02.09.1918
Efri deild: 2. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í B-deild Alþingistíðinda. (29)

1. mál, dansk-íslensk sambandslög

Frsm. (Einar Arnórsson):

Jeg skal reyna að lengja ekki umræður mjög að þessu sinni. Það eru að eins fáeinar athugasemdir, sem jeg þarf að gera við ræðu háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.). Jeg tek það fram, að jeg geri ráð fyrir, að háttv. þm. (B. Sv.) fái að tala enn, ef honum sýnist, þar sem hann er eini verjandi síns málstaðar hjer í deildinni og má því skoðast sem frsm.; mun jeg haga ræðu minni eftir þessu.

Háttv. þm. (B. Sv.) gengur út frá því, að Ísland sje nú þegar fullvalda ríki, og leiðir af því þá ályktun, að samningamenn, Alþingi og landsstjórn þurfi ekki að ganga að neinum verri samningum en hvert annað fullvalda ríki. Þetta væri nú gott og blessað, ef hitt samningaríkið hefði viljað viðurkenna þessa skoðun, en því miður hefir það fram að þessu ekki viljað fallast á þetta; og þótt ýmsir góðir vísindamenn telji Ísland fullvalda ríki, þá eru aðrir, sem mótmæla því. Og þótt vjer teljum oss eiga rjett fullvalda ríkis, þá hafa mótpartar vorir haldið honum fyrir oss, af því að þeirra skoðun er sú, að vjer eigum ekki þennan rjett að lögum. Þegar tveir málspartar deila, t. d. um jörð, þá er hægt að fá fullnaðarúrslit á málinu með dómi, en hjer er ekki því að gegna. Vjer höfum engan þann dómstól, sem vjer getum skotið fullveldis deilumálum vorum við Dani undir, og aðrar þjóðir hafa því miður ekki dæmt oss fullveldisrjett. Það nægir ekki, þótt eitt eða tvö ríki hafi nú á þessum óvenjulegu tímum veitt oss samningarjett við sig um verslunarmál, svo sem værum vjer fullvalda ríki. Danir mundu ekki vilja viðurkenna þennan rjett vorn til frambúðar, og ósýnt, að hin ríkin gerðu það heldur lengur en meðan á stríðinu stendur. Atvinnufjelög hafa á þessum tímum sent út menn til að semja við önnur ríki um atvinnumál sín. Mundi vera hægt að telja fjelög þessi fullvalda ríki? Jeg held varla.

Háttv. þm. (B. Sv.) sagði, að jafnrjettindaveisalan í frv. 1903 hefði mjög stuðlað að því, að því frv. var hafnað.

En hvernig var háttað þessu jafnrjetti þegnanna eftir frv. 1908? Það var óuppsegjanlegt, því að 5. gr. í frv. 1908 er ekki nefnd á nafn í 9. gr. frv., þar sem talin eru upp þau mál, er sambandinu um þau geti orðið slitið að nokkru eða öllu leyti eftir 37 ár, en eftir frv. 1918 er jafnrjettisákvæði 6. gr. uppsegjanlegt að 25 árum liðnum. Þetta er þó ekki óverulegur munur. Aftur er það sameiginlegt báðum frv. 1909 og 1918, að þegnrjetturinn skyldi þegar sjerstakur, og sömuleiðis sameiginlegt þeim báðum, að jafnrjettisákvæði þegnanna skyldi uppsegjanlegt, eftir frv. 1909 að 26 árum liðnum, en eftir frv. 1918 að 25 árum liðnum, svo að munur er ekki mikill, en þó síst í vil frv. 1909.

En það var annað atriði í ræðu háttv. þm. (B. Sv.), sem skiftir meira máli. Hann bar upp þá spurningu, hvort þá væri samrýmanlegt fullveldi eins ríkis, að það veitti öðru ríki þau rjettindi, sem frv. gerir ráð fyrir að Danmörku verði veitt. Fyrst er þar að gera sjer grein fyrir, hvað fullveldi sje. Í stystu máli má segja, að ríki það, sem getur skuldbundið sig með athöfnum eða athafnaleysi, sje fullvalda. En þótt eitthvert ríki veiti þegnum annars ríkis ríkisborgararjett hjá sjer, getur það verið fullvalda eins fyrir það; og ef háttv. þm. (B. Sv.) er í nokkrum vafa um þetta nú, þá hefir hann svarað sjer sjálfur 1909, því að í frv. 1909 leggur hann til, að þessi sömu rjettindi, sem í þessu frv. er gert ráð fyrir að veita Dönum hjer í landi í 25 ár, skuli veitt þeim í 26 ár, og er Ísland nefnt frjálst og fullvalda ríki í 1. gr. frv. 1909. Þá svaraði háttv. þm. (B. Sv.) því rjett, að slík rjettindaveiting sje eigi ósamrýmanleg fullveldi. Sömu skoðunar um þetta sem jeg eru þeir tveir vísindamenn, sem háttv. þm. Dala. (B. J.) bar málið undir, og vita þeir eflaust vel hvað þeir segja. Ef þessi rjettindaveisla er hættuleg nú, þá hefir hún líka verið það 1909, og það er mjög undarlegt, að háttv. þm. (B. Sv.) skuli nú fyrst hafa fengið opin augu fyrir hættunni, er stafi af því að veita þessi rjettindi. Það mætti ætla, að þegar landið var svo heppið að fá hann fyrir málsvara á þingi, þá mundi hann þegar hafa lagt alt kapp á að fá öllum ákvæðum breytt í núgildandi lögum, er í þessa átt ganga. En hvað hefir hann gert í þá átt? Ekkert. Hættan var þá meiri þá en nú.

Eftir þessu frv. er dönskum þegnum hvergi veittur meiri rjettur en íslenskum, heldur jafnmikill. Í því stendur með berum orðum: »Danskir ríkisborgarar njóta að öllu leyti sama rjettar á Íslandi sem íslenskir ríkisborgarar fæddir þar«. Þetta getur þó ekki þýtt, að þeir njóti þar meiri rjettinda. Ef t. d. íslenskir ríkisborgarar verða að vera búsettir hjer til þess að mega njóta einhverra tiltekinna hlunninda, þá verða Danir að vera það líka, ef þeir vilja verða aðnjótandi þessara sömu hlunninda. Það er því misskilningur eða rangfærsla að segja, að Danir eigi eftir frv. heimtingu á, meiri rjettindum hjer í landi en Íslendingar sjálfir. Það er furðulegt að heyra, að maður, er hefir viljað veita þessi sömu rjettindi og láta þau haldast í 26 ár, skuli nú æðrast svo mjög yfir því, að ráðgert er að veita þau í 25 ár. Það er þó varla hægt að ætla, að meira tjón verði að þeim á 25 en á 26 árum.

Það er svo ekki mikið meira, sem jeg finn ástæðu til að svara hv. þm. (B. Sv.).

Þó er eitt atriði viðvíkjandi 7. gr., sem jeg verð að minnast á.

Því er nú haldið fram, að vjer sviftum oss þeim möguleika, sem núverandi ástand hefir skapað, til að senda menn, er semji fyrir vora hönd beint við önnur ríki. En það er einmitt tekið fram í 7. gr., að þetta sje hægt að gera framvegis í samráði við utanríkisráherrann. Þetta á við venjulegt ástand. En í athugasemdunum við 7. gr. er það tekið fram, að ákvæði 7. gr. sjeu því ekki til fyrirstöðu, að þegar sjerstaklega brýn nauðsyn beri til, og ekki æfinlega sje unt að ná til utanríkisráðherrans áður, geti íslenska stjórnin eigi að síður neyðst til að gera ráðstafanir, eins og þegar hafi átt sjer stað í heimsstyrjöldinni.

Það er ekki hægt í samningum að gera ráð fyrir öllu því, er skapast á óvenjulegum tímum. En því er þetta tekið upp í athugasemdirnar, að vjer vildum eigi slaka til með, að við gætum, þegar líkt stendur á, og nú, öllum að fornspurðum flutt vor mál við erlendar þjóðir.

Það er eitt atriði í brtt. háttv. þm. (B. Sv.) sem ætti að vera meinlaust og gagnslaust og óþarft. Það er síðasta málsgreinin í brtt. við 18. gr. Þar sem sem svo segir: Hvort ríkið um sig ákveður, hver skilyrði og reglur það setur um atkvæðagreiðsluna í sínu landi. Þetta leiðir af sjálfu sjer, og þarf ekki að taka það fram. Það er auðvitað, að hvort ríkið setur reglur fyrir atkvæðagreiðslunni, eftir því sem því þykir best við eiga, og það var af ásettu ráði gert að reisa engar skorður gegn því. (B. Sv.: Jeg á við í brtt., að hvort ríkið um sig geti ákveðið atkvæðamagn það, er þurfi til samningsslita). Ef á að skilja orðin þannig, þá játa jeg, að þetta er efnisbreyting.

þm. N.-Þ. (B. Sv.) um frumvarpið, eins

En það er auðsætt, að háttv. þm. (B. Sv.), svo skýr sem hann er, hefir orðið að starfa fljótt, og því er orðalagið óskýrt hjá honum. En úr því að hjer er um efnisbreyting að ræða, þá, verð jeg að vera á móti henni, og jeg álít það skyldu allra, sem vilja fá fullveldi Íslands viðurkent, að vinna að því, að frv. þetta gangi fram óbreytt, og að þeir eigi að forðast að stofna því í háska með nokkrum efnisbreytingum.

Háttv. þm. (B. Sv.) flutti eftir stórblaðinu Times skýrslu um þegnrjettindi í breska ríkinu. Jeg efast ekki um, að háttv. þm. (B. Sv.) skýri rjett frá því, sem í blaðinu stendur, þótt eigi sje það samhljóða því, sem stendur í nýútkominni bók eftir Ragnar Lundborg. Bókin heitir »Zwei umstrittene Statsbildungen« og er prentuð í Berlín 1918. Þar stendur svo á bls. 103–104:

»Sum af nýlenduríkjum þessum (?: hinum bresku) hafa sjerstakan ríkisborgararjett. En jafnframt öðlast hver breskur þegn, sem tekur sjer bólfestu í nýlenduríkinu, sama ríkisborgararjett sem væri hann þar borinn og barnfæddur«.

Jeg skal ekki segja, hvort rjettara er, það sem háttv. þm. (B. Sv.) hermir eftir Times, eða það sem Lundborg segir, enda skiftir það litlu hjer, því að samband Íslands og Danmerkur verður eigi borið saman við samband Bretlands við nýlenduríkin, þar sem Bretland er þó yfirríkið í því sambandi, sem hefir lagalegan rjett til að stjórna nýlenduríkjunum, og innan vissra takmarka rjett til að ónýta lög, sem þau setja. Hitt er annað mál, að Bretar nota sjer ekki þennan rjett þeir eru altof stjórnvitrir til þess.