 1. gr. frv.: „Dýrtíðaruppbót veitist eigi á 6.000 kr. árslaun eða þar yfir, og eigi mega laun og dýrtíðaruppbót samanlögð nema meira en 6.000 kr.“ megi ekki fella niður með „redaktion“ á skrifstofunni. Málsgrein þessi kemur beint í bága við 2. gr., staflið b; átti því að vera sjálffallin um leið og sú brtt. var samþykt, en sá háttv. þm. (B. St.), er flutti tillöguna, hefir gleymt að taka það, og skrifstofan hefir ekki talið sig hafa heimild til þess að breyta þessu „redaktionelt“. Það má segja, að málsgrein þessi geri hvorki til nje frá, og er það rjett, en hún stendur til stórrar óprýði í frv.; er einskonar vottorð um hirðuleysi háttv. Nd. Það færi því miklu betur á því, ef hæstv. forseti vildi líta svo á, sem fella mætti niður þessa málsgrein við uppprentun frv.