11.05.1918
Neðri deild: 20. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 968 í B-deild Alþingistíðinda. (979)

40. mál, sauðfjárbaðlyf

Flm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg geng út frá því, að þá er lögin um sauðfjárbaðanir voru samþykt og hreppsnefndunum var falið eftirlitið, þá hafi það verið álitið nægilega tryggilegt. En aftur er gert ráð fyrir því, að stjórnin setji nákvæmari ákvæði um þetta í reglugerð. En í reglugerð þeirri, er stjórnarráðið hefir gefið út, er ekkert tekið fram annað en það, hvernig eigi að blanda baðlöginn og hver baðlyf sjeu löggilt. En þetta er ekki nægilegt, heldur á hreppsnefndin að fá skilgreiningu á því, hvernig hún að öðru leyti framkvæmir eftirlitið.

Mjer er kunnugt, að í mínum hreppi hefir hreppsnefndin skipað mann á hverjum bæ, er sjái um böðunina. En það er ekki nóg. Ef næsti hreppur getur ekki baðað um sama leyti, þar sem fjársamgöngur eru, er sú hættan á, að böðunin verði ónýt Þess vegna þyrftu að vera samtök um það milli hreppanna að baða samtímis. Það er það, sem till. fer fram á. Álítum vjer flutningsmenn, að þessu yrði best náð með því að láta stjórnina herða á hreppsnefndunum í þessu atriði. Þetta vil jeg láta háttv. 2. þm. Rang. (E. J.) skilja.

Jeg hefi rætt um þetta við dýralækni, og telur hann ekki rjett að setja upp sjerstakt, nýtt eftirlit á kostnað fjáreigenda.

Háttv. 2. þm Barð. (H. K) þarf ekki miklu að svara. Það mun ekki vera einsdæmi, eða eingöngu hafa átt sjer stað í Barðastrandarsýslu, að baðanir farist fyrir, bæði af því, að baðlyf hefir vantað, og af beinum trassaskap En sjeu baðlyf til, þá er hægt að koma í veg fyrir trassaskapinn með betra eftirliti.

Hvað því viðvíkur, að hreppstjórar ættu að ganga í þetta með hreppsnefndum, þá má vel segja, að þeir geti það, en til þess eru þeir ekki skyldir að lögum (H. K.: Jú, þeir eru skyldir til þess að lögum).