26.04.1918
Neðri deild: 10. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í B-deild Alþingistíðinda. (934)

10. mál, sala Ólafsvallatorfunnar

Þórarinn Jónsson:

Jeg sje engar líkur til þess, að málið verði nú tekið út af dagskrá, en jeg ætla samt að forðast að ræða mikið um jarðasöluna, heldur ætla jeg að athuga aðferðina, sem viðhöfð hefir verið í þessu máli, því að hún finst mjer allóviðfeldin.

Mjer líst sem sje ekki á það, að þótt einhverjar kvartanir komi til þingsins frá einstaka mönnum út af deilumálum heima í hjeraði, að það þá hlaupi upp til handa og fóta og samþykki þingsályktunartill. um eða út af slíku. Að þessu hefir það líka verið svo, að þegar þingið hefir gripið inn í framkvæmdir stjórnarinnar í jarðasölumálinu, þá hefir það ætíð verið gert með lögum frá þinginu; enda sýnist það engri átt ná að innleiða þá reglu, að banna eða heimila sölu á jörðum með þingsályktun frá annari deild þingsins.

Auk þess virðist mjer svo, að eitthvað persónulegt felist að baki þessu máli, og ætti þingið ekki að draga þess háttar mál inn til sín eða skifta sjer af þeim.

Jeg skal ekki um það segja, hvort sú jörð, sem hjer um ræðir, sje hentug eða vel fallin til að vera skólajörð, þótt því sje haldið fram af mótstöðumönnum sölunnar, sem æ og æfinlega er gert, hvort sem það á við eða ekki; jeg þekki staðhætti þar of lítið til að kveða upp slíkan dóm. En hitt veit jeg með vissu, að í þessu máli vantar ýmsar þær upplýsingar, sem nauðsynlegar eru áður en gengið er til atkvæða um till. nefndarinnar.

T. d. vantar upplýsingar um hin persónulegu atriði, sem að baki liggja málinu, hvort þau ekki beinlínis ranghverfa svo útliti þess, að ekkert sje á því að byggja, og svo vantar upplýsingar um það, hversu mikils virði jörðin myndi í raun og veru verða, ef þar yrði komið á þeim endurbótum, sem til standa. Því að það verð jeg að telja nauðsynlegt atriði, til þess að sennileg og sanngjörn virðing geti farið fram á jörðinni. Og þó að til mála kæmi að selja hana, myndi það ekki, af þessum ástæðum, geta orðið að svo stöddu.

Annars býst jeg við, að háttv. flm. (S. S.) og háttv. deild sjeu mjer sammála um það, að óhætt muni vera að vísa málinu til stjórnarinnar. Mönnum mun í minni, hver orð hún hefir haft hjer í deildinni um þetta mál og jarðasölumálið yfirleitt, þegar það hefir verið til umræðu á þinginu, og mun því engin hætta á, að hún hrapi að sölu slíkra jarða, sem hjer um ræðir, enda óhugsandi, að hún telji sig bundna við þingsál. frá annari deild þingsins í þessu efni.

Jeg vil því leyfa mjer að koma með svo felda rökstudda dagskrá:

Í fullu trausti þess, að landsstjórnin afli sjer ítarlegra upplýsinga í þessu máli, og að þeim fengnum leiði það til lykta á þann hátt, er hún telur rjett vera, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.