26.04.1918
Neðri deild: 10. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 933 í B-deild Alþingistíðinda. (929)

10. mál, sala Ólafsvallatorfunnar

Benedikt Sveinsson:

Það er kunnugt, að hjer í deildinni hafa komið fram tvær till., sem báðar fara í þá átt, að ráða stjórninni frá því að selja tvær landssjóðsjarðir. Þessar jarðir eru hvor um sig höfuðból í einhverri blómlegustu sýslu landsins, Árnessýslu.

Báðum þessum till. hefir verið vísað til landbúnaðarnefndar. Hún hefir nú látið uppi álit sitt, en þó ekki nema um aðra till. (S. S.: Hitt er á leiðinni) Jeg tel, að æskilegra hefði verið, að nefndin hefði látið uppi álit sitt um báðar till. í einu, þar sem svo margt er líkt um þær. Mundi það ekki lítið spara umræður; en það er alkunna, að þegar þjóðjarðasölu ber á góma hjer á þingi, þá verður mörgum liðugt um málbeinið.

Jeg legg því það til málanna, að þetta mál verði nú tekið út af dagskrá og látið bíða þess, að nefndin láti uppi álit sitt um hina till, og að þær verði síðan samferða hjer í deildinni.