09.09.1918
Sameinað þing: 3. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í C-deild Alþingistíðinda. (180)

5. mál, vantraustsyfirlýsing

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg þarf ekki að taka það fram, að það var rjett hjá hæstv. fjármálaráðherra, sem hann sagði um gerðabók stjórnarráðsins um dýrtíðarvinnuna í fyrra.

Jeg stóð upp til þess að svara háttv. 1. þm. N.-M. (J. J.). Hann spurði um óveitt læknisembætti. En jeg vildi segja honum það, að óneyddur fer jeg ekki að skýra frá embættaveitingum þeim, er undir mig heyra, hjer í þingsalnum, við þetta tækifæri. Og álít jeg það ekki rjett að beina fyrirspurn til ráðherra við þessar umræður, um það, hverjum reglum hún fylgi um embættaveitingar. En vilji hv. þm. (J. J.) spyrja mig um þetta utan fundar, mun jeg ef til vill seðja forvitni hans. En háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) vil jeg þó segja það, að dylgjur hans um Eiðaskólann eiga sjer engan stað. — Að skólinn er ekki kominn á fót enn, er um að kenna dýrtíðinni og ýmsum örðugleikum vegna ófriðarins. Jeg vildi heldur fresta því lítinn tíma að koma skólanum á fót, en reyna svo að gera hann svo úr garði, að hann gæti orðið verulega myndarlegur lýðskóli. Það er eina ástæðan. En dylgjur þær, sem komið hafa í blöðum um þetta mál, eiga sjer enga staði.

Jeg sje svo ekki, að jeg þurfi að fara frekar út í umr. hjer. Jeg hefi þegar skýrt afstöðu mína, og háttv. þm. Dala. (B. J.) hefir tekið það ljóst fram, hvernig stjórnin var mynduð.

En mig furðar á því, að þeir háttv. þm., sem að vantraustsyfirlýsingunni standa, skuli geta haldið því fram, að í dagskránni felist vantraust, þar sem hún er þó fram komin einmitt til þess að fella sjálfa vantraustsyfirlýsinguna.