26.04.1918
Neðri deild: 10. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 933 í B-deild Alþingistíðinda. (930)

10. mál, sala Ólafsvallatorfunnar

Einar Jónsson:

Jeg býst við, að jeg sje einna kunnugastur þar eystra af þeim þm., er hjer sitja; þess vegna vona jeg, að tekið verði tillit til orða minna, er jeg læt uppi álit mitt í þessu máli.

Jeg er ekki samþykkur háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) um það, að láta bæði málin fylgjast að. Hjer er um mjög mismunandi ástæður að ræða. Eftir áliti Ágústs frá Birtingaholti stendur svo á um Ólafsvelli, að sá, sem býðst til þess að kaupa þá, ætlar sjer ekki að búa á þeim sjálfur; bæði er það, að hann er hniginn að aldri, og svo hefir hann ekki heldur búið um nokkurt skeið. Aftur á móti er kaupandinn að Gaulverjabæ ungur maður, sem ætlar sjer að búa á jörðinni framvegis. Sömuleiðis er það alkunnugt, að sá, sem beiðist kaupa á Ólafsvöllum, er maður lítt efnum búinn og mun því aldrei geta rekið jörðina með þeim krafti, er með þarf, en kaupandinn að Gaulverjabæ er aftur á móti maður sæmilega efnum búinn, sem bæði hefir vilja og vit á að reka þar góðan búskap, og hefir þegar reist jörðina úr niðurníðslu með dugnaði á stuttum tíma.

Jeg hefi því orðið samferða meðnefndarmönnnm mínum hvað sölu Ólafsvalla snertir, en í hinu málinu mun jeg fara nokkuð mínar brautir.

Það er rjett hermt, að komið hefir til tals þar eystra að setja á stofn bændaskóla eða lýðskóla. Ef nú Ólafsvellir eru, eins og sagt hefir verið, sjálfsagðir og best hentir sem skólajörð, þá gildir þessi mótbára ekki gagnvart sölu Gaulverjabæjar, því að ekki er þörf nema á einni jörð til slíkra hluta.

Það er ekki heldur víst, að skólinn verði endilega í Árnessýslu, því að þar sem líklegast er, að báðar sýslurnar, Árnes- og Rangárvallasýslur, verði saman um slíka skólastofnun, þá getur skólinn alt eins vel orðið í hinni síðarnefndu eins og í hinni fyrnefndu.

Annars er það altaf tilfinningamál fyrir mönnum, þegar um þjóðjarðasölu er að ræða, og því álít jeg, að besta leiðin hefði verið og sje að vísa málinu til stjórnarinnar.