26.04.1918
Neðri deild: 10. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 946 í B-deild Alþingistíðinda. (946)

10. mál, sala Ólafsvallatorfunnar

Frsm. (Sigurður Sigurðsson):

Örstutt athugasemd. Hæstv. forsætisráðherra hefir aftur ítrekað það, að þessi tillaga fengi að bíða eftir Gaulverjabæjartillögunni. Jeg sje enga ástæðu til þess. En hins vegar er honum óhætt að trúa því, að jeg legg engu minni áherslu á það, að Gaulverjabær sje ekki seldur. Hann þarf því ekki að ímynda mjer, að hjá mjer ráði neitt persónulegt í þessu máli, þótt jeg vilji láta samþ. tillögu þessa nú þegar. Jeg held, að frestun hennar yrði til þess að lengja umr. um hana enn meir en orðið er, og alt það verði endurtekið í umræðunum um Gaulverjabæ, sem sagt hefir verið hjer í dag.

Viðvíkjandi ræðu háttv. 1. þm. N.-M. (J. J.) skal jeg geta þess, að það er rjett, sem hann sagði, að jeg vjek að því í flutningsræðu minni, að hætta gæti verið á því, að þessi jörð, ef hún yrði seld, lenti í braskarahöndum. Sú skoðun mín hefir ekki breyst, enda þótt þess sje ekki sjerstaklega getið í nefndarálitinu. En þar er þessu ekki slept vegna þess, að nefndinni sje ekki æjóst, að sú hætta vofir jafnan yfir jörðum, sem seldar eru úr eigu þess opinbera. Svo að ef það ríður baggamunninn hjá honum, þá skal jeg skal taka það fram, að þessi hætta er ekki útilokuð. Því er honum óhætt að trúa.

Einhver gat þess, að sýslunefnd Árnesinga hefði leyft sölu á jörðinni 1914. Því máli var þannig farið, að Jón Bíldfell frá Ameríku falaðist þá eftir jörðinni. Sýslunefndin samþykti þá að selja honum með því skilyrði, að hann setti þar upp fyrirmyndarbú og byggi þar síðan svo og svo mörg ár. Að eins með þessum skilyrðum vildi sýslunefndin selja honum. En svo kom aldrei til þess, að gengið væri að þessum skilyrðum, og varð því ekki af sölunni.