26.04.1918
Neðri deild: 10. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í B-deild Alþingistíðinda. (935)

10. mál, sala Ólafsvallatorfunnar

Frsm. (Sigurður Sigurðsson):

Út af ræðu hæstv. forsætisráðherra, þar sem hann talar um, að sú leið, sem við flutningsmenn höfum farið í þessu máli, sje ekki sem heppilegust, þá verð jeg að segja það, að jeg heyrði hann ekki benda á aðra leið heppilegri, er svo stendur á sem hjer.

Hæstv. forsætisráðherra gat þess, að stjórnin væri ekki skyldug að taka til greina þingsályktunartill., sem færi í bága við gildandi lög. Þetta má vel vera, en hins vegar er það alkunnugt, að stjórnin hefir kynokað sjer við að selja þjóðjarðir síðustu árin, og það gladdi mig að heyra, að hún skuli enn vera sama sinnis, því að jeg álít, að ekki beri að selja eina einustu þjóðjörð eða kirkjujörð, og síst slíkar jarðir, sem hjer um ræðir. En þegar leitað var til okkar þm. Árn. út af sölu Ólafsvalla, þá sáum við ekki aðra leið heppilegri til þess að snúa oss til stjórnarinnar en þingsályktunarleiðina, og því völdum við hana.

Auk þess hygg jeg, að þeir, sem að málinu stóðu, mundu ekki hafa verið ánægðir með, að við hefðum að eins snúið okkur til hæstv. forsætisráðherra og fengið hjá honum eitthvert vilyrði fyrir því, að salan yrði ekki látin fram fara. Jeg er ekki með þessum orðum að bera brigður á það, að stjórnin haldi loforð sín. En jeg tel rjettast að koma til dyranna eins og maður er klæddur og láta málið koma sem best í dagsljósið, en til þess sje jeg ekki aðra leið betri en þá, sem hjer hefir verið farin.

Hvað því viðvíkur, að hjer sje verið að taka einstaka jörð út úr, þá helgast það eingöngu af því, að um bana hefir verið beðið til kaups.

Það, sem háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) talaði sjerstaklega um í sinni ræðu, að eitthvað persónulegt lægi að baki málinu, sem þyrfti að koma í dagsljósið, þá er mjer með öllu ókunnugt um það, og fyrir mjer er áreiðanlega ekkert persónulegt í því. Það leiðir því af þessu, að hreinasti óþarfi er að fresta málinu, og legg jeg því á móti dagskránni.

Ekki ætla jeg mjer nú, fremur en áður, að svara háttv. 2. þm. Rang. (E. J.), því að þá mundi jeg neyðast til að fara að tala um mál, sem ekki er á dagskrá, en það tel jeg með öllu alveg óviðeigandi.