09.09.1918
Neðri deild: 7. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í B-deild Alþingistíðinda. (102)

3. mál, sala á kjöti o. fl.

Flm. (Pjetur Ottesen):

Við höfum, 2 þm., jeg og háttv. þm. Barð. (H. K.), leyft okkur að bera fram þessa þingsályktunartill. á þgskj. 11, um sölu á kjöti og öðrum afurðum.

Það er nú að mestu útsjeð um það, hvernig fer um heyöflun á þessu sumri, og niðurstaðan verður óhjákvæmilega sú, að fjárfækkun verður geysileg í haust.

Bændur verða neyddir til að skerða bústofn sinn alveg stórkostlega.

Þótt mönnum hafi nú, víðast hvar, sennilega tekist að afla sjer nokkurs fóðurbætis, er það ekki nema að nokkru leiti bein aukning á fóðrinu, ef miðað er við venjulegt fóðurgildi heyjanna. Auk þess er útheysfeng víðast hvar þannig farið, að nær helmingur hans er sina, og gengur fóðurbætirinn til þess að bæta það upp, svo að með honum verður hey þetta nothæft, sem það annars væri ekki, nema að mjög litlu leyti.

Það er því fyrirsjáanlegt, að skepnufækkun er óumflýjanleg á þessu hausti, svo mikil, að þótt langt sje aftur í tímann litið, munu trauðla dæmi slíka.

Það er því enginn smáræðisvoði fyrir þjóðarbúskapinn í heild sinni, að bændur skuli nú vera neyddir til að skerða bústofn sinn stórkostlega, eins og markaðinum er nú háttað og verði á þessum afurðum, sem og öðrum afurðum hjer á landi.

Hjer eru því góð ráð dýr, og sannarlega þarf hjer skjótra aðgerða við, og með því atfylgi, sem frekast er kostur á.

Í bresku samningunum er að vísu kveðið upp verð á saltkjöti, en um það vera er það að segja, að það er mjög lágt, með tilliti til framleiðslukostnaðarins. Auk þess hvílir engin kaupskylda á Bretum hvað þessar afurðir snertir. Það eru jafnvel lítil líkindi til, að þeir kaupi þessa vöru, því að hingað til hefir lítill sem enginn markaður verið fyrir saltkjöt í Bretlandi. En þá kemur að því, sem er aðalatriðð í þessu máli: Fáum vjer að flytja kjötið til annarra landa og þá hvert?

Það er nú vitanlegt, að í nágrannalöndunum, Danmörku, Svíþjóð og Noregi, er nógur og góður markaður fyrir þetta kjöt, eina og allar okkar afurðir. En þá er spurningin, hvort vjer fáum leyfi til að flytja kjötið að nokkru eða öllu leyti á þennan markað.

Eftir samningum þeim, er síðast voru gerðir við Breta, fekst leyfi til þess að flytja 1000 hesta til Danmerkur og 50000 tunnur af síld til Svíþjóðar. Síðastliðið haust fekst og undanþága til að flytja nokkuð af kjöti til Noregs. En þar sem sú undanþága var einskorðuð við Noreg, bætti það lítið úr um verðið, frá því sem ákveðið var í bresku samningunum. Svo myndi enn sennilega fara, ef undanþága fengist um öllu á kjötinu, en hún væri einskorðuð við Noreg. Norðmenn myndu lítið hækka verðið frá því, sem er í bresku samningunum.

Það er því lífsnauðsyn, að láta einkis ofreistað til þess að fá leyfi til að flytja eitthvað af kjöti til Svíþjóðar eða Danmerkur. En til þess, að einhver líkindi sjeu til að þetta takist, þarf að vera samvinna milli stjórna þessara landa og íslensku stjórnarinnar um að knýja þetta fram, og það ekki einasta um þessa vörutegund, heldur og fleiri.

Það mun nokkuð hafa á, skort, að þessi samvinnuleið væri farin, er samningar hafa verið gerðir við Breta undanfarið, en þessi leið er sú eina líklega til þess að vinna nokkuð á í þessu efni. Hana verður að fara nú og eftirleiðis meðan þetta ástand ríkir.

Það er heldur engin ástæða til að ætla, að stjórnir þessara landa sjeu ekki fúsar til þessarar samvinnu við okkur, því að það er ekki síður í þeirra þágu en okkar, ef hægt væri að koma einhverju af vörum þangað. Kjötskortur er nú afskaplegur í þessum löndum. T. d. í Danmörku er svínarækt, sem áður var í miklum blóma, komin í kaldakol. Kjötverð er þar því geysihátt, alt að 8–12 kr. kg.

Eins og nú er komið mun kjötsala til Þýskalanda úr þessum löndum vera nær, ef ekki með öllu, horfin. Þá þyrfti því að reyna að færa Bretum heim sanninn um það, að þótt eitthvað fengist flutt út hjeðan, þá er engin ástæða til að ætla, að það yrði til þess að hlaða undir þjóðverja, auk þess sem þess gætir ekki meira en krækibers í ámukjafti í þá geysilegu þörf, sem þar er fyrir þessar vörur.

Svo sem kunnugt er, fáum vjer allmikið af vörum frá Danmörku, svo sem rúgmjöl, kartöflur og sykur. Ætti það meðal annars að vera góð ástæða og frambærileg, að vjer fáum að flytja til þeirra vörur í staðinn.

Um Svía er það að segja, að vjer höfum, eins og jeg hefi áður tekið fram, leyfi til að selja þeim 50,000 tunnur af síld, en óvíst er, að svo mikið aflist í ár, að vjer getum fylt þá tölu. Ætti það — með öðru — að styðja að því að vjer fengjum að flytja til þeirra kjöt fyrir það, sem á vantaði, og kann ske eitthvað meira.

Jeg held, að þessi samvinnuleið sje bráðnauðsynleg, og sjálfsagt nú þegar að reyna hana. Nú er ástandið alveg gerbreytt frá því, er bresku samningarnir voru gerðir, og verður frá okkar hlið að leggja alt kapp á að sýna Bretum fram á, hvílík vá er hjer fyrir dyrum, og að oss sje steypt í vísa glötun, ef vjer fáum ekki sæmilegt verð fyrir afurðir vorar. Það er alveg hárrjett, að það er bein glötun fyrir þjóðarbúskap þessa lands. En það þarf að gera gangskör að þessu nú þegar á þann þátt, sem tiltækilegastur er.

Það hefir komið fram till. í einu blaði (Þjóðólfi) um, að landið kaupi kjötið eins og síldina. Er sú till. kann ske góð. En jeg held, að vænlegra sje til framkvæmda, að landsstjórnin leiti undanþágu til að flytja vörur til þeirra staða, þar sem vjer fáum bærilegt verð.

Það ber ekki að skilja till. okkar svo, sem við vitum ekki, að hæstv. stjórn og útflutningsnefnd muni leggja alt kapp á þetta mál. En við vildum benda á, hvort ekki væri reynandi að fara þessa leið.

Eins er um hestamarkaðinn, ef hans hefði verið kostur annarastaðar en í Danmörku, Það hefir verið reynt að flytja besta til Englands. En á því er einhver agnúi.

Við ætlumst nú til, að einkis sje látið ófreistað, að sendir sjeu menn til Danmerkur, eða maður fenginn í Danmörku til aðstoðar fulltrúa vorum í London.

Eins horfir til vandræða með þær vörur, er Englendingar kaupa upp hjer. Þær sitja kyrrar í landinu, og horfir til vandræða, ef þær eru lengur látnar vera kyrrar og fylla húsrúm.

Það er þó ekki af því, að ekki sje hægt að fá skip til að flytja þær, heldur af hinu, að Bretar vilja ekki greiða þau flutningsgjöld, er skip taka alment. Jeg veit til þess, að seglskip hafa af þeim sökum orðið að sigla hjeðan tóm, eða einungis með kjölfestu. Þetta þarf líka að taka til rækilegrar athugunar.

Skal jeg svo ekki orðlengja frekar, en vænti þess, að það besta verði gert í þessu efni, sem kostur er á.