09.09.1918
Neðri deild: 7. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í B-deild Alþingistíðinda. (104)

3. mál, sala á kjöti o. fl.

Pjetur Jónsson:

Mjer virðist rjett við þetta tækifæri að fara nokkrum orðum um þær tilraunir, er gerðar hafa verið viðvíkjandi útflutningi á kjöti.

Hæstv. forsætisráðherra skýrði frá því, sem stjórnin hefði gert til þess að fá leyfi til að flytja kjöt til Norðurlanda. En ýmsir hafa spurt mig undanfarna daga, hvað þessu liði og hver væri árangurinn, og komið með ýmsar till. Vildi jeg þess vegna fara örfáum orðum um þetta.

Það er eðlilegt að það þyki undarlegt, að ekki fæst innflutningur á kjöti til Danmerkur. Þeir hafa, Danir, miðlað allmiklu af matföngum til Íslands og hafa sjálfir mikla þörf á vörum frá oss. Menn halda, að það sje klaufaskap að kenna, að ekki fæst að miðla vöru á móti vöru. En okkur hefir nú verið skýrt frá, hvernig í því liggur, og útflutningsnefndin hefir ekki sjeð til neins að reyna það frekar.

Ekki hefir heldur verið reynt af hennar hálfu að flytja kjöt til Svíþjóðar. Nú hefir sumum komið í hug, að ef svo færi um síldaraflann, að ekki aflaðist nóg í þessar 50,000 tn., sem þangað eru seldar, væri rjett að fara fram á að koma í það skarð kjöti. Þetta er hugmynd, sem vert væri að athuga, og þetta gæti verið hugsanlegt, en eftir síðustu frjettum, sem fengist hafa um síldaraflann, þá eru allar líkur til þess, að þótt hann sje rýr, muni þó takast að ná í þessar 50,000 tn. svo að vjer komum aldrei til að nota þennan útveg. Hins vegar geri jeg ráð fyrir, að það muni enn meiri örðugleikum bundið að koma kjöti til Svíþjóðar en síld, og gekk það þó, sem kunnugt er, mjög stirt.

Nú hefir útflutningsnefndin gengið út frá því, að fást mundi heimild til að flytja kjöt vort til Noregs, að svo miklu leyti, sem Bretar taka það ekki sjálfir. Og jeg efast mjög um, að Bretar muni taka mikið kjöt, að vísu er enn þá óafgert, hvort þeir taka nokkuð. En oss hefir ekki fundist rjett, á meðan engin ákveðin tilboð eru komin frá Noregi, að krefjast úrlausnar af bandamanna hálfu um það, hvort þeir ætli að taka kjötið eða ekki. En nú er meira en mánuður síðan að farið var að leita eftir því við Norðmenn, hvort þeir vildu fá kjöt. Og þó að við hugsuðum okkur, að það væri eðlilegast, að eftirspurnin byrjaði hjá þeim, þá töldum við rjett að hreyfa því við þá. En svo hefir það gengið, að þótt útflutningsnefndin hafi sótt eftir tilboðum, hefir hún ekki fengið svör. Það getur nú ef til vill stafað af símslitunum, og kemur það ekki fyllilega í ljós fyr en síminn er kominn í lag. En það er grunur minn, að þótt Norðmenn vilji kjötið, þá fari þeir hægt í boðin, til að pressa það niður.

Jeg hefi þá skýrt frá, hvernig sakir standa um kjötið, að þar erum vjer í óvissu enn þá. Menn vita um aðrar vörur nokkurn veginn ákveðið. Að vísu er búist við, að nokkuð verði af fiski um fram þær 12000 smálestir, sem Bretar taka fyrir lægra samningsverðið, og óráðin gáta, hvað fyrir þann fisk muni fast. Eru þó líkur fyrir því, að hátt verð muni fást fyrir þann fisk, ef bandamenn verða sanngjarnir um flutning á honum til hlutlausra landa. Jeg veit eigi, hve mikill hann verður, en varla mun mega búast við, að fiskútflutningur frá landinu verði meiri en 16 þús. smálestir alls.