02.09.1918
Neðri deild: 2. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í B-deild Alþingistíðinda. (13)

1. mál, dansk-íslensk sambandslög

Benedikt Sveinsson:

Jeg ætla ekki að ræða um afbrigði frá þingsköpum, heldur að eins bera af mjer sakir.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) sagði, að jeg hefði rekið erindi Dana með því að benda á bresti frv. Jeg hafi unnið Dönum jafnþarft verk og Knud Berlin Íslendingum. Jeg verð að álíta, að háttv. þm. Árn. (E. A.) hafi þar farið rangt með, og eins háttv. þm. Dala. (B. J.), er hann sagði, að jeg hefði styrkt danskan málstað. Þessu verð jeg að mótmæla. Jeg hefi unnið Íslendingum þægt verk með því að æra út úr þeim, er samþykkja ætla frv., tvennan skilning og mismunandi fullyrðingar um það. Jeg ætla ekki að samþykkja frv., svo að ekki er hægt að segja, að það sje jeg, sem samþykkt þessi ákvæði, sem jeg hefi skýrt, en jeg hefi reynt að knýja fram skýringar andstæðinga minna á frv. Nú er eftir að sjá, hvernig þeir standa við skýringar sínar. En ef reynslan sínir, að jeg hefi litið rjett á, þá er það ekki mín sök, þótt jeg hafi ekki reynst fær um að snúa þinginu til rjetta vegar — að fella frv.