02.09.1918
Neðri deild: 2. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í B-deild Alþingistíðinda. (3)

1. mál, dansk-íslensk sambandslög

Forsætisráðherra (J. M):

Jeg þykist ekki þurfa að segja sögu þessa máls, enda mundi það taka langan tíma, því að sú saga nær yfir nær heila öld, og þótt ekki væri tekin nema allra nýjasta saga eða tildrög til þessa frv., er hjer liggur fyrir og komið er upp úr fánamálinu, þá væri hún og allyfirgripsmikil, en jeg tel óþarft að fara að ræða um það nú. Jeg skýrði nokkuð frá tildrögunum til þessa í þinginu fyr í sumar og vil ekki vera að endurtaka það, því síður sem jeg tel þetta þing í rauninni framhald af hinu, þótt það sje í forminu sjerstakt.

Ef þetta frv., sem hjer er nú lagt fyrir, verður samþykt af þinginu, þjóðin íslenska felst á það og það verður samþykt einnig í danska ríkisþinginu og staðfest af hans hátign konunginum, þá höfum vjer Íslendingar náð því marki, er vjer höfum kept að, að fá viðurkent fullrjetti vort í öllum málum vorum.

Þetta frv., sem bygt er á viðurkendum rjetti íslensku þjóðarinnar til þess að skipa öllum sínum málum eftir vild, felur í sjer fyrst og fremst staðfesting og viðurkenning sjálfstæðs fullvalda íslensks ríkis, í sambandi við Danmörku um sama konung. Samningur er auk þess gerður um einstök atriði, aðallega tvo, utanríkismál og gagnkvæmilegan rjett ríkisborgaranna í hvoru ríkjanna, en þessi samningur er uppsegjanlegur. Utanríkismálin íslensku fara Danir með í umboði voru, en hinu íslenska ríki er áskilinn rjettur til íhlutunar og eftir atvikum beint að fara með þessi mál sjálft. Úr öllum stjórnmáladeilum, sem staðið hafa milli Dana og Íslendinga um langan aldur, sker frv. þetta á svo glöggan hátt og með svo skýru orðalagi, sem frekast má verða, að minni hyggju, og það á þann hátt, að allar kröfur vorar eru teknar til greina, viðurkenning fullveldis með viðurkenning sjerstaks ríkis, sjerstakur ríkisborgararjettur, þjóðfáni, sambandið við ríkisráð Dana horfið, Ísland laust við hermál, en tilkynt ævarandi hlutleysi þess. Hæstarjett getum vjer stofnað hjá oss, er vjer óskum; en jeg skal ekki fara lengra út í efni frv. því síður er ástæða til að orðlengja um þetta, er það er vitanlegt, að hið háa Alþingi hefir svo að segja einróma fallist á frv., svo að samþykt þess á þessu þingi er ekki annað en formsök. Auk þess má segja, að það sje kunnugt orðið nálega hverju mannsbarni hjer á landi. Verður ekki annað vitað en að þjóðin í heild fagni þeirri niðurstöðu, er fengin er með þessu frv. Þetta er auðvitað aðalatriðið, að þjóðin geti verið fyllilega ánægð með niðurstöðuna. Hitt er og afarmikils virði, að því samkomulagi, sem er grundvöllur þessa frv., er tekið mjög vel, að því er virðist einróma hjá erlendum þjóðum, utan Danmerkur, þeim sem oss standa næstar að minsta kosti.

Þegar Ísland nú væntanlega bráðum byrjar aftur ferð sína sem viðurkent sjálfstætt fullvalda ríki, þá er það ekki lítils virði, að það hafi samhug annara þjóða, og þá einkum þeirra, er því standa næst. Samkomulagi því, er hjer er fengið, hefir og verið yfirleitt vel tekið í Danmörku, og er ekki að efast um, að ríkisþingið samþykkir samhljóða frv. þessu, með miklum meiri hluta að minsa kosti.

Að vísu verður frv. þessu samhljóða ekki lagt fyrir þingið fyr en í október. Reyndar kemur ríkisþingið saman til aukafundar í þessum mánuði, en þar sem sambandslögin hjeðan geta ekki orðið búin undir konungsstaðfestingu innan loka þessa mánaðar, vegna þjóðaratkvæðisins, verður ekki unt að fá konungastaðfestingu fyr en í október í fyrsta lagi. En frv., sem samþykt væri í ríkisþinginu um þetta efni í september, fjelli niður, ef það hefiði ekki fengið konungsstaðfestingu innan 1. október, er ríkisþingið þá kemur saman til reglulega fundar. Eftir þessum atvikum hefir ríkisráðherrann danski tjáð mjer, að sambandslagafrumvarpið geti ekki orðið lagt fyrir ríkisþingið fyr en í október.

Jeg skal láta þess getið, að frá stjórnarinnar hálfu munu ekki önnur mál verða borin upp á þessu þingi en það mál, er hjer um ræðir. Það er því gert ráð fyrir, að þingsetan verði mjög stutt í þetta skifti; er þess vænst, að slíta megi þinginu næstkomandi laugardag, og hefi jeg gert ráðstöfun til þess, að Sterling, sem átti að fara hjéðan á föstudaginn, verði látinn bíða til sunnudagskvölds eftir þingmönnum, sem með því skipi geta farið. Ef þetta á að takast, þá verður væntanleg nefnd, er sett verður í þetta mál, að hraða mjög nefndarálitinu og vinna þá saman við þá nefnd, sem jeg vona að verði nú samstundis, í dag, kosin í málið í háttv. Ed., enda heppilegt, að sameiginlegt nefndarálit verði samið í málinu. Jeg skil ekki annað en að þetta ætti að vera hægðarleikur, að koma nefndarálitinu svo fljótt frá, að taka mætti málið aftur á dagskrá í þessari deild á miðvikudag og ljúka því hjer á fimtudag, og hefði þá háttv. Ed. föstudag og fyrri hluta laugardaga til að ræða það, en slíta mætti þinginu seinni hluta þess dags. Þetta verður að vísu ekki gert nema með nokkrum afbrigðum, en þar sem hjer getur ekki verið að ræða um neina breytingu á frv., og með því að þingmenn hafa þegar fallist á það, þá er ekkert áhorfsmál að neyta afbrigða, til þess að þingið verði sem styst.

Vil jeg svo leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og í manna nefndar, sem jeg geri ráð fyrir að verði fullveldisnefnd síðasta þings, en þar sem hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) hefir ekki komið til þinga, munu heimastjórnarmenn gera tillögu um mann í hans stað.

Skal jeg svo ekki orðlengja þetta, en vona, að aðalumræðurnar verði látnar bíða þess, að nefndarálitið komi fram, og tel sjálfsagt, að leyft verði við 2. umr. að ræða málið í heild sinni eins og einstakar greinar.