26.04.1918
Neðri deild: 10. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 942 í B-deild Alþingistíðinda. (939)

10. mál, sala Ólafsvallatorfunnar

Jón Jónsson:

Það er eins ástatt um mig og háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.), að mjer finst ekki ástæða til þess, að háttv. deild samþ. þessa þingsályktunartillögu. Vjer höfum fyrir oss álit sýslunefndar Árnessýslu, og mjer finst sumir háttv. þm. fara nokkuð óvirðandi orðum um vilja hennar í þessu máli. Því að þótt sýslunefnd hafi áður verið á móti sölu á jörðinni, þá geta vel hafa komið fram nýjar ástæður í málinu, sem rjettlæta það fullkomlega, að henni hefir nú snúist hugur.

Eins verður að lita svo á, sem sýslunefnd álíti einhverja aðra jörð en þessa heppilega fyrir alþýðuskóla, enda er það líka játað í fylgiskjali því, sem prentað er með tillögunni, að sumt mæli fremur með Skálholti sem skólajörð. Skálholt virðist líka að mjög mörgu leyti heppilegri staður fyrir alþýðuskóla en Ólafsvellir, og má benda á, að þar var frægast skólasetur landsins um margar aldir.

Jeg held, að háttv. flutnm. (S. S.) hafi gefið í skyn, að hætta væri á, að farið yrði að braska með jörðina, ef hún yrði seld.

Nefndin minnist ekki á þetta, og ástæður hennar eru, að því er mjer virðist, fremur veikar. En ef háttv. flutnm. (S. S.) hefir eitthvað fyrir sjer í þessu, þá er það gild ástæða. Að eins er það undarlegt, að sýslunefnd skuli þá hafa sjest yfir hana.

En nú vitum við, að stjórnin heldur fast í þjóðjarðirnar, selur þær ekki, nema það sje alveg sjálfsagt samkvæmt lögunum. Því virðist mjer tillaga þessi óþörf. Óþarfi fyrir þingið að útiloka sölu þessarar jarðar, enda ekki svo gildar ástæður færðar fyrir tillögunni, að nauðsynlegt sje að taka í taumana. Þingið hefir jafnan sýnt sig fylgjandi þjóðjarðasölunni, og mun vera það enn. Gæti verið mótsögn í því að banna sölu þessarar jarðar, ef ekki eru alveg sjerstakar ástæður til þess. En þær liggja ekki fyrir. Því vil jeg láta stjórnina hafa veg og vanda af þessu máli.