09.09.1918
Neðri deild: 7. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í B-deild Alþingistíðinda. (105)

3. mál, sala á kjöti o. fl.

Hákon Kristófersson:

Háttv. aðalflm. (P. O.) hefir nú gert ítarlega grein fyrir því, hvað fyrir okkur flutningsmönnum vakti með þessari till.

Hæstv. forsætisráðherra og háttv. þm. S.-Þ. (P. J.), sem er málinu mjög nákominn, hafa nú báðir látið uppi álit sitt um málið, og er jeg þeim þakklátur fyrir undirtektir þeirra undir till.

En af því að mjer er mál þetta nokkuð skylt, vildi jeg segja örfá orð um það á öðru sviði, og þótt jeg fari nokkuð út fyrir það, eins og það liggur hjer fyrir, þá vona jeg, að hæstv. forseti taki mjer það ekki illa upp.

Fyrst vildi jeg skjóta þeirri spurningu til hæstv. forsætisráherra, hvort nefndirnar, innflutnings- og útflutningsnefnd, semji ekki reglugerðir sínar í samráði við hæstv. stjórn. Jeg sje hjer í blaði, að útflutningsnefndin hefir nýlega gefið út reglur um meðferð, sölu og útflutning á saltkjöti. Jeg hefi farið yfir hana, og eftir minni þekkingu eru sum ákvæði hennar alveg ómöguleg, eins og staðhættir og aðstæður eru hjer á landi. Jeg vil ekkert um það segja nema þau væru æskileg, ef þau væru framkvæmanleg. En eigi þau að vera framkvæmanleg, þá mega þau ekki vera langt frá, því, sem verið hefir. Mjer virðist sem virðuleg útflutninganefnd hafi gengið út frá því, að alstaðar á landinu sjeu sláturhús, þangað sem reka megi fjeð til slátrunar. Eftir 3. gr. reglugerðarinnar er t. d. ætlast til þess, að »öll slátrun, flokkun og meðferð kjötsins skal fara fram undir umsjón eiðsvarinna kjötmatsmanna« o. s. frv. Mjer er alveg ómögulegt að hugsa mjer, hvað vakað hafi fyrir útflutningsnefnd og landsstjórn, er þau ljetu þessi ákvæði frá sjer fara, með þeirri þekkingu, sem ætla má, að þessi stjórnarvöld hafi á staðháttum.

Jeg get síst ætlað, að ofan á lága verðið eigi að bæta því, að gera mönnum ómögulegt að selja kjötið og flytja út. En það er ómögulegt, ef þessi ákvæði eiga að vera annað og meira en pappírsgagn. Jeg tek til dæmis eyjarnar á Breiðafirði. Þar er kjötið flutt á skipum til verslunarstaðarins, og þar tekur kaupmaðurinn við því og saltar það. Aðra aðferð er varla hægt að hafa þarna, nema þá að flytja tunnurnar út í eyjarnar. Mjer er kunnugt, að kjötið frá Breiðafirði er sjerstaklega vandað. Það er stimplað af hjeraðslækninum þar og er fyrsta flokks kjöt. Ætti nú að framfylgja reglugerð þessari, eftir því sem jeg skil hana, yrði þetta ómögulegt, og tryggingin engin fyrir því, að kjötið yrði vandað, vegna staðháttanna.

En það skýtur nokkuð skökku við, ef bændur, ofan á lágt verð, eiga að fara að viðhafa óvenjulega aðferð og lítt framkvæmanlega við meðferð á kjötinu. Jeg verð að segja það, að ef þessi reglugerð verður framkvæmd, þá verður hún rothögg á allar þær sveitir, sem ekki eiga sláturhús, en að eins til góðs fyrir þau hjeruð, sem sláturhús eiga.