09.09.1918
Sameinað þing: 3. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í C-deild Alþingistíðinda. (177)

5. mál, vantraustsyfirlýsing

Magnús Torfason:

Jeg hafði nú ekki ætlað mjer að skifta mjer af þeim hildarleik, sem hjer er háður, og það af þeim sömu ástæðum, sem hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) hefir lýst. En það hefir knúð mig að taka til máls, að tveir hv. þm. hafa nú ákallað mig í neyð sinni.

Fyrst var það hv. þm. N.-Ísf. (S. St.). Hann fór að minnast á veitingu lögreglustjóraembættisins í Reykjavík í vetur. Skal jeg ekki álasa honum fyrir það, en hann gerði annað, er ekki kom þessu máli við, er hann fór að verðleggja mig í ræðu sinni. Jeg hjelt, að það hefði verið sæmilegast að láta það mál liggja á milli hluta, og ekki var að minni tilhlutun minst á það mál í blaði því, sem helst hefir stutt mig, og er það blátt áfram af því, að jeg álít ekki rjett að blanda „privat“-sökum inn í stjórnmál. En hv. þm. (S. St.) fór, sem sagt, að verðleggja mig, er hann bætti því við, að þessi veiting væri alls ekki aðfinsluverð. Hann vill með öðrum orðum segja það, að þótt jeg hafi nú í 24 ár fitlað við lögreglumál, þá hafi þau farið mjer úr hendi þannig, að jeg geti ekki komið til greina við slíka embættisveitingu gagnvart miklu yngra manni, sem aldrei hefir nálægt slíkum störfum komið. Það er ekki mitt að dæma um slíkt, enda liggur þessi dómur hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) um mig og embættisferil minn mjer í ærið ljettu rúmi, og það því fremur, sem sami hv. þm. hefir einnig látið uppi alt aðra skoðun og mælt alt öðrum orðum um framkomu mína sem lögreglustjóra upp í mín eyru. En mig furðar ekkert á þessu, því að það er regla hans, þótt ekki sje undantekningarlaus, fremur en aðrar reglur, að fara í gegnum sjálfan sig, fara alveg hringinn. Þess vegna er jeg viss um, að hann á enn eftir að breyta þessari skoðun sinni, sem jeg hjer lýsti, því að annars væri hann ekki sjálfum sjer samkvæmur.

Þá ákallaði mig hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) og önnur rödd hjer úr salnum, og voru þeir að brýna mig með því, að jeg hlyti að vera með þessari vantraustsyfirlýsingu í atkvæðagreiðslu. Það hlyti minni hlutinn í sambandsmálinu að gera. Jeg skal nú fyrst og fremst taka það fram, að það var ætlun okkar að taka engan þátt í þessum barnaleik, sem hjer er verið að leika, fólki til skemtunar. Það er fyrst og fremst fullkominn barnaleikur að því leyti, að ekkert nýtt hefir komið fram á móti þessum 2 ráðherrum, annað en það, sem fram kom á þingi síðast, og þá var hvert árásarefni vegið og ljettvægt fundið. Þá er það barnaleikur af því, að það er flutt fram nú á þessum tíma. En sjerstaklega er það þó barnaleikur, þar sem forsætisráðherranum er slept. Honum ber þó fyrsta og þyngsta ábyrgðin. Það er blátt áfram samkvæmt þeirri þingræðisreglu, að ef forsætisráðherra vill ekki nýta samverkamenn sína, þá er hans að segja: „Jeg fer, ef þingið skiftir ekki um samverkamenn mína.“ En sjerstaklega er okkur minnihlutamönnum ekki skylt að taka neinn þátt í þessari vantraustsyfirlýsingu vegna þess, að við lítum svo á, að hæstv. forsætisráðherra sje „syndugastur í Galíleu“ allra ráðherranna.

Það eina, sem hefði nú getað orkað því, að við tækjum þátt í þessari vantraustsyfirlýsingu á stjórnina, hefði þá verið það, ef þessir menn, er standa bak við vantrauststill., hefðu staðið okkur eitthvað nær í sambandsmálinu en stjórnin og þeir, er hana styðja. En öðru nær er en að svo hafi verið.

Jeg skal nú taka það fram, að jeg hefi ekki kallað neinn föðurlandssvikara eða landráðamann. En sú rödd, er viðhafði þessi orð, hefir slett þeim fram vegna þess, að hún kennir sín. Hún hefir ekki hreina samvisku! Jeg get vel skilið þetta. Enda þótt jeg beri ekki neinum manni föðurlandssvik á brýn, þá hefir hann, sem átti hina ákallandi rödd, á sínu máli gert sig sekan í svikum. Jeg myndi nú hafa sagt, að hann hefði brugðist sínum fyrra manni. Eins og kunnugt er, er hann hinn eini skilnaðarmaður þingsins. Datt mjer því ekki annað í hug en að hann myndi að minsta kosti láta sambandsfrv. hlutlaust. Ónei! Það gerir hann ekki, heldur samþykkir þennan samning með glöðu geði. Og hann hefir lýst því yfir sjálfur, að þetta sje miklu meira en hann hafi nokkurn tíma dreymt um að fá. En hvað liggur þá í þessu orði? Það, að hann hefir verið boðinn og búinn til að ganga að mun verri kjörum en vjer fengum. Þetta sýnir, að hans flokkur er einna linastur í sambandsmálinu, eins og jeg hefi skjallega sannað. Út frá þessu sjónarmiði vona jeg, að hv. þingheimi skiljist, að það er ekki ástæða fyrir okkur til þess að koma þessum mönnum í valdasæti, og það því síður, sem þetta mál er alls ekki útkljáð enn. Nú stendur fyrir dyrum mikill undirbúningur þessa máls á næstu mánuðum, og er alls ekki sama, hvernig hann fer úr hendi.

Öðru hefi jeg ekki að svara, og ætla ekki frekar að lýsa afstöðu minni til atkvgr., því að jeg tel mjer með öllu óskylt að svala forvitni þessarar raddarlangsummanna.