09.09.1918
Sameinað þing: 3. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í C-deild Alþingistíðinda. (169)

5. mál, vantraustsyfirlýsing

Eggert Pálsson:

Jeg vil byrja á því, að biðja hv. forseta að sjá um, að þingmenn gangi til sætis, því jeg á sæti í hv. Ed. og kann því illa, að ys og þys sje á fundum.

Það er oftast svo, að þegar um alvarleg og þýðingarmikil mál er að ræða, þá hafa einstakir þm. ráðið það við sig fyrirfram, hvernig þeir greiða atkvæði, og svo er það nú. Afdrif þessa máls eru ákveðin fyrirfram, svo það hefir enga þýðingu, hvort málið er lítið eða mikið rætt.

Eins og allir vita, þá eru þeir núverandi fjármálaráðherra og núverandi atvinnumálaráðherra ekki komnir í þessi sæti fyrir atfylgi mitt nje annara heimastjórnarmanna, en hvað atvinnumálaráðherrann snertir, þá gengum við heimastjórnarmenn að því, að Framsóknarflokknum væri leyft að skipa eitt ráðherrasætið, en það bar ekki að skoða sem traust frá mjer eða flokknum, heldur að eins að flokkurinn vildi líða það í lengri eða skemri tíma og sjá, hvernig fulltrúa Framsóknarflokksins tækist að rækja þetta trúnaðarstarf. Með svipuðum hætti tók núverandi fjármálaráðh. (S. E.) við er hv. 1. þm. G.-K. (B. K.) fór frá.

Þó þessir menn hefðu ekki í upphafi beint traust heimastjórnarm., þá gat svo farið, að þeir öfluðu sjer þess með starfi sínu, en raunin hefir orðið alt önnur frá mínu sjónarmiði.

Jeg vil þá fyrst minnast á hv. atvinnumálaráðh. Flutnm., hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), benti á ýmsa galla í embættisfærslu hans, — sem hann kallaði afglöp — svo sem Tjörneshneykslið, Öskjuhlíðarfarganið og Hafnarfjarðarveginn. Til þess alls hefir verið eytt afarmiklu fje, en lítil eða engin not komið í móti. Það er altaf eftirsjónarvert, þegar fje er eytt til einkis gagns og í beinni fásinnu, en þó ekki síst nú, er við þurfum alls okkar með í baráttunni fyrir tilverunni, og altaf verður erfiðara og erfiðara undir fót.

Verksvið þessa ráðh. er einkum að efla atvinnuvegi landsmanna með ráðum og dáð, en þar hefir hann ekki, svo að jeg viti, bætt úr nokkru. Atvinnuvegirnir, sjávarútvegur og landbúnaður, hafa eigi orðið varir við bætandi áhrif frá hans hendi. Hvað sjávarútv. snertir, hefir hann ekkert gert, enda hefir enga þekkingu til þess að geta látið þar gott af sjer leiða; hann hefir áður fengist við landbúnað, og skyldi maður því heldur ætla, að hann hefði þekkingu og vilja til að rjetta honum hjálparhönd, en jeg hefi ekki orðið þess var, að hann hafi gert honum neitt til stuðnings; það skyldi þá helst eiga að felast í fráfærnafrv., sem hann bar fram og lagði svo fast með, en móti því varð jeg að vera, því að jeg leit og lít svo á, að í því hafi ekki falist stuðningur fyrir landbúnaðinn, heldur hafi það miklu fremur miðað til þess að leggja fótakefli fyrir hann; því hvernig hefði farið ef allir hefðu fært frá? Þá hefði ekki verið til frálags annað en fjallalömb og kvíaær, í stað dilka og dilkáa nú. Og ætti öllum að skiljast sá munur, því að ær eru, að allra skynbærra manna dómi, miklu betri til frálags þegar þær ganga sjálfráðar á fjalli heldur en þegar þeim er haldið í heimahögum, og allir vita hinn mikla mismun á dilkum og fjallalömbum. Afrek þessa ráðherra að því er landbúnaðinn snertir munu nú upp talin og eru ekki á þá sveif, er fremur skyldi, eða kann nokkur önnur dæmi þess?

Jeg skal ekki rekja ítarlega stjórnmálastarfsemi hæstv. fjármálaráðherra. Verksvið hans er aðallega tvennskonar, í fyrsta lagi að afla landssjóði tekna, og í öðru lagi að sjá um, að fje landssjóðs sje ekki varið til óþarfa. Hann hefir gert talsvert til að afla landssjóði tekna, því skal jeg ekki neita, enda hefir það verið óhjákvæmilegt, þar sem öll útgjöld margfaldast nú á tímum, en hann hefir aftur á móti ekki haldið eins vel á fje landssjóðs og æskilegt og nauðsynlegt hefði verið; þarf í því efni ekki að benda á annað en Öskjuhlíðarfarganið, sem hann hefir átt drjúgan og jafnvel drýgstan þátt í.

Þó jeg sje samþykkur þeirri skoðun, sem kemur fram í þingsál., þá hefði jeg samt talið rjettast að hleypa henni ekki af stað að þessu sinni, því jeg efa ekki, að þingsál. verður feld. Eins og nú stendur, er hið pólitíska loft engan veginn fullhreinsað; til þess þarf nýjar kosningar, eða ný stórmál að koma fram, svo menn skipi sjer í hreina flokka með ákveðnum línum, stjórnarflokk og andstöðuflokk, en á þetta brestur talsvert enn; það sýnir best hin rökstudda dagskrá, sem hefir verið borin fram og jeg þykist vita að nái samþykki þingsins. Þó þessi rökstudda dagskrá sje borin fram af formanni Heimastjórnarflokksins, þá mun jeg ekki ljá henni atkvæði mitt, vegna þess að hún segir ekkert. En ef hún segir nokkuð, þá er það það, að menn hafi ekki fullan hug og þor til að greiða þingsál. atkv.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði áðan, að svo framarlega sem hann hefði ekki traust þingsins, þá segði hann af sjer. En það eitt er víst, að ef dagskráin verður samþ., þá sýnir það ótvíræðlega, að hann hefir ekki traust þingsins. Ætlar hæstv. fjármálaráðherra þá að breyta samkvæmt orðum sínum? Jeg veit, að ýmsir aðrir hv. þm. myndu gera það, en ætli hann láti ekki að vanda lenda við orðin tóm?

Það er haft sem ástæða til þess að gylla dagskrána, að enn sje óvíst um afdrif sambandsmálsins, og það verði að binda fullan enda á það áður en stjórnarskiftin sjeu gerð að nokkru eða öllu leyti. En jeg fæ með engu móti sjeð, að sambandsmálið komi á nokkurn hátt við þessu máli. Jeg kannast við það, að slík vantraustsyfirlýsing hefði getað haft slæm og víðtæk áhrif á það mál á síðasta þingi, en þar sem þingið hefir nú samþykt frv. með 38:2 atkv., þá fæ jeg ekki sjeð, hver áhrif það ætti að hafa, þótt nú væri skift um nokkurn hluta stjórnarinnar. Ekki getur það haft hin minstu áhrif á gang málsins í Danmörku, hverjum nöfnum ráðherrar vorir heita, og hjer á landi getur það ekki haft hin minstu áhrif heldur, því svo mikið traust ber jeg til þessara tveggja manna, sem hjer eiga hlut að máli, að þeir fari ekki að ganga á móti atkv. sínu í sambandsmálinu, þótt þeir færu úr ráðherrasæti. Mjer finst það vera meira en lítið vantraust á þeim herrum að ætla þeim slíkt, meira vantraust en nokkurn tíma kemur fram í þingsál.

Því hefir verið skotið fram, að dagskráin taki sig nógu vel út á pappírnum. Það má vera, að svo sje, en þegar hún er krufin til mergjar, þá sjá allir, að hún er ekki annað en vafningar og vífilengjur. Hika jeg ekki við að taka þetta fram, því jeg er vanur að koma hreint til dyra, þótt maður, er fyllir sama flokk og jeg, beri hana fram fyrir hönd meiri hl. flokksbræðra okkar. Jeg get því ekki skriðið undir sauðargæru þá, sem felst í dagskránni, en býst við því að greiða atkv. með þingsál., enda þótt jeg viti vel, að hún muni falla.