02.09.1918
Neðri deild: 2. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í B-deild Alþingistíðinda. (11)

1. mál, dansk-íslensk sambandslög

Einar Arnórsson:

Jeg þarf ekki að svara háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) mörgu, því að hann hnekti ekki í neinu samanburði mínum á frv. þessu og frv. 1908. Þess var ekki heldur von, því að sá samanburður var rjettur.

En nú hefi jeg hugsað að bera saman annað frv., frv. frá 1909, sem hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) var fylgismaður að þá og samið var af nefnd, sem hann átti sæti í.

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) drap á ýms atriði þess frv. í sinni ræðu, en samanburður hans var ekki tæmandi, og vil jeg því leyfa mjer að minnast á nokkur fleiri atriði.

Með frv. 1909 voru Dönum, eins og sýnt skal verða, síst veitt minni rjettindi en eftir frv. 1918. Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), sem er einn af feðrum frv. 1909, er þá eigi síður »stórsali« á rjettindi landsins en fylgismenn frv. 1918, ef rjett er að nefna nokkurn því nafni.

Byrjun þess, 1. gr., er að efni til lík og frv. 1918, nema því er bætt við, að í heiti konungs komi orðið Ísland á eftir orðinu Danmörk.

Kann jeg því illa að gera það að reglu, að Ísland skyldi altaf standa á eftir, því að þar sem eina stendur á og hjer, er það venja að raða landanöfnum annaðhvort eftir stafrófaröð, eða að það landið, sem á hlut hverju sinni, setji sitt nafn fyrst.

En þetta er að eina formsatriði og skiftir ekki miklu máli.

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) mintist á gagnkvæma rjettinn. Er nákvæmlega sama um það atriði nú og var í frv. 1909, 4. gr., því að vjer getum sett heimilisfestu hjer að skilyrði fyrir nautn rjettinda; tímalengdin er hin sama, getur munað einu ári, og er slíkt ekki teljandi.

Dönum er þar einnig falið að gæta fiskiveiðarjettarins og um leið heimilaður rjettur til fiskiveiða, eins og nú.

Í 4. gr., þá er hið sama sagt og nú í 6. gr.

Og jeg get ekki sjeð, að það sje nein fjarstæða að setja Íslendingum, sem farnir eru af landinu fyrir fult og alt, búsetu sem skilyrði fyrir rjettindum hjer.

Þótt bæði mjer og öðrum sje hlýtt til Vestur-Íslendinga, þá verður því ekki neitað, að margir þeirra eru hættir að vera Íslendingar og orðnir breskir í hugsunarhætti og hafa týnt máli sínu; er það ekki nema eðlilegt, þegar þess er gætt, að þeir ala aldur sinn undir sterkum breskum áhrifum.

Og margir eru þeir, sem flutt hafa sig hjeðan, að þeim hefir farist líkt og vissum dýrum, þegar skipið sekkur, eða þau halda, að skipið ætli að sökkva.

Þeir menn eru til, sem hafa aflað sjer fjár hjer og haldið síðan á burt til að eyða því annarsstaðar.

En engin sanngirni er í því að veita slíkum mönnum jöfn rjettindi og hinum, er líða og stríða með landsmönnum hjer.

Þá er eitt atriði í frv. nú, sem vantar í frv. 1909, að Danir geti ekki breytt ríkiserfðalögunum án okkar samþykkis, og ekki heldur ráðið einir, hvort konungur megi ríkja í öðrum löndum.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) sagði, að Dönum væri hjer veittur meiri rjettur en þeir hafa áður notið, en það er fjarri öllum sanni, eins og hann má best vita sjálfur, þar sem okkur hefir ekki áður tekist að fá því framgengt, að skilyrði til að reka hjer verslun væru þau, að maðurinn væri hjer búsettur, en nú er það talið sjálfsagt, að hvort land setji slík skilyrði fyrir sig eftir vild. Kom það greinilega fram hjá, nefndunum í sumar.

Þá veit jeg ekki, að plokka þurfi neitt úr löggjöf vorri, nema ef vera skyldi, að breyta þurfi 10. gr. stjórnskipunarlaganna 1915, til að afnema mismun, sem nú er milli hjer fæddra manna og annara.

En þegar betur er að gætt, er þetta saklaust, því að við getum sett búsetu um ákveðinn tíma sem skilyrði fyrir kosningarrjetti til Alþingis.

Og verði frv. þetta samþykt, höfum við ótvíræða heimild til að setja okkar eigin atvinnulöggjöf, svo sem siglingalög, skrásetningarlög o. s. frv.

Í gildandi lögum höfum við einnig ýms skilyrði, sem auðvitað gilda Dani jafnt eftir sem áður, t. d. að embættismaður á Íslandi verði að kunna íslenska tungu; enn fremur er heimtað próf frá deildum háskólans hjer til þess að geta orðið hjer embættismaður í þeim greinum, sem þar eru kendar.

Sömuleiðis er heimtað próf frá stýrimanna- og vjelstjóraskólanum hjer til þess að fá atvinnu í þeim greinum.

Þessi ákvæði öll gilda auðvitað eins fyrir Dani, eins og þeir líka hafa samskonar ákvæði hjá sjer, er gilda fyrir Íslendinga.

Svo lítur út, sem háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) telji Dani ganga fyrir Íslendingum að rjettindum hjer, eftir frv. Slíkt get jeg þó ekki ætlað honum í alvöru, þótt hann mæli slík orð í hita.

En hitt væri ef til vill hægt að hugsa sjer, að menn, sem ekki eru vel að sjer í málinu, ímynduðu sjer eitthvað þess háttar, t. d. að Danir mættu veiða hjer á botnvörpungum í landhelgi.

Þá hjelt sami háttv. þm. (B. Sv.) því fram, að Danir stæðu hjer betur að vígi við auðsuppsprettur landsins. Það má segja, að svo líti út í svip. En það er þá ekki nýtt. Danir hafa um langan tíma átt kost á að nota sjer auðsuppsprettur vorar.

En hvert hefir gagn þeirra verið?

Það má að vísu segja um eitt amt, Færeyjar, að það hafi notað sjer fiskiveiðarjettinn hjer. En fæstum mun þykja frágangssök að leyfa þeim slíkt áfram.

Danir hafa reynt að reka hjer verslun, en oftast farið á höfuðið í seinni tíð, og nú er selstöðuverslunin nálega horfin. Sjávarútveg hafa þeir einnig reynt hjer og líka farið á höfuðið.

Býst jeg því við, að þeir hafi fengið sig fullþreytta á slíku fyrst um sinn. Hygg jeg, að aðrar þjóðir sjeu til, sem okkur megi standa meiri stuggur af í slíkri samkepni.

Danir hafa líka nóg svigrúm heima fyrir, enn sem komið er. Þar eiga þeir enn þá, óbrotin lönd, svo sem Jótlandsheiðar o. fl.

Auk þess eru þeir óvanir landsháttum hjer og loftslagi, og fjarlægðin gerir það að verkum, að þeir standa best að vígi, sem í landinu búa. En þegar litið er til Dana þeirra, sem sest hafa hjer að, þá dylst það ekki, að þeir hafa fljótt samlagast og gerst sem Íslendingar, og þá ekki síður niðjar þeirra.

Þá mintist háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) á ákvæði 18. gr., um atkvæðafjöldann í sameinuðu þingi. Það er að vísu rjett, að öll frv., sem ekki koma fyrir sameinað þing, ganga í gegn með einföldum meiri hluta.

En þetta mál er ekki saman berandi við venjulegt frv.; til þess verður að vanda betur, og verður því að tryggja svo mikinn meiri hluta, sem hjer er akveðið.

Þá kem jeg að þessu atriði, sem sumir virðast svo hræddir við, að ekki verði næg hluttaka í atkvæðgreiðslunni, ekki sje hægt að búast við, að þátttaka verði jafnalmenn í slíkri atkvæðagreiðslu sem þessari eins og í kosningum, þegar frambjóðendurnir gera alt, sem í þeirra valdi stendur, til að smala kjósendunum a kosningastaðinn. En jeg vil segja, að ef áhuginn á samningsslitum er ekki svo mikill hjá þjóðinni, að hún nenni að taka þátt í atkvæðagreiðslu, þá sje hann síst svo mikill, að leggjandi sje út í skilnað.

Samningsslit eru því að eins ráðleg, að öflugur meiri hluti fylgi þeim.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) taldi varhugavert, að stjórnarvöldin ljetu menn sína standa yfir kjósendum meðan þeir greiddu atkvæði. Jeg get ekki sjeð, að hvaða leyti það þyrfti að vera athugavert. Eins og nú er ástatt, standa menn stjórnarvaldanna, kjörstjórnirnar, yfir mönnum. En þótt kosið yrði í heimahúsum, er ekki að sjálfsögðu gefið, að neinir umsjónarmenn væru látnir standa yfir þeim, er kysu. Brjefleg atkvæðagreiðsla er engin fjarstæða. Benda mætti á dæmi til hennar fyrir 60–70 árum.

Háttv. þm. N.-Þ. (B Sv.) vildi ekki leggja mikið upp úr því ákvæði 19. gr., að Ísland lýsti yfir ævarandi hlutleysi sínu. Það væru Danir, sem tilkyntu það öðrum þjóðum, og það syndi yfirráð þeirra. Rjett er það að vísu, að Danir tilkynna það, en þeir gera það í okkar umboði samkvæmt 7. gr. Við skulum segja, að háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) gefi mjer umboð til að gera eitthvað fyrir sína hönd. Mundi nokkur líta svo á, að jeg væri aðili þess máls? Alveg eins er um þetta. Í 7. gr. gefum við Dönum umboð til að fara með utanríkismálin, og samkvæmt því umboði tilkynna þeir öðrum þjóðum, að vjer lýsum yfir hlutleysi voru. Ef þetta væri svo orðað, að Danir lýstu yfir hlutleysi voru, þá, væri kannske fremur hægt að finna orðum hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) stað, og þó er það hæpið, því að þessa gr. ber að skilja í sambandi við 7. gr.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) hjelt því fram, að Ísland afsali sjer þeim rjetti til að senda fulltrúa sína til annara ríkja án íhlutunar utanríkisstjórnar Dana, sem það hefir þegar notfært sjer í verki. Þetta er gersamlega tilhæfulaust. Samkvæmt 7. gr. hafa Íslendingar rjett til að senda sína menn hvert í lönd sem vill. Í aths. við 7. gr. er og skýrt tekið fram, að Íslendingar geti eftir sem áður sent menn sína til utanríkissamninga, þegar þörf krefur, án þess að gera utanríkisráðherra viðvart fyrir fram. Er beint vitnað til þess, sem átt hefir sjer stað meðan ófriðurinn hefir staðið, í þessu sambandi.

Annars virtist þingmaðurinn (B. Sv.) gera mikið úr því, að 1916 var sendur maður til Englands fyrir hönd íslensku stjórnarinnar. Jeg vil benda honum og hans skoðanabræðrum á að hæpið er að byggja það á slíkri sendiför, að vjer höfum þegar tekið utanríkismálin í vorar hendur. Ýms undirtylluríki hafa sent slíka menn og jafnvel einstök fjelög. Má nefna samvinnufjelögin í Danmörku; þau sendu mann til Englands, og lofaði hann í þeirri för meiru en Danir gátu staðið við. En hæpið mundi að byggja á slíkri sendiför, að samvinnufjélögin dönsku væru ekki undirgefin utanríkismálastjórn lands síns.

Það var skrítin athugasemd, sem hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) gerði við 16. gr. Jeg skil ekki í því, að hann skyldi ekki kannast við, að hún var ástæðulaus, þegar jeg benti honum á, að hann skyldi lesa lengra. Í greininni stendur svo: »Sjerhvert lagafrumvarp . . . . . skal hlutaðeigandi stjórnarráð leggja fyrir nefndina til álita áður en þau eru lögð fyrir Ríkisþing eða Alþingi«. Það hlýtur hver og einn að sjá, að hjer getur ekki verið átt við annað en stjórnarfrumvörp. Hvað gæti »hlutaðeigandi stjórnarráð« ráðið við önnur frumvörp? Það hefði verið nær sanni að segja, að þingmannafrv. skyldu lögð fyrir nefndina eftir á, því að sagt er í greininni, að frv. skuli lögð fyrir nefndina áður en þau eru lögð fyrir Ríkisþing eða Alþingi, nema það sje sjerstökum vandkvæðum bundið. Um þingmannafrv. mundi þetta nær altaf vera »sjerstökum vandkvæðum bundið«. Jeg segi, að þetta hefði haft meira til síns máls, og þó nær það ekki nokkurri átt. Stjórnin hefir engan lagalegan rjett til að meina einstökum þingmönnum eða þingdeildunum að halda áfram málum sínum. Nefnd þessari er ætlað að fast við stjórnarfrv. ein og þótt það sje að vísu satt, að hún sje ekki nauðsynleg, þá getur hún varla orðið til neina skaða. Aftur gæti nokkurt gagn leitt af störfum hennar. Íslensku nefndarmennirnir munu hafa nákvæmt eftirlit með framkvæmd sambandslaganna af hálfu Dana gagnvart okkur, og gætu í tíma gert athugasemdir við, ef að þyrfti að halda. Engin ástæða er til að halda, að nefnd þessi geti haft óheillavænleg áhrif hjer á Íslandi. Hún verður að eins ráðgefandi, og er Alþingi og stjórn í sjálfsvald sett, hvort það fer að ráðum hennar.

Sú stefna er nú ofarlega á baugi víða á Norðurlöndum, og að nokkru leyti um heim allan, að samræma löggjöfina eftir því, sem þörf er á. Má nefna víxillöggjöfina. Gilda nú má heita sömu víxillög um öll Norðurlönd. Sama er að segja um siglingalöggjöfina. Er svo um þessi efni, sem og mörg önnur, að nauðsyn er á sem mestu samræmi í löggjöf um þau í öllum ríkjum, er eitthvað eiga saman að sælda. Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) ætti að muna eftir viðskiftalögum, sem samþykt voru á þingi 1911; þau lög eru samhljóða um öll Norðurlönd. Nú hefir síðustu árin verið unnið að nýrri lagasmíð um kröfurjettinn, sem sameiginlegur á að verða um öll Norðurlönd. Til sömu nauðsynjar hefir verið fundið um ættarrjett, erfðarjett o. fl. Það er ekkert annað en þetta, sem liggur bak við ákvæði 16. greinar, ekkert annað en það, að koma á samræmi í löggjöf beggja ríkjanna, þar sem ástæður landanna leyfa.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) komst svo að orði, að nefnd þessi væri arftaki ríkisráðsins. Jeg get þá frætt hann á því, að ríkisráðið hefir aldrei verið þrándur í götu sjermálalöggjafar vorrar. Það, sem í ríkisráðinu gerist, er ekki annað en upplestur á því, sem fyrirfram er búið að afráða. Það fer fjarri því, að nefndinni svipi að nokkru leyti til ríkisráðsins. Það fer og fjarri því, að hún geti gert oss skaða. Hún getur engum lögum neitað um staðfestingu. Og þótt hún yrði ekki sett, þarf enginn að halda, að Danir mundu ekki fylgjast með löggjöf vorri.

Ummæli háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) um þessa nefndarskipun voru að eins einn liður í öllum tilraunum hans til að mála fjandann á vegginn. Jeg játa, að nefndarskipunin er ekki nauðsynleg, en getur þó orðið gagnleg. En hann vildi sýna fram á, að hún væri stórhættuleg. Hann gáir ekki að því, að sá, sem sannar of mikla, sannar í raun og veru ekki neitt.

Í sambandslögunum veitum vjer Dönum engin ný rjettindi nje gefum þeim aftur eftir nokkuð það, sem vjer þegar höfum dregið úr höndum þeirra, heldur staðfestum við um víst árabil í sumum greinum það ástand, er verið hefir.

Um hervarnaskylduna skal jeg geta þess, að í frv. 1908 og 1909 — frv. sjálfs þm. N.-Þ. (B. Sv.) — var ekki betur um búið en svo, að Íslendingar, sem í Danmörku búa, urðu þar herskyldir. Þetta var ekki hallkvæmt, og lítum við nefndarmenn svo á, að ranglátt væri, að þegnar annars ríkisins gætu orðið herskyldir í hinu. Fyrir það var því girt í því frv. til sambandslaga, er nú liggur fyrir þinginu.

Í staðinn fyrir að vefengja samanburð minn á frv. 1908 og 1918 lagði háttv. þm. N-Þ. (B. Sv.) út af því, að nú hafi kveðið við annan tón hjá mjer en 1908. Þó að jeg hafi álítið rjett að ganga að frv. 1908, þá er ekki hægt að draga af því þá ályktun, að jeg hafi þá (1908) ekkert haft út á frv. að setja, og því fremur nú, 10 árum seinna.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) samþykti frv. 1909, en eftir orðum hana nú að dæma virðist hann ekki mundu líta við því, er hann þá samþykti. Því þarf hann ekki að furða, þótt jeg sje ekki ánægðari með frv. 1908 en hann með frv. 1909.

Jeg finn mjer skylt að segja kost og löst á frv. 1908. Það var á sínum tíma stórt spor áfram, þótt það væri langt frá að fullnægja þeim kröfum, sem hægt er að gera fylstar.

Alt, sem vanta þótti í frv. 1908, er komið inn nú, og alt, sem þar var óskýrt, er nú fullskýrt, svo að hver maður getur skilið. Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) skilur það eins vel og jeg. Mér dettur ekki í hug að frýja honum vits, ef hann vill athuga málið rólega áður en hann lætur uppi skoðun sína. Fyrri ræða hans var »improviseruð«, og var ágæt ræða »sem slík«, en þá hafði hann ekki grafist jafnvel fyrir málið og hann nú þegar hefir gert.

Í einu atriði er jeg samþykkur háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), að þó að frv. þetta verði samþykt, og jeg telji það miklu betra en búast mátti við, þá er mikið undir framkvæmdinni komið. Það gildir um allar gerðir löggjafarþings og stjórnar, að þessi völd geta farið misjafnlega vel með málin. Því er það rjett og skylt, að vjer sjeum vakandi um alt, sem lýtur að framkvæmd þessara laga., ekki hvað síst, og láta ekki ganga á rjett þann, sem oss er áskilinn í frv. Vjer eigum ætíð að hafa það hugfast, en ráðgjafarnefndina ber skylda til þess aðgæta að og fylgjast vel með öllum þessum framkvæmdum.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) gat þess eða gaf í skyn, að milligöngumenn þingsins hefðu farið framar en þeim var heimilt, og sagði, að sameinaðar fullveldisnefndir hefðu farið fram á, að gera tvo sáttmála, að skjölin skyldu tvö. En jeg skal minna hann á, að það var ekki gert að þeirri nefnd fornspurðri að hafa skjölin ekki tvö, heldur eitt, heldur var það borið undir samfund fullveldisnefnda og fengið beint samþykt í henni að halda þessu ekki til streitu, og ef einhver hefir verið á móti, hlýtur honum að hafa þótt of fljótt að gefa þetta eftir þá, því að vitanlega er það óverulegt aukaatriði. Það er hvergi til fyrirskipað form á samningum milli ríkja. En annars var alls ekki rasað að því í nefndinni að ganga inn á, að alt skyldi vera í einu lagi; það var nákvæmlega hugsað og athugað skynsemisleiðina, og jafnframt rannsakað, hvað útlendir fræðimenn nafnkunnir segja um þetta atriði. Ber þeim öllum saman um, að alt sje undir því komið, hvernig samningurinn er til orðinn, að það sje frjáls samningur, þar sem ræður sameiginlegur vilji beggja aðilja. En hitt, í hvaða formi þessi frjálsi samningur komi fram, það sje fullkomið aukaatriði. Mætti nota þingsályktunarformið, en við slíkt stórmæli sem þetta þótti best við eiga að samþykkja það á sama hátt og lög. Enda hefir enginn steytt sig á þessu atriði. Og nokkur huggun getur það verið þeim, sem ekki trúa oss Íslendingunum, að sjá hvað próf. Nikolaus Gjelsvik segir í brjefi því til háttv. þm. Dala. (B. J.), er hann hefir leyft honum að birta. Hann segist kunna betur við, að það væri kallað sáttmáli, en augljóst sje, hversu það sje til orðið, að það getur ekki verið annað en samningur. Það er gott að hafa álit slíks manns fyrir sjer, enda þótt vjer ættum að geta treyst skynsemi vorri.

Það er leitt, að háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) hefir skýrt frv. þetta eins og hann hefir gert. Jeg sá fyrir skömmu í blaði einu skýringar Knúts Berlins á frv. Sú skýring var ágæt í vorn garð. Hann skýrir málið mjög líkt og við nefndarmennirnir. Það er ágætt fyrir oss að sjá, hvernig ríkisrjettarfræðingur Dana skýrir frv., en á sama hátt er það gott fyrir Dani að geta vitnaði orð jafnmæts og merks þingmanns og háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.). Þeir geta sagt við okkur hjer: »Þið skýrið þetta nú svona núna, en þessi góði Íslendingur hefir nú skýrt málið nákvæmlega eins og við viljum«.

Þó að Danir fallist ekki á rök háttv. þm. N.-Þ. (B Sv.) og telji þau röng að flestu leyti, þá er jeg ekki í efa um, að danskir málsvarar taki sjer til inntekta skýringa-niðurstöður hans.

Þá hefir hann ekki gert Íslandi gagn, heldur ógagn, með skýringum sínum, þótt þeim hafi verið mótmælt. »Smátt er það, sem hundstungan finnur ekki«, og jeg er ekki í efa um, að Danir reyni að hagnýta sjer þessar skýringar.

Jeg hefi nú tekið flest aðalatriði í ræðu háttv. þm. (B. Sv.) til greina, og held því, að jeg setjist niður. Vona jeg, að að hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) fái að syngja útgöngusálminn.