09.09.1918
Neðri deild: 7. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í C-deild Alþingistíðinda. (151)

4. mál, greiðsla af kostnaði af flutningi innlendrar vöru

Flm. (Benedikt Sveinsson):

Sú málaleitun, sem kemur fram í till. á þgskj. 7, fjekk við fyrri umr. málsins góðar undirtektir, bæði af hv. þm. S.-Þ. (P. J.), sem er þessu máli allra þingmanna kunnugastur, og af hæstv. forsætisráðh. er mun telja hana bygða á sanngjörnum grundvelli. Hins vegar kemur það fram, sem jeg sá fyrir, að allörðugt mundi vera að gefa fastar reglur um framkvæmd á þessu. Þegar þetta er borið saman við fyrirkomulagið í öðrum löndum nú á dögum, svo sem í Englandi og Ameríku, þá sjest, að hjer er stefnt inn á svipaða braut og þar, að eins farið skemra. Í báðum þessum löndum var ákveðið, að jafnframt því, sem stjórnin tók verslunina í sínar hendur, skyldi öll varan keypt sama verði af framleiðendum, hvort sem þeir væru rjett við hliðina á henni eða byggju í fjarlægð, og hún annast allan flutningskostnað. Hjer er ekki farið svo langt, að öllum skuli greitt sama verð fyrir vöruna á sjálfum framleiðslustaðnum, heldur er að eins farið fram á, að stjórninni sje veitt heimild til að ljetta að einhverju leyti þeim kostnaði af bændum, sem leiðir af því, að þeir geta ekki selt og afhent vöru sína á þeim höfnum sem þeir eru vanir að afhenda hana á.

Nú mun svo vera um sumar þær hafnir, sem lofað hefir verið að taka vörur til útflutnings á, svo sem Þórshöfn, að þar verða vörueigendur að greiða töluvert aukaflutningsgjald fram yfir það, sem tekið er á öðrum slíkum höfnum. Þetta þarf að athuga. Þá er og svo, að til eru eins hagkvæmar hafnir til útflutnings eins og sumar þeirra, sem með eru teknar, og þeim þó slept; skal jeg til þess nefna Kópasker; þar er að vísu eigi jafngóð höfn sem í Þórshöfn, en útflutningstæki eru þar svo góð og dugnaður þvílíkur við útskipun, að skipstjórar hafa borið það, að hvergi gengi flutningur varnings milli skips og lands greiðara en þar, þar sem skipin gætu ekki beinlínis lagst við land eða bryggjur. Það er ekki í stuttri ræðu hægt að setja fastar reglur um það, hvernig kostnaðargreiðslan mundi haganlegast verða jafnað niður. Það verður að fela stjórninni og útflutningsnefnd á hendur að gera það.

Sumstaðar hafa kaupmenn þegar keypt vöruna og munu þeir hafa miðað verðið við aukakostnaðinn við flutninginn, og þar verður örðugt að bæta bændum hallann öðruvísi en beint úr landssjóði. Öðru máli er að gegna þar, sem bændur hafa selt landsstjórninni vöruna sjálfir eða þar, sem hún er enn óseld; þar gæti komið til mála að jafna aukakostnaðinum niður á alla vöruna og gefa jafnt fyrir hana, hvaðan sem hún kemur.

Hjer er og komin fram till. um að láta sjávarafurðirnar sæta sömu kostum sem landsafurðir þær, sem tillagan nefnir, og er þessi brtt. ekki nema eðlileg. En ekki minka örðugleikarnir á að jafna aukakostnaðinum niður við það. Sveitabændur flytja að jafnaði vörur sínar í ákveðna kaupstaði, en sjávarútvegsmenn flytja sínar vörur oft um langa leið, á mótorbátum eða öðrum skipum, sem þeir eiga sjálfir, og því ekki jafneinskorðaðir við að flytja þær á ákveðnar hafnir, og geta sjer að meinlausu eða meinalitlu flutt þær á útflutningshöfn, eigi síður en á aðra höfn. Þetta, eitt með öðru, þarf að athuga.

Næsta ár ætti að vera hægt að jafna niður flutningskostnaðinum á allar vörur, ef það ráð væri tekið í tíma, og enn ætti að vinnast tími til að jafna honum niður á haustvörurnar. Þyrfti því ekki að koma til landssjóðs kasta að taka á sig þá kostnaðarbyrðina.

Vegna hinna góðu undirtekta, sem till. þessi hefir fengið, vona jeg, að hún fái greiðan og góðan framgang.