02.09.1918
Efri deild: 2. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í B-deild Alþingistíðinda. (25)

1. mál, dansk-íslensk sambandslög

Frsm. (Einar Arnórsson):

Því hefir verið haldið fram, bæði utanþings og af háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), að ýms ákvæði í þessu frv. til sambandslaga feli í sjer breytingar á stjórnarskránni. Ef þetta væri rjett, að þetta væri lagafrumvarp, sem fæli í sjer tillögu um breytingu á stjórnarskránni, þá hefði forseta borið að vísa því frá, samkvæmt 27. gr. þingskapanna. En hæstv. forseti hefir ekki vísað frv. frá, og álít jeg, að hann hafi með þögninni úrskurðað, að þessi skoðun væri röng. Er það og mitt álit, að svo sje.

Hjer er um sáttmála eða samning að ræða, þótt í frumvarpsformi sje. En lagasniðið gerir lítið til; alt er undir efninu komið og því, hvernig frv. er er undir komið. Frv. þetta er samningur milli tveggja aðilja jafnrjetthárra, sem ber annaðhvort að samþ. eða synja. Því ber að fara með þetta frv. eins og samning eða »traktat«. Sáttmálinn þarf ekki og getur ekki komið allur í framkvæmd strax. Er báðum aðiljum það kunnugt., og verður að fara eftir stjórnskipunarlögum hvors lands.

Hjer á landi verður í öllu að fara eftir stjórnskipunarlögum vorum, þar á meðal lögum nr. 12, 19. júní 1915. Þótt nú sambandslögin eigi að ganga í gildi 1. des. í ár, sjer hver maður, að það eru engin samningsrof, þótt þau atriði, er snerta stjórnskipunarlög Íslands, geti ekki komið til framkvæmda fyr en síðar.

Ýmislegt fleira var athugavert í ræðu háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), og mun jeg þó ekki svara því öllu, þar sem háttv. þm. Dala. (B. J.) hefir þegar gert það.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) byrjaði á að fullyrða, að samningamennirnir íslensku hefðu ekki farið eins vel með umboð sitt og þeim hefði borið. Mjer var ekki skylt að vinna saman við aðra en mína flokksmenn, og hefi jeg ekki orðið þess var, að þeir kvörtuðu yfir, að jeg misbeitti umboði mínu. Annars verður hver nefndarmaður að svara fyrir sig í þessu efni.

Um brtt. háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) vildi jeg segja nokkur orð. Hefði jeg getað sett mjer sjálfur kosti, þá mundi jeg hafa gert frv. eitthvað líkt úr garði og háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) með brtt. sínum. En hjer voru tveir málsaðiljar. Var annar sterkari og mátti betur við, að ekki gengi saman; en það voru Danir. Þegar svo ólíkir semja, verður sá, sem er minni máttar, að slaka til í einhverju. Svo höfum vjer íslensku samningamennirnir orðið að gera. Fyrir það hefir háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) valið okkur heitið: Stórsalar á ríkisrjettindi Íslands. Vil jeg því kynna fyrir háttv. deild fyrverandi stórsala á ríkisrjettindi Íslands, hr. Benedikt Sveinsson, þm. N.-Þ.; hann var í neðri deildar nefndinni, sem bar fram sambandslagafrumvarpið 1909, er þá var samþykt. Þá vildi hann meðal annars slaka svo til, að Danir nytu jafnrjettis við Íslendinga um fiskiveiðar í landhelgi í 26 ár. Jeg skal ekki lá honum þetta.

Háttv. þm. (B. Sv.) vildi þá veita Dönum búsettum á Íslandi jöfn rjettindi sem Íslendingar njóta sjálfir, og kom með brtt. í þá átt, sem samþykt var. Þetta má, heita nákvæmlega það sama, sem nú á að veita, því að enginn verulegur munur er á 26 ára tímanum, sem þá var tiltekinn, og 25 árunum nú. Þess er nefnilega að gæta, að vjer getum, án þess að brjóta samninginn, sett búsetuskilyrði fyrir rjettindum manna í landinu, ef þau ná jafnt yfir Íslendinga sjálfa sem Dani.

Háttv. þm. (B. Sv.) þótti rjett að gera þessa ívilnun við Dani 1909; hann getur ekki sagt, að hann hafi þá gert það að óhugsuðu máli, því að sjálfur sat hann í nefnd þeirri, sem þá fór með málið, og hlýtur því að hafa haft fullnógan tíma til að athuga málið.

Háttv. þm. (B. Sv.) hefir haft mikið orð á því, að öðruvísi hafi verið farið með málið 1908 en nú. Þá hafi hann og aðrir haft nægan tíma til að athuga það. En úr því að háttv. þm. (B. Sv.) er orðinn svo miklu vitrari nú en hann var þá, lítur út fyrir, að íhugunartíminn hafi ekki heldur verið nægur fyrir hann þá, því að nú er hann harðóánægður með ákvæði 6. gr. frv. þessa, þótt hann væri ánægður með samskonar ákvæði í frv. sínu 1909.

Háttv. þm. (B. Sv.) mun líklega svara því til, að ójöfnu sje saman að jafna með uppsagnarákvæðin þá og nú. Eftir frv. 1909 þurfti að eins samþykki Alþingis eða Ríkisþings til þess að slíta samfjelagi um mál þau, er uppsegjanleg voru eftir því frv., en hjer þarf til þess samþykki Alþingis og kjósenda, samkvæmt þeim ákvæðum, er í frumvarpinu standa.

En nú geri jeg ráð fyrir, að Alþingi Íslendinga muni nokkurn veginn vera skipað samkvæmt afstöðu kjósendanna til stjórnmálanna og að því megi óhætt treysta, að nokkurn veginn muni falla saman atkvæði kjósenda og Alþingis, svo að samningsslit verði viðlíka auðveld eða torveld, hvort sem Alþingi eitt greiðir atkvæði um þau, eða Alþingi og kjósendur hvort um sig.

Þá er háttv. þm. (B. Sv.) óhræddur um, að Danir muni flykkjast hingað, leggja fje í fyrirtæki hjer á landi o. s. frv. og að þeir muni ná föstum tökum á oss á næstu 25 árum. Við því, sem þetta óttast, er ekki annað að segja en að það hlýtur að vera undir trausti hvers eins á þjóð sinni komið, hvort hann gerir mikið eða lítið úr þessari grýlu. En ef málið er skoðað með ró og skynsemi, þá mun niðurstaðan verða hin sama hjá öllum, að hættan geti ekki verið mikil og ekki meiri en hún mundi hafa orðið ef frv. 1909 hefði verið samþykt, og miklu minni en ef alt er látið sitja í sama fari sem það er nú, eins og fjendur frv. 1918 vilja.

Ef það er rjett að bera undir atkvæði kjósenda breytingu á sambandinu milli Íslands og Danmerkur, eins og stjórnarskráin gerir ráð fyrir, þá verð jeg að segja, að það skifti minstu máli, frá þeirra sjónarmiði, sem hræddir eru við dönsk áhrif á atkvæðagreiðsluna, hvort heimtaður er að eins einfaldur meiri hluti, eða meiri hluti sá, sem frv. gerir ráð fyrir. Nú munu kjósendur hjer á landi vera um 30,000, og má gera ráð fyrir, að eftir 25 ár verði þeir orðnir um 50,000. Eigi að síður mundi Dönum, sem eru um 30 sinnum fleiri en vjer, í lófa lagið, ef þeir vildu kapp á, leggja, að flytja svo margir inn hingað, að þeir bæru oss ofurliða við atkvæðagreiðslu um samningsslit milli landanna. Þessu er að eins varpað fram, en líklegt er það ekki, ef vjer berum það saman við liðna tímann. Danskur maður, sem vel þekkir landa sína, sagði nýlega við mig: Við Danir erum fremur latir, okkur líður vel heima í landi okkar, og hræddur er jeg um, að okkur mundi finnast veðurátt ykkar hörkuleg og land ykkar hrjóstugt, og hræddur er jeg um, að ekki mundi auðvelt að fá marga af okkar mönnum til þess að taka fasta bólfestu í landi ykkar. Það eru allmörg ár síðan farið var að minnast á skilnað landanna hjer í landi. Sennilegt er, að engum hafi dottið í hug, að sá skilnaður mundi fram fara án þjóðaratkvæðis, hvorki Íslendingum nje Dönum. En hvað hafa Danir gert til þess að reisa skorður við honum? Ekki hafa þeir streymt inn í landið á undanförnum árum, til þess að vera viðbúnir því, að greiða atkvæði gegn skilnaðinum.

Eins og oft hefir verið tekið fram, er nú algert jafnrjetti um atvinnurekstur hjer á landi milli Íslendinga og Dana. Vjer höfum ekki einu sinni sett í löggjöf vora skilyrði um búsetu til að mega reka hjer verslun og stunda fiskveiðar. En mjer skildist á háttv. þm. (B. Sv.), að ef þetta frv. yrði að lögum, gætu Danir farið að fiska hjer í landhelgi með botnvörpum. (B. Sv.: Nei). Ef svo hefir verið, þá væri æskilegt, að háttv. þm. (B. Sv) talaði ljósara, svo að hver maður með meðalskynsemi skildi hann. En við skulum setja sem svo, að fiska mætti í landhelgi með botnvörpum. Þá gætum vjer með lögum bannað það, hve nær sem oss sýndist, og vjer gætum líka með lögum ákveðið, að öll stjórn fiskifelaga skyldi vera búsett hjer í landi. Fiskveiðum vorum á því engin ný hætta að stafa af frv. þessu.

Jeg hefi nýlega lesið grein eftir fræðimann einn, og álítur hann þar, að það komi ekki til mála, að Íslendingar þurfi að plokka úr löggjöf sinni takmarkanir þær, sem í henni eru settar um atvinnurekstur þeirra, sem ekki eru búsettir hjer. Jeg er honum sammála um þetta; og ekki er jeg hræddur um, að oddamaðurinn í gerðardómi þeim, sem frv. gerir ráð fyrir, mundi komast að þeirri niðurstöðu, svo framarlega sem Íslendingum og Dönum er gert jafnhátt undir höfði.

En jeg spyr háttv. þm. (B Sv.), hvernig hann hugsar sjer að útiloka útlendinga frá því að setjast hjer að og útlent fjármagn frá því að starfa hjer, jafnvel þótt frv. þetta verði eigi að lögum og þótt til fulls skilnaðar dragi með löndunum. Það er yfirleitt erfitt að útiloka slíkt með lögum, ekki síst fyrir smáþjóð, því að stórlaxar leita þangað, sem vatn er haganlegast til að synda í. Eina vörnin gegn hættu af innstreymi útlendinga er fyrir smáþjóð sú, að eiga duglega stjórn, starfhæft þing og óeigingjarna og ötula borgara.

Þá er brtt. háttv. þm. (B. Sv.) við 7. gr. Við þær er ýmislegt að athuga, sem háttv. þm. Dala. (B. J.) mun ekki hafa minst á. Jeg ætla þó ekki að fara út í annað en síðustu málsgreinina um ríkjasamningana. Um hitt í brtt. er sama að segja sem um fleira, að hefðum vjer verið einráðir og ekkert tillit þurft að taka til hins málsaðiljans, mundum vjer hafa hagað orðum eitthvað á þá leið, sem háttv. þm. (B. Sv.) vill vera láta.

Ríkjasamningum þeim, sem um ræðir í niðurlagi 7. gr., má skifta í þrent: samninga, sem gerðir hafa verið áður en yfirstandandi samningar milli Íslendinga og Dana hófust, samninga, sem gerðir kunna að verða þangað til þessi sambandslög ganga í gildi, og samninga, sem gerðir verða eftir að sambandslögin hafa öðlast gildi. Um fyrsta flokk samninganna er það að segja, að að undanförnu hafa allir samningar, sem Ísland snerta, verið birtir í Stjórnartíðindunum, og sú hefir verið venjan síðari ár, að ef Danir hafa gert samninga, sem snerta Ísland, við önnur ríki, þá hafa þeir verið bornir undir íslensku stjórnina áður en þeir hafa verið fullgerðir. Jeg býst við, að þessir samningar muni verða látnir gilda áfram. Danir munu hafa áskilið einhver rjettindi um leið og þeir gerðu þá; þeim munum vjer fá að halda, og getur það verið hagkvæmt fyrir oss.

Um annan flokkinn er það að segja, að ekki er hægt að segja um nú, hvort Danir muni gera nokkra samninga, sem Ísland snerta, við önnur ríki, meðan verið er að gera út um sambandslögin. En geri þeir þá, mun sjálfsagt mega gera ráð fyrir, að þeir beri þá undir stjórn Íslands, eins og að undanförnu hefir verið gert. Jeg geri mjer ekki í hugarlund, að þeir muni grípa tækifærið til að beita oss sviksemi þessa stuttu stund, sem á samningunum stendur. Mjer finst slíkt óþarfa grunsemi í þeirra garð. Að því er þriðja flokkinn snertir sje jeg ekki, að brtt. háttv. þm. (B. Sv.) víki nokkuð frá frv., og þarf jeg því ekki að fara út í það mál.

Í sambandi við þessi ákvæði um utanríkismálin hefi jeg heyrt þau talin afturför frá því, sem nú er, með því að nú semji Íslendingar við önnur ríki einir sjer án nokkurrar íhlutunar Dana. Við þessu er það að segja, að ástand það, sem vjer lifum nú undir, er allsendis óvenjulegt, og að af því leiðir, að hver reynir að bjarga sjer sem best hann getur. En vonandi breytist þetta ástand innan skamms, og þá, er ósýnt, að oss verði kleift að semja við aðrar þjóðir á sama hátt sem nú á stríðstímunum, ef alt situr við það sem nú er.

Í athugasemdunum við 7. gr. frv. er það tekið fram, að ákvæði greinarinnar eigi ekki við þegar óvenjulega standi á, og er þar beinlínis gert ráð fyrir, að fyrir geti komið, að Íslendingar fari einir með mál sín, sje ekki unt að ná í utanríkisráðherrann danska. Það verður að vera hagkvæmnisatriði, hvernig utanríkismálunum sje þá, skipað.

Úr því að svo mikið er gert úr athugasemdunum við 6. gr., þá er það undarlegt, að sömu mennirnir vilja ekki gera eina mikið úr athugasemdunum við 7. gr., því að ef athugasemdir við eina grein skifta miklu máli, hví skyldu þær þá ekki líka gera það við aðrar greinar sama frv., og þegar þannig er málið litið, eins og sjálfsagt virðist að gera, þá er auðsætt, að hjer er um enga raunverulega afturför að ræða frá því ástandi, sem nú er. Jeg vænti, að þetta sýni sig skjótt í verkinu, því að jeg vona, að stjórnin haldi áfram uppteknum hætti með það, að tryggja hag landsins, eftir því sem hún sjer hagkvæmast, eins þótt sambandslögin nái gildi, eins og hún hefir gert hingað til, og jeg þykist viss um, að hinn aðilinn muni ekkert hafa við það að athuga,

Viðvíkjandi því, er háttv. þm. (B. Sv.) sagði um hæstarjett, þá veit jeg ekki, hvað hann meinti með því. Í hæsta lagi væri hægt að segja, að 10. gr. frv. væri meinlaus og gagnslaus; hættuleg er hún ekki fyrir oss, því að hún heimilar oss að stofna æðsta dómstól, hve nær sem oss sýnist, og hefði slíkt einhvern tíma þótt rjettarbót, þó að nú þyki háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) lítils um það vert.

Um brtt. við 13. og 14. gr. er líkt að segja sem um fleiri brtt. háttv. þm. (B. Sv.), að ef vjer hefðum einir mátt ráða, þá mundum vjer hafa farið líka leið og háttv. þm. (B. Sv.) vill að farin sje. En það er allt nefndarinnar í máli þessu, stjórnarinnar og fullveldisnefnda, að hjer væri í raun rjettri um aukaatriði að ræða og að eigi mætti stofna fullveldismálinu í háska með því að setja fjárskiftatriðið eitt á oddinn.

Um brtt. við 16. gr. get jeg látið mjer nægja að vísa til nefndarálitsins. Jeg skil ekki, hvernig háttv. þm. (B. Sv.) heldur, að leita þurfi álits nefndar þeirrar, er 16. gr. nefnir, nema þegar um stjórnarfrv. er að ræða, því að ef jeg eða háttv. þm. (B. Sv.) ber fram frv. hjer á þingi, þá ræður stjórnin engu um, hvernig með það er farið. Eða hvernig á stjórnin að sporna við því, að þm. beri fram frv.? Þeir eiga heimtingu á, að frv. þeirra sjeu rædd, og það er ekki tilætlunin með 16. gr. að gefa stjórninni nokkurt minsta vald til að hindra það. Því síður fæ jeg sjeð, að nefndin geti á nokkurn hátt verið öxi reidd að sjermálalöggjöf vorri. Væri svo, að nefndin hefði vald til að láta neita um staðfestingu laga þeirra, er hún teldi háskaleg, þá hefði háttv. þm. (B. Sv.) rjett fyrir sjer. En það verð jeg að telja fjarstæðu. Það á að eins að leita álits nefndarinnar um málin, og þetta álit má jafnt taka til greina og virða að vettugi; það er á engan hátt bindandi fyrir löggjafarvaldið. Hún á að hafa ráðgjafarvald, en eigi synjunarvald, enda er hún berum orðum nefnd ráðgjafarnefnd. Vjer vorum að vísu ekki áfjáðir að fá nefnd þessa, en töldum þó ekki ástæðu til að standa á móti henni.

Háttv. þm. (B. Sv.) kvað það vera óhæfu fyrir fullvalda ríki að eiga að búa við slíka nefnd, og vildi einkum láta það eiga við Ísland. En sje það óhæfa fyrir Ísland, þá á það engu síður við Danmörku, því að vjer getum alveg eins látið nefndina taka til meðferðar mál Dana eins og þeir vor mál. Vjer getum sagt, að Danir færu ekki með umboð sitt á þann hátt, sem þeim bæri og oss líkaði.

Það hefir og verið og látið í ljós, að jafnrjettisákvæðin gætu orðið hættuleg, af því að fleiri gætu komið og heimtað hið sama af oss. Ef háttv. þm. (B. Sv.) trúir þessu sjálfur, mætti hann gera ráð fyrir því, að hann sæi fyrir því, að vjer ljetum aðra eigi stinga oss í vasa, heldur neituðum umsvifalaust slíkum jafnrjettiskröfum. Hins vegar gætu Danir verið jafnhræddir við, að hið sama kynni að koma fyrir þá, væri þessi ótti á nokkrum rökum bygður.

Hugsum oss nú, að Þjóðverjar og Englendingar komi til Dana og segi við þá: »Nú skuluð þið fá okkur sömu rjettindi og þið hafið látið Íslendinga fá«. Þá hefðu Danir ekki betur teflt og stæðu þá engu betur að vígi en vjer. Báðir hafa þá verið jafnóvitrir. En þótt menn hefðu getað haldið, að vjer Íslendingar gætum verið svo skammsýnir, þá er þó ósennilegt, að jafnþaulæfðir stjórnmálamenn og Danir hefðu bundið sjer með þessu þann bagga, að þessir stórhákarlar gætu vaðið inn á þá vegna ákvæða frv.

Um ástæðurnar fyrir því, að lagt er til, að frv. gangi svo snemma í gildi, þarf alls ekki að ræða. Fyrir því er grein gerð í II. kafla nál. og athugasemdunum við greinina, og svo því, sem háttv. þm. Dala. (B. J.) hefir tekið fram.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) vjek að 18. gr. Er jeg að sumu leyti búinn að tala um hana þegar. En það er eitt atriði, sem vert er að minnast á. Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) hjelt því fram, að óhæfilega þröngar skorður væru settar við uppsögn samningsins í 18. gr. En svo komst hann að því í sambandi við 19. gr., að ef uppsögn yrði komið á, þá væri eigi loku fyrir það skotið, að alt færi í sama lag og nú er.

Nú skulum vjer hugsa oss, að þessi aths. hv. þm. (B. Sv.) væri eitthvað annað en hugarburður. En þá er mjer dálítið óskiljanlegt, hvers vegna Danir kærðu sig um að reisa svo rammar skorður við uppsögn samningsins, því að þá ætti enginn að vera fúsari til þess en þeir að fá hann úr gildi feldan. Ef þá verður »status quo« aftur, þá ættu þeir að vera fúsastir til samningaslitanna. Þá hefðu þeir átt að segja: »Við viljum hafa uppsagnarskilyrðin sem allra rýmst, til þess að fá aftur sama ástand og nú«. Menn sjá, að þetta er algerlega í mótsögn hvað við annað, því að með því að reisa rammar skorður ættu þeir að telja sjer það í óhag að fá aftur núverandi ástand. Þetta er þó andstætt því raunverulega, því að Danir hafa ekki verið óánægðir með núverandi samband, heldur vjer. Það vita allir, að það er af því, að eftir að samningsslit hafa farið fram eftir 18. gr. er ekkert eftir nema konungsfjelagið. Þess vegna hafa Danir og allmargir Íslendingar talið rjett að setja nokkuð ríka tryggingu fyrir því, að að minsta kosti helmingur þeirra, er á kjörskra eru, tjái sig hlyntan því, að samningnum sje slitið.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) talaði um, að aðferðin í þessu máli mundi seint gleymast, og átti hann þar við, að málinu væri óhæfilega flýtt. Gagnvart kjósendum er málinu ekki flýtt meira en 1908, eins og jeg hefi áður bent á. Það er sami tími, 3 mánuðir, sem líður frá því er frv. var birt og til þess er atkvgr. fer fram í október, eða mjög líkur tími, því að jeg geri ráð fyrir, að atkvæðagreiðslan fari ekki fram fyr en eftir miðjan október. En háttv. þm. (B. Sv.) mun líka hafa átt við annað, sem sje það, að málinu væri óhæfilega flýtt hjer í þinginu. Jeg hefi áður látið í ljós, að jeg hefði talið það hæfilegra, að málið gengi ekki hraðar gegnum þingið en þingsköp segja, meðal annara vegna andstæðinganna, svo að þeir þyrftu ekki að bera það fyrir sig, að þeir hefðu ekki fengið nægilegt ráðrúm til að rannsaka málið, gera brtt. og rökstyðja þær á þann hátt, er þeim hentaði best.

En svo voru það að eins nokkur almenn orð um brtt. háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.). Jeg hygg, að dönsku sendimennirnir tafi gengið svo langt, sem þeir töldu frekast unt að fá danska þingið til að samþykkja. Jeg hefi þó ákveðnu sannfæringu. Af því nú að jeg tel ekki minstu líkur til þess, heldur þvert á móti, að frv. nái fram að ganga með brtt. háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), og þar sem jeg á hinn bóginn tel svo mikið fengið með frv. þar sem þegar er fengin viðurkenning sú á fullveldinu, er allir játa að í því felist, og að enn fremur er mögulegt að taka aftur umboðið í 7. gr. og rjettinn í 6. gr. eftir 25 ár, ef vill, þá álít jeg, að vjer eigum eigi að sitja oss úr færi nú á þessari stundu. Þess vegna vil jeg ekki hætta á að greiða atkvæði með brtt. háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.). Má hann kalla það verslun. Er þá að eins hægt að benda honum á frv. 1909. Þá þóttu honum öll þessi atriði mikilsverð. Getur hann eigi láð mjer, þótt jeg sje ekki harðari í kröfum en hann var þá. Að vísu segir háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), að ástandið sje nú svo, að stórveldin lýsi yfir því, að þau vilji vernda lítilmagnann og verja rjett þjóðernisins. En hvar hefir háttv. þm. (B. Sv.) brjef fyrir því, að öll stórveldin mundu, ef vjer segðum skilið við Danmörku, viðurkenna oss afarkostalaust? Hann hefir engin brjef fyrir því.

Hann sagði líka, háttv. þm. (B. Sv.), að Danir mundu ef til vill átta sig á því eftir á, að þeir hefðu hlunnfarið okkur um of, og mundu þá slá af kröfum sínum. Því miður held jeg, að þeir muni ekki átta sig á því, að þeir hefðu dregið svo mjög hönk úr greipum okkar, að þeir færu að breyta afstöðu sinni í þessu máli. Jeg held miklu fremur, að danskir stjórnmálamenn muni líta svo á, að þeir hafi farið svo langt, sem kostur var á, til samkomulags við okkur.

Jeg vík eigi frá því, er jeg gat um síðast, að það er mjög leiðinlegt, hvernig háttv. þm. N.-Þ. (B: Sv.) fer að í þessu máli. Hann kemur með fullyrðingar um skýringar á frv., sem, ef rjettar væru, væru oss afaróhagstæðar. Þar sem svo mikilsmetinn þm. á í hlut, er það matur talsverður fyrir þá Dani, er illgjarnir eru og lítið vilja gera úr rjetti vorum.

Háttv. þm. (B. Sv.) gæti orðað aðfinningar sínar varlegar, eða á þá leið, að tryggara væri að hafa þetta eða hitt nokkuð öðruvísi. Þá gæti enginn sagt eftir á, að þessi háttv. þm. og eldheiti föðurlandsvinur (B. Sv.) hafi komið fram með fullyrðingar, sem beinlínis gætu orðið oss hættulegar og farið í bág við þær skoðanir, er af Íslendinga hálfu kynni að verða haldið fram um einstök atriði samningsins.

Þetta hefði verið heppilegra, og býst jeg við, að föðurlandsást háttv. þm. (B. Sv.) og hiti sá, er hann komst í, hafi valdið því, að hann var ekki svo gætinn, sem skyldi.