09.09.1918
Neðri deild: 7. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í C-deild Alþingistíðinda. (156)

4. mál, greiðsla af kostnaði af flutningi innlendrar vöru

Pjetur Jónsson:

Þetta mál er óþægilegt viðfangs. Hv. deild vill kasta ábyrgðinni á því frá sjer og varpa henni á stjórnina og útflutningsnefndina. Jeg á að svo stöddu erfitt með að segja nokkuð ákveðið fyrir hönd útflutningsnefndarinnar, því jeg hefi enn ekki átt kost á að bera mig saman við meðnefndarmenn mína um málið. Ætti að fara eftir dagskrá þeirri, sem hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) vildi bera fram, þá mundi vandinn verða æði mikill og til mikils ætlast. Aftur finst mjer betra að fallast á ummæli hv. 1. þm. Eyf. (St. St.), að skjóta málinu beint til stjórnarinnar og fela henni að gera það í því, sem sæi sanngjarnast og hægt við að koma.

Jeg tel, að ekki sje viðlit, að greitt sje fje beint úr landssjóði til þess að ljetta undir með flutningskostnaðinn, heldur geti komið til mála að jafna nokkru niður á vöruna, til þess að jafna skakkaföll, sem fyrir kunna að koma í flutningunum, eða til að greiða eitthvað úr fyrir þeim, sem erfiðast eiga með þá. En eins og jeg hefi bent hv. flm. á, sje jeg ekki, að hægt sje að jafna með öllu misjafna flutningaaðstöðu hafnanna. Nú eru til hafnir, sem strandferðaskipunum er ekki ætlað að koma á, þótt miklar framleiðsluhafnir sjeu, svo sem Vík í Mýrdal og Borgarnes. Eftir öllum atvikum mun varla fært að ljetta af þeim aukakostnaði við vöruflutninga. Svipuðu máli er að gegna með Hornafjörð, en þó ekki alveg hið sama. Það til of mikils ætlast, ef það er heimtað, að allir standi jafnt að vígi með vöruflutninga meðan á ófriðnum stendur, og ekki verður það svo, þegar sú tíð kemur, að ófriðnum linnir og verslunin verður aftur gefin frjáls. En þau atvik geta þó komið fyrir, að fyrir íhlutun hins opinbera eða af öðrum ástæðum mæli öll sanngirni með, að einstökum mönnum eða kauptúnum sje rjett hjálparhönd til að koma burt vörum, án mjög mikils aukakostnaðar fyrir þá.