09.09.1918
Sameinað þing: 3. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í C-deild Alþingistíðinda. (164)

5. mál, vantraustsyfirlýsing

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Það ræður að líkindum fyrir hv. þm. og áheyrendur, að jeg og samverkamenn mínir getum ekki setið þegjandi hjá ræðu hv. þm. (N.-Ísf. (S. St.). Kemur mjer hjer til hugar atvik eitt úr Njálu, þar sem Bergþóra segir: „Gjafir eru ykkur gefnar feðgum, og verðið þið litlir af, ef þið launið engu“. En hvort launin verða hjer — pólitískt skoðað — lík þeim, sem þeir fengu, Sigmundur og Skjöldur, um það skal jeg engu spá að sinni.

Ræða mín mun að þessu sinni ekki verða eins löng og hjá hv. flm. (S. St.). Það tekur ekki sjerstaklega til mín að andmæla þeim kafla ræðu hans, þar sem hann er að fræða þingið um það, hvernig þingræðisstjórn ætti að myndast, og samvinnu slíkrar stjórnar við þingið.

Ýmislegt af því, sem sami hv. þm. (S. St.) bar á borð fyrir mig einan, er ekki þörf á að fjölyrða um, þar sem sumt hefir áður verið umtalsefni í þinginu, og sumt þannig fram sett, að það er beinlínis út í hött.

Jeg vil þá fyrst fara almennum orðum um málið. Hjer eru bornar fram tvær till., og jeg veit ekki, hvernig hæstv. forseti vill láta ræða þær. (Forseti: Það er eitt mál á dagskránni.) Það mun og hentugast vera, en þó það sje eitt mál, þá er ráðist á einn og einn mann í senn, en ekki alt ráðuneytið í heild. Það er líka þjóðkunnugt ráð, þegar verið er að rífa byggingar, að plokka burtu einn og einn stein í einu, þar til öll byggingin er að velli lögð, og þar sem hjer er ráðist á tvo ráðherra af þremur, þá finst mjer, að í raun og veru sje ráðist á ráðuneytið alt. (S. St.: Ekki forsætisráðherra.) Jeg get ekki skilið, að hæstv. forsætisráðherra sitji kyr, þegar báðir samverkamenn hans eru feldir, og svo er ef till. er samþykt, og jeg hefi heldur ekki orðið þess var, að hann vildi losna við mig eða hæstv. fjármálaráðh., svo jeg geri ráð fyrir, að hann sje ekki samþykkur þeim, er vilja samþ. till.

Vitanlega er það gott, eins og hv. flm. (S. St.) og hæstv. forsætisráðh. tóku óbeinlínis fram, að stjórn hafi samfeldan meiri hluta að baki sjer, en á þann hátt var eigi unt að mynda stjórnina hjer, en áður en jeg fer lengra út í það, hvernig það var gert, vil jeg líta á aðalhlutverk hennar og hvernig hún hefir int þau af hendi.

Þegar samsteypustjórnin settist að völdum, gaf hæstv. forseti stefnuskrá hennar hjer á þingi, og eru ummæli hans prentuð í þingtíðindunum, og vísa jeg þar til, en skal samt taka þetta fram:

Fyrsta atriðið á stefnuskrá stjórnarinnar var að reyna að minka flokkadeilurnar hjer á Alþingi, en áður þótti um of á þeim brydda, og þar sem stærstu þingflokkarnir völdu sinn manninn hver til þessa, þá er líklegt, að þeir hafi stutt þá að málinu. Mjer er spurn: Hefir á þetta brostið í aðalmálunum? Hafa verið miklar flokkadeilur hjer á þinginu? Nei – síður en svo. Enda sagði hv. flm. (S. St.), að þingið mætti heita einn flokkur eða flokksleysi. (S. St.: Það er nokkuð annað.) Það getur verið, að jeg hafi ekki náð prestsanda hv. þm. (S. St.), en víst er um það, að stjórnin hefir fullnægt þessu, og þetta er ekki þýðingarlítið atriði, eins og ljósast sjest á fylgi allra flokka við samræmislegar sjálfstæðiskröfur vorar út á við.

Annað atriði, er kom fram við myndun stjórnarinnar, var það, að það þótti ofvaxið einum manni að standa fyrir öllum stjórnarframkvæmdum á þessum erfiðu tímum og fleyta þjóðinni yfir boða ófriðarins, og þessu samsteypuráðuneyti var treyst til að fleyta þjóðinni fram yfir boðana. Hefir brostið á þetta? Jeg held ekki; við vitum, af áreiðanlegum sögum utan úr heimi, að okkur hefir liðið betur en líklega öllum öðrum þjóðum, þótt hlutlausar hafi verið.

Þriðja málið, er stjórnin setti á stefnuskrá sína, hefir hún því leyst vel málinu áfram, og í dag höfum við komið því máli í höfn frá þingsins hálfu, til ánægju fyrir nær allan þingheim, og jeg vona þjóðina einnig, en undir öllum kringumstæðum til blessunar fyrir land og lýð.

Þessi þrjú atriði, sem stjórnin setti á stefnuskrá sína, hefir hún því leyst vel og viðunandi af hendi, þrátt fyrir það, þótt stjórnin sje samsteypuráðuneyti, þrátt fyrir það, þótt kvarnast hafi úr flokkum þeim, sem styrktu stjórnina í öndverðu, og þrátt fyrir það, þótt hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) fylgi henni ekki að málum.

Frá þessu sjónarmiði skoðað er því ekki rjett að skifta um meiri hluta stjórnarinnar eða alla stjórnina, en það er líka vitanlegt, að það er ekki alt undir þessu komið; það geta verið smærri atriði, sem stjórninni hafa ekki farið vel úr hendi; þau geta verið ávítunarverð og enda árásarverð; jeg man það, að hv. þm. (S. St.) taldi á síðasta þingi það ekki árás á stjórnina, þótt henni væri ámælt. Hvorttveggja getur verið rjettmætt, en hjer er um árás að ræða, sem nú kemur undir dóm hins háa Alþingis, hversu með skuli fara.

Jeg fæ ekki sjeð, að hjer sje um reglulega stjórnarfarslega nauðsyn að ræða. Ekki eru það þessi þrjú mál, er jeg tók fram, og ekki hefir stjórnin verið ósamþykk í stórmálum. Hv. flm. (S. St.) reyndi að benda á tvö mál, en hæstv. forsætisráðherra hrakti það atriði svo rækilega, að óþarft er að minnast oftar á það, og afstaða mín var skýr; hún sjest í þingtíðindunum, og skoðanamunur var lítill. En það getur verið, að hv. þm. (S. St.) líti svo á, að þessi þrjú mál sjeu komin í svo gott horf, að eigi þurfi lengur að halda í sama horfinu. Þingið á ekki lengur í illdeilum út af stórmálum; stríðsráðstafanirnar eru komnar í fast horf, og fullveldismálin komin í höfn, — en þar þarf þó að vera vel á verði fyrst um sinn — en ef svo er, þá ekki ástæða til að bera fram vantraustsyfirlýsingu til ráðherranna, heldur, ef nokkuð er, þvert á móti, traustsyfirlýsingu, fyrir góða frammistöðu, að hafa leitt málin vel til lykta.

Það er ekki dulið neinum, að andstæðingar stjórnarinnar líta svo á, sem hagsmunalega sjeð þurfi að skifta um stjórn. Það er auðvitað, að til mín má heimfæra hið sama og til annara dauðlegra manna og ófullkominna, að „blindur er hver í sjálfs síns sök“, og það hefir jafnan verið svo, að eitthvað má að öllum finna, og enginn er alger, og því er það líka athugunarvert, að þótt nú væri skift um stjórn af hagsmunalegum ástæðum, þá er ekki víst, að betur farnist.

Eftir að hafa nú talað um, hvernig jeg lít á þessa þingsályktun frá almennu sjónarmiði, skal jeg þá snúa mjer að þeim sjerstöku atriðum, er fram komu í ræðu hv. flm. (S. St.), þó jeg, samkvæmt áður sögðu, taki þar ekki alt til greina.

Hv. flm. (S. St.) sagði, að stjórnin ætti að vera sterk og starfhæf, og ber jeg engar brigður á, að það sje rjett. En hann átti eftir að sýna, að líkur væru til þess, að næsta stjórn yrði þessum góðu eiginlegleikum gædd, og það í fyllra mæli en sú, sem nú er. Skal jeg koma betur að því áður en jeg sest niður. Þing er ekki svo skipað enn, að hægt sje að mynda stjórn, er hafi samfeldan meira hluta að baki sjer. Verður því að velja úr þeim flokkum, sem þeir menn eru úr, sem nú fara frá. Því er ekki meiri trygging fyrir því, að stjórnin verði sterk af þeirri ástæðu. Hitt skal jeg ekki dæma um, hvort hún yrði starfhæfari.

Hv. flm. (S. St.) tók nú fram ýms atriði, ekki að eins um forstöðu atvinnumálanna, heldur og um forstöðu fjármálanna. Vil jeg nefna þau eftir þeirri röð, er hann greindi þau í. Getur vel verið rjett, sem hann mælti, að meira sje til í pokahorninu. Það er gamalt mál, að „seint fyllist sálin prestanna“, og þá líklega einnig svo, að hún tæmist seint. Eitt af því, sem hann nefndi, var Tjörnesmálið, sem búið er áður að ræða hjer í 3 daga. (S. St.: En líka fleira). Já, og nú er, eins og hann sagði, meira blóð í kúnni.

Jeg veit ekki, hvað hann hefir meint með því, sem hann sagði um Flóaáveituna, því að stjórnin hefir ekki lagt henni neinn stein í veginn. En það var farið fram á það, að stjórnin tæki hana að sjer nú sem ákvæðisverk, en þá hefðu bæst 100 þús. kr. við þau hundruð þúsunda, sem hv. flm. (S. St.) gat um. Launamálinu ætla jeg að sleppa, af því að það heyrir nánast undir hæstv. forsætisráðherra. En jeg hygg, að jeg sje þar á sömu skoðun og hann (S. St.), að það mál sje komið í mesta öngþveiti. Hygg jeg, að stjórnin muni láta málið koma fyrir næsta þing og leggja þá fram eitthvað ákveðið, Svo að eigi sje einlægt verið að veita mismunandi háa dýrtíðaruppbót.

Jeg held, að hv. flm. (S. St.) hafi nefnt Tjörnesmálið — sem hann nefnir Tjörneshítina — fyrst. Jeg hjelt, að það hefði verið útrætt, og að menn myndi ekki fýsa að endurtaka það, sem sagt hefir verið um það. Hann nefndi skýrslu fjárhagsnefndar. Jeg hygg, að bent hafi verið á, að ýmislegt var ónákvæmt og sumt alveg villandi í þeirri skýrslu, sem von er, þar sem upplýsingar vantar, og meina jeg alls ekki, að slíkt hafi verið vilji nefndarmanna. Skal jeg geta þess, að 30–40 þús. kr. var varið til þess í upphafi að moka frá og búa til námugöng. Og ef reikna á það með starfskostnaði, en ekki stofnkostnaði, þá er það ekki í samræmi við það, sem venjulega er gert við stór fyrirtæki. Skal jeg bæta því við, að á Norðurlandi var eldiviðarekla, sjerstaklega á Húsavík og Akureyri. En þessi hjeruð nutu einmitt kolanna við góðu verði. Hv. flm. (S. St.) er ekki í vandræðum með þær einkunnir eða heiðursnafnbætur, sem hann vill hnýta við fyrirtækin á Tjörnesi og í Öskjuhlíð. Er það sjálfsagt rjett frá sjónarmiði hans og annara fleiri. En þar sem hann beinir Öskjuhlíðarsökinni að fjármálaráðherranum fremur en mjer, skal jeg sleppa því atriði.

Þá mintist hv. flm. (S. St.) á rekstur landsverslunarinnar og afskifti stjórnarinnar af henni. Taldi hann afskifti mín mjög óheppileg, og hefði landið fyrir þau tapað allmiklu fje. En mjer fanst á honum, sem hann vænti þess, að „ef til vill“ kæmi fullkomin skýrsla um starfsemi hennar. Vil jeg vona, að svo verði. Eins og kunnugt er, var á síðasta þingi skipuð nefnd til að rannsaka verslunarframkvæmdir landsins. En sú nefnd getur haft ýmislegt í fórum sínum, sem hún er enn ekki komin fram með. Svo fara endurskoðendur á sínum tíma gegnum öll þau skjöl, og gera sínar athugasemdir, vel og vandlega, og þá fjárhagsnefnd fyrir næsta fjárhagstímabil, er hún fær málið í hendur. Sje jeg því ekki, að það sje til nokkurs hlutar að deila meira um þetta nú í sameinuðu þingi, því að það yrði fullyrðingar meira og minna, sem ekki er hægt að staðfesta skjallega.

Það var þó eftir að jeg hafði byrjað afskifti af landsversluninni, að gerð var breyting á bókfærslunni, sem er betri og eftir nútíðarvenjum og verslunaraðferðum, og sömuleiðis gagnger rannsókn og reikningsskil, miðuð við vissan dag. Og það var snemma, sem sú hugsun vaknaði hjá mjer að ljetta þessum störfum af atvinnumálaskrifstofunni, því að þau urðu auðsjáanlega ofvaxin þeim mönnum, sem þar er á að skipa, eftir því sem verslunin færðist í aukana. Var því verslunin smám saman skilin frá, og loks um síðastliðið nýár falin þeim mönnum, er nú veita henni forstöðu. Jeg held, að hv. flm. (S. St.) hafi getið þess, að grunur lægi á, að stjórnin myndi ekki fá haldið sömu mönnum. Hann tók víst ekki ákveðnara til orða. En enn þá hefir enginn þeirra sagt upp stöðu sinni nje látið á sjer skilja, að hann hefði það í hyggju. Hitt er það, að slíkt getur vel komið fyrir, bæði af persónulegum ástæðum mannanna sjálfra, og af fleiri sökum, svo sem þeim, að þessir menn komi sjer ekki saman við stjórnina, að því leyti, sem hún hefir afskifti af störfum þeirra. En það er ekki enn, og jeg leyfi mjer að fullyrða, að slíkt ósamkomulag eigi sjer engan stað. Hefði ekki þessi hv. þm. (S. St.) átt í hlut, mátti furða sig á því, að hann skyldi leyfa sjer að varpa fram slíkum „grun“. En hv. þm. (S. St.) varpar honum fram af því, að hann gat átt vel við hjer, því að mönnum mátti þykja það mjög áfellisvert, ef þessir menn gætu ekki unnið með stjórninni. Það er gert, að finna stjórninni ýmislegt til saka. En jeg held nú, að hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) og aðrir þeir, er má ske líta svo á, að þessi stjórn, sem nú er, væri ekki bær að útvega aðra færa menn í stað þessara, verði að fara varlega í að álykta svo. Fyrst að þessi sama stjórn gat fengið þessa ágætu menn, sem allir höfðu frá miklu að hverfa, þá ætti hún að geta fengið, ef ekki eins góða, þá samt þá bestu, sem hægt væri að fá. Jeg held því ekki, að mikið sje leggjandi upp úr þessu.

Er þá komið að sykurmálinu, sem nokkrir þm. á síðasta þingi kölluðu „dautt mál“. Nei, eins og góðverkin eru skráð í lífsins bók, svo eru og syndirnar einhversstaðar bókaðar. Þetta mál er enn vakandi hjá sumum blöðum, og þessi árvakri flm. (S. St.) hefir nú og blásið lífi í það. Síðast var um það rætt fyrir auðum bekkjum. Sjáum nú til. Í útreikningi þess manns, er þá stóð fyrir landsversluninni, var reikningsskekkja, sem varð þess valdandi, að sykurverðið var hærra en þurfti, og eigi varð hægt að taka tillit til gengismunar, eins og hv. 2. þm. Árn. (E. A.) benti á í sumar. Þetta tvent vil jeg benda á nú, af því það hefir ekki áður verið tekið ljóst fram.

Þá er Landsbankinn. Þá segi jeg: „Þar greipstu á kýlinu“. Þar mun vera ein sú undiralda, sem fleytt hefir þessari till. inn í sameinað þing. Þar er ein dauðasynd stjórnarinnar og mín. Það er þá fyrst nefnt, að manni er vísað frá, er settur hafði verið um stundarsakir, þar til öðruvísi yrði ákveðið. Þetta út af fyrir sig er formlega sjeð ekki neitt afglap eða endemi. En jeg hefi hjer vottorð eins háttsetts manns í bankanum og fleiri annara um það, að þessi maður gat ekki varið svo starfskröftum sínum í bankans þarfir, sem reglugerð hans mælir fyrir. Hins vegar verð jeg nú að segja frá því, að áður en þetta var gert hafði fyrverandi bankastjóri, hv. 1. þm. G.-K. (B. K.), sem þá var orðinn ráðherra, látið í ljós, að ástæða væri til að skifta á þessum manni og öðrum nýjum. Hann getur neitað þessu, ef hann vill. En að jeg setti Magnús Sigurðsson í stað hans mun jeg aldrei bera kinnroða fyrir. En mjer vitanlega hafa ekki komið fram yfir honum aðfinslur meðan hann var settur nje síðan honum var veitt staðan um nýár. Jeg ætla ekki að fara út í það, hve lánveitingar bankans hafi verið heppilegar síðan fyrir atvinnuvegina, en að eins minna á ummæli manna í þinginu um ýmsar lánveitingar áður. En viðvíkjandi setta bankastjóranum (B. Sv.) skal jeg benda á það, að sam. Alþingi var áður búið að sýna honum fullkomið traust til þess einmitt, að hafa afskifti af bankamálam, þar sem það hafði ýmist kosið hann endurskoðanda reikninga bankans eða gæslustjóra. Jeg held því, að það verði nokkuð annar dómur, sem kveðinn verður upp um afskifti mín af bankanum af alþjóð manna og þeim, sem bankanum eru kunnugastir, en hjá hv. flm. (S. St.).

Næsta mál í röðinni, þar sem hv. flm. (S. St.) kom að einu af þessum sterku orðum og áhrifaríku að hans dómi, er veiting póstafgreiðslustarfans á Seyðisfirði. Þetta mál hefir áður verið blaðamál. Það er kunnugt orðið, að þessi maður, sem hjer ræðir um, hafði flest meðmæli, en satt að vísu, að hann hafði ekki meðmæli póstmeistara eða var vanur póstmálum. En jeg held, að það atriði sje aðeins form, sem oft sje rjett að fara eftir, en ekki geti haft ævarandi og sjálfsagt gildi, sjerstaklega er um þær stöður er að ræða, er ekki útheimta beinlínis nám í sjerstökum skólum. Í þessu efni er reynslan ein skóli. Jeg ætla því ekki að beiðast syndalausnar fyrir „sýnodalrjetti“ þingsins út af þessu máli. Jeg hefi mikið traust á póstmeistara og tel víst, að hann sje ekki síður á verði gagnvart þessum manni en öðrum. Og hvort sem það verður í dag eða síðar, sem mínir dagar eru taldir í ráðherrastöðunni, þá mætti þegar breyta til, ef gildar ástæður eru fyrir hendi. Ekki get jeg orðið meinsmaður þess.

Þá eru vegamálin. Hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) ægir sú fjárhæð, sem til þeirra hefir gengið, og taldi hann ósæmilegt og óheimilt, að svo miklu fje hefir verið varið til vegagerða. Vildi hann þar slá sig til riddara á því, að þar hefði bændavinurinn orðið til þess að draga vinnu frá sveitunum. En fyrst er nú að rannsaka, hvort þessar vegagerðir hafi verið bráðnauðsynlegar. Hitt er í annari röð, hvort nauðsynlegt hafi verið að verja til þeirra svo miklu fje. En til þessa skortir hv. flm. (S. St.) eðlilega nákvæma sundurliðun á því, hvernig fjenu hefir verið varið. Jeg skal geta þess um Ölfusárbrúna, að jeg átti tal við vegamálastjóra um það mál, og kom okkur saman um, að framkvæmdir mættu ekki dragast úr hömlu. Kemur mjer það ókunnuglega fyrir, að viðgerðin er enn óframkvæmd, og tel það illa farið. En jeg hefi ekki getað nýlega náð tali af vegamálastjóra, því að hann er nú búinn að vera lengi í ferðalagi, og það ferðalag hefir dregist lengur en við var búist. Býst jeg samt við, að enn verði hægt að framkvæma aðgerð brúarinnar á þ. á. En eins og hv. þm. er kunnugt, er það regla, sem hv. þm. telja rjetta í öllum aðalatriðum, að forstöðumenn hverrar starfsgreinar ráði mestu um framkvæmdir, hver í sinni grein, svo sem vegamálastjóri, vitamálastjóri og aðrir. Og þess skal getið, að frá stjórninni hefir ekki komið nema ein einasta sjerstök till. um vegamál, sem sje Hafnarfjarðarvegurinn. Það mál var allmikið rætt á sameiginlegum fundi alls ráðuneytisins, og eftir vandlega íhugun komst það að þeirri niðurstöðu, að rjett væri, að sú dýrtíðarhjálp, sem veitt eyrði þessum bæ og Hafnarfjarðarbæ, yrði látin ganga til þess að vinna það að vegi þessum, sem gert var.

Þá hjelt hv. flm. (S. St.) því fram, að þó það hafi vakað fyrir stjórninni, að það væri heppilegra að vinna að þessu verki heldur en öðrum, þá hefði ekki átt að vinna að þessu í sumar. Þessu vil jeg svara því, að vegamálastjórinn talaði svo við mig, að rjettara væri að láta vinna nokkuð við veginn í sumar, til þess að vinnan í vetur sem leið kæmi sem fyrst að notum, og búa einnig undir ýmislegt fyrir framhaldsvinnu, og annað hefir ekki verið gert. Til þessa vegar hafa verið veittar 95 þús. kr., og sjerstaklega hefir verið unnið á þeim kafla, sem er sameiginlegur fyrir austurbrautirnar báðar. Til áhaldakaupa hefir verið varið 100,000 kr., og jeg held, að það hafi verið gert í fullu samræmi við þingið að kaupa þau verkfæri, sem vegamálastjóri taldi rjettast og best hæf til þess að nota við þá vegagerð, sem viðhafa ætti í framtíðinni. Þessi vegur á líka að verða eins fullkominn og hægt er, og er gerður með það fyrir augum, að hann geti orðið undirbúningur undir járnbraut síðar meir. Annars hjelt jeg, að ekki yrði ráðist á stjórnina fyrir það, að verja fje, jafnvel fram yfir fjárlög, til vega- og samgöngubóta, enda er mjer kunnugt um, að það hefir iðulega verið gert áður.

Hv. flm. (S. St.) nefndi Hnausakvísl og Hjeraðsvötn, og vildi helst telja þær samgöngubætur óþarfar, en það geta þeir þm. borið, sem til þekkja, að þetta var hvorttveggja nauðsynjamál. Það væri þá helst að hætta við allar vegabætur og brúargerðir, meðan peningavandræði landssjóðs standa yfir, en það mál væri rjettara að tala um á aðalþinginu að sumri, en ekki nú.

Jeg held, að jeg hafi nú minst á öll þau atriði, sem hv. flm. (S. St.) drap á og hafði út á atvinnumálastjórnina að setja. Jeg býst raunar ekki við, að röksemdir mínar nægi honum. (S. St.: Nei, nei.) En hans rök nægja ekki heldur mjer, enda býð jeg dóms þings og þjóðar, og verður það sjeð nú, hvernig dómur þingsins verður.

Þá gat hv. flm. (S. St.) um það, að traust hv. þm. hefði minkað á stjórninni upp á síðkastið, en mjer er spurn, er það ekki undantekningarlaus regla í þingfrjálsu landi, að andstæðingaflokkur stjórnarinnar vex? Byggist það ekki á þeirri meginreglu, að hægara er að sækja en að verjast, hægara að vera ábyrgðarlaus heldur en að bera ábyrgðina. Og utan um þessa vantraustsyfirlýsingu flykkja sjer þá líka þeir menn, sem hafa kvarnast utan úr hinum flokkunum og steypt sjer svo saman, án þess að hægt sje að sjá, að þeir hafi myndað sjerstakan flokk með sjerstakri stefnuskrá, sem geti skipað starfshæfa og sterka stjórn. Eða getur nokkur hv. þm. sagt mjer, hvort hjer eru heldur á ferðinni þeir þrír menn, sem frá upphafi hafa verið á móti stjórninni, ásamt einhverjum lausagosum, eða þá að hjer sje um nýjan flokk að ræða? Það er engin nýung í þingsögunni, að stjórnarflokkurinn verði fáliðaður og að hinn flokkurinn eflist, þar til að stjórnarflokkurinn verði að víkja. Undir það verður þessi stjórn að beygja sig engu síður en aðrar stjórnir, og þó einkum, ef uppi væri heillavænleg stefna fyrir þjóðina og ákveðin, sem stjórnaði gerðum andstæðingaflokksins og starfandi stjórnin væri andstæð. En það eru má ske ellimörk á mjer, að þessi merki fæ jeg ekki sjeð á þeim, sem flykkja sjer utan um vantraustsyfirlýsinguna. En vonandi verður þess ekki langt að bíða, að þýðingarmikið þjóðmál skifti flokkum hjer á landi, og að þá verði sá flokkur ofan á, sem skipað getur sterka stjórn; hvort þeir muni allir verða starfshæfir, er þá skipa stjórn, get jeg ekki sagt um. Það er kunnugt, að á næsta þingi eiga að fara fram breytingar á stjórnarskránni, og nýjar þingkosningar næsta haust, og þar sem ekki bólar neitt á því, að menn skiftist í flokka út af breytingum á stjórnarskránni, þá finst mjer vera sanni næst, að við þær kosningar skipist menn í flokka um innanlandsmálin. Á þessari stefnu bólar víða um landið, bæði í blöðum og tímaritum. Það er ekki mitt að dæma, hver stefna í innanlandsmálum muni verða ofan á við þær kosningar, en jeg vona, að það verði góð og heillavænleg stjórn, sem þá fær forustuna. Eins og nú er komið, get jeg ekki fundið þá meinbugi á stjórninni, sem læknist við það, að stjórnarskifti verði, en alger stjórnarskifti finst mjer að hljóti að vera afleiðingin, ef farið er að vilja hv. flm. (S. St.) og þeirra, sem utan um hann hafa flykt sjer. Á þeim tíma, sem jeg yrði sannfærður um nýja stefnu með nægu fylgi, mundi jeg með gleði yfirgefa starf mitt, en gagnvart kjósendum mínum, sem í rauninni eru allir landsmenn, þá þykist jeg ekki hafa rjett til, að óreyndu, að beiðast lausnar frá starfi mínu, hversu illa sem þessum hv. herrum líst á það. Jeg veit líka, að það er almennur vilji landsmanna, að stjórnin sitji, sökum þessa stórmáls, sem vjer lukum við að samþykkja í dag. Og auk þess held jeg líka, að þjóðin álíti stjórnina hafa unnið starf sitt svo vel í flestum meginatriðum, og leyst svo vel úr sambandsmálinu, að vel megi við una. En auðvitað beygi jeg mig undir vilja og vald hv. þm. í þessu efni.