07.09.1918
Neðri deild: 6. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í C-deild Alþingistíðinda. (148)

4. mál, greiðsla af kostnaði af flutningi innlendrar vöru

Flm. (Benedikt Sveinsson):

Till. á þgskj. 7 hefi jeg leyft mjer að bera fram samkvæmt mörgum áskorunum, sem mjer hafa borist utan af landi, eins og segir í greinargerðinni fyrir till. En þannig stendur á þessum áskorunum, að mönnum er ekki lengur frjálst að selja ullina, fremur en aðrar afurðir, hvert eða hverjum sem þeir vilja, heldur verða þeir að selja hana landsstjórninni, sem síðan selur bandamönnum. Útflutningsnefndin, sem um þetta hefir að annast meðal annars, hefir gefið út reglugerð, sem birtist 20. júlí í sumar, og eru þar sjerstaklega tilnefndar þrjár hafnir, sem ullin skuli afhent, og eru það hafnirnar Reykjavík, Akureyri og Seyðisfjörður. Auk þessara hafna eru nefndar 12 hafnir, sem fulltrúar bandamanna hafa fallist á að afhenda megi ull.

En nú hefir landsstjórnin látið flytja ullina á sínum skipum, frá ýmsum þeim höfnum, sem áður voru „lokaðar“, og til Reykjavíkur, en á öðrum höfnum er ullin ekki tekin, þótt skipin komi þar við, heldur verða seljendur að greiða hátt aukagjald, alt að 9 aur. á hvert tvípund, til þess að koma ullinni á hinar lögskipuðu hafnir. Þetta veldur hinu mesta misrjetti og óánægju, þar sem ekki er látið eitt yfir alla ganga. Úr þessu á till. að bæta, eftir því sem fært þykir, og er í henni farið svo hóflega í þetta, sem auðið er, þar sem landsstjórnin hefir frjálsar hendur um það, hvort hún vill heldur greiða kostnaðinn úr landssjóði, eða þá að jafna honum á alla vörutegundina.

Jeg treysti stjórninni til að koma þessu hagkvæmlega fyrir, því fremur, sem hún hefir útflutningsnefndina sjer við hlið, sem vel þekkir til staðhátta umhverfis land alt.

Hjer í till. er sjerstaklega talað um ull, kjöt og gærur, en þó get jeg vel fallist á, að ákvæði hennar nái einnig til sjávarafurða, enda mun brtt. í þá átt vera í aðsigi.

Jeg hefi ekki gert svo freka kröfu, að allur halli sje greiddur, sem menn bíða af fyrgreindum ástæðum, heldur lagt til, að stjórninni verði falið að haga því eftir atvikum, enda getur margvíslega hagað til, og því ekki rjettlátt, að eitt sje látið yfir alla ganga.

Jeg gæti vel nefnt dæmi þess, hversu einstakar hafnir sæta miklu misrjetti í þessu efni, en jeg geri ráð fyrir, að hv. þm. sjeu þau nokkuð kunn og þeir viti sjálfir önnur samskonar dæmi, svo að óþarft sje að fara út í það frekar.

Jeg vona, að hv. deild geti fallist á þessa till. mína, með eða án breytinga, og von mín styrkist við það, að áður hefir verið samþykt till. hjer í deildinni, sem runnin er af mjög líkum rótum og þessi, till. um að jafna niður flutningskostnaði af innfluttri vöru, hvort sem hún kemur fyrst hingað til Reykjavíkur eða á einhverja aðra höfn.

Ef litið er á málavexti með sannsýni, munu flestir viðurkenna, að bændum sje ekki láandi, þótt þeim þyki það þungar búsifjar að verða að greiða 9 aura gjald af hverju tvípundi, ofan á allan þann kostnað, sem þeir hafa af geymslu, útskipun og uppskipun, — því fremur, sem verðið, er þeir fá fyrir ullina, er smáræði móts við það, sem fengist á frjálsum markaði, því að nú kostar tvípundið yfir 30 kr. í Svíþjóð.

Athugavert er, að ef kaupmenn hafa keypt ullina af bændum þeim mun lægra verði, sem nemur þessum aukakostnaði, þá er engin ástæða til þess að fara að greiða þeim neina uppbót, og er óhætt að eiga það á valdi útflutningsnefndar og stjórnar, að við slíku verði sjeð.

Jeg hafði því miður ekki tækifæri til þess að tala um þetta mál við menn úr útflutningsnefnd sem skyldi, en drap þó á það við einn þeirra, sem sæti á hjer í deildinni, hv. þm. S.-Þ. (P. J.). og tók hann liðlega í það, og vænti jeg málinu góðs stuðnings af honum.

Svo fel jeg hv. deild þetta erindi, sem mörgum er áhugamál, víðs vegar um landið.