09.09.1918
Sameinað þing: 3. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í C-deild Alþingistíðinda. (179)

5. mál, vantraustsyfirlýsing

Magnús Torfason:

Jeg bjóst ekki við, að farið yrði að deila á mig persónulega, þar sem búið var að skera niður umr. En þann þingmann, er síðast talaði, — mjer er illa við að þingnefna hann — lýsi jeg ósannindamann að því, er hann sagði um mig, annaðhvort beint eða í annara orða stað. Jeg hefi aldrei talað við hann um það eitt aukatekið orð.

Þegar jeg bauð mig fram til þings 1916, gerði jeg það sem sjálfstæðismaður, og stendur það prentað í málgagni því, er studdi mig, og var það eftir ósk minni gert. En það ljet jeg laust og óbundið, í hvorn flokk sjálfstæðismanna jeg færi hjer, enda vissi jeg ekki hvernig þingið mundi skipað. Það var því með samþykki stuðningsmanna minna, að jeg var frjáls að því, í hvorn flokkinn jeg færi.

Þegar jeg kom hjer, gerði jeg tilraun til að sameina sjálfstæðisflokksbrotin og ákvað mig ekki við neinn. Og þegar jeg var frjáls í því, í hvorn flokkinn háttv. þingm. (G. Sv.) taldi jeg mig lausamann í þinginu. Jeg var alls ekki hræddur að standa einn. Þegar útsjeð var um, að unt væri að sameina sjálfstæðismenn, þótti mjer rjettast að ganga í þann flokk, sem jeg nú er í, enda var aðalstuðningsmönnum mínum það kærast. En að jeg hafi boðið mig Framsóknarflokknum, eða verið að „dufla“ við hann, það eru blátt áfram ósannindi.

En það er einn maður úr Langsumflokknum, sem mjög hefir „duflað“ við hann og gengið í því miklu lengra en sæmilegt er. Hitt gegnir öðru máli, að jeg hefi jafnan reynt að halda uppi samvinnu með sjálfstæðismönnum.

Jeg hjelt nú, að aðstaða mín í sambandsmálinu hefði sýnt það, að jeg þori fyllilega að standa einn og er ekki háður neinum flokksböndum.

Jeg skal svo ekki gjalda hv. þm. (G. Sv.) líku líkt í persónulegum deilum. Hann hefir fyr deilt á mig persónulega, en sumt er svo óhreint, að maður verður sjálfur óhreinn af að snerta við því. En kynlegt þykir mjer það, að aðalmenn langsummanna þykjast hjer hvergi nærri koma, fela sig í skugganum, en eru þó aðalkjarninn í mótstöðu gegn stjórninni.

En að því er snertir þm. (G. Sv.), þá vita menn, til hvers skal hafa drenginn með í förinni og hverjum skal á foraðið etja.