26.04.1918
Neðri deild: 10. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 945 í B-deild Alþingistíðinda. (943)

10. mál, sala Ólafsvallatorfunnar

Einar Arnórsson:

Það er að eins örstutt athugasemd, sem jeg vildi koma með út af ræðu hæstv. forsætisráðherra. Mig hefir nefnilega furðað á því, hve skift hefir um í ræðum hans, en þær eru þegar orðnar fjórar í þessu máli. Mjer heyrðist fyrst, er hann talaði, að hann væri feginn því, ef háttv. deild fyndi nægilega ástæðu til þess að skora á stjórnina að neita sölunni, og feginn því, að þingsályktunartillagan kom fram, því að með því móti væri hann löglega afsakaður. Nú er það vitanlegt, að þingið var á alt annari skoðun en stjórnin í þjóðjarðasölumálinu í fyrra, þar sem það feldi frv. hennar um frestun ásölu þjóðjarða. Þetta vissi hæstv. stjórn fullvel, og vjer bjuggumst við því, að hún teldi sig því einmitt nú úr öllum vanda gagnvart kaupbeiðendum, ef þingsályktunartillaga sú, sem hjer liggur fyrir, yrði samþykt, teldi sig löglega afsakaða, bæði gagnvart hlutaðeigendum og þinginu. Og jeg geng líka að því vísu, að hæstv. stjórn taki þingsályktunartillöguna til greina, nema hún lýsi hjer beint yfir því, að hún geri það ekki. Menn vita, að sýslunefnd Árnessýslu hefir verið á mörgum áttum í málinu. Árið 1914 kom fram hjá henni ein skoðun í því, árið 1916 önnur og nú, árið 1918, sú þriðja, gagnstæð þeirri, sem uppi á teningnum var áður.

Það sýnist því valt að byggja mikið á áliti sýslunefndarinnar. Tillagan er, sem sagt var, komin fram til þess, að stjórnin standi betur að vígi um að neita um söluna, bæði gagnvart þingi, sýslunefnd og kaupbeiðendum. Þessa jörð er rangt að selja nú, og það á háttv. deild að láta stjórnina vita. En stjórnin er væntanlega einnig á sömu skoðun.