07.09.1918
Neðri deild: 4. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í B-deild Alþingistíðinda. (34)

1. mál, dansk-íslensk sambandslög

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Jeg býst við, að það sje nú fram komið af umræðum þeim, skriflegum og munnlegum, sem fram hafa farið um þetta mál, að óttinn, sem ýmsir hafa borið út af rjettindaveislum í frv., sem þá aðallega felast í 6. gr., er ekki á rökum bygður, þar sem það er og fram komið, sem vjer raunar vissum áður, en sumum hafði sjest yfir við fyrstu athugun, að þetta er alt í hendi íslendinga sjálfra, hversu sem þeir vilja með fara og verja öllum hætti. Og þar sem það er enn fremur fram komið, að þeir, sem hafa á móti frv., hafa ekkert að athuga við 7. gr., sem jeg einna helst taldi athugaverða, þá virðist svo, sem mótstaða móti þessu frv. geti engin veruleg orðið.

Þótti mjer þó eigi 7. gr. athugaverð af því, að eigi væri vel um búið utanríkismálin, sem skýlausa eign íslendinga, heldur fyrir metnaðarsakir og þess, að ekki er víst, að erindisreksturinn verði jafngóður og ef vjer færum með hann sjálfir.

Jeg tel það og mjög vel farið og eðlilegt, að mótstaðan sje lítill sem engin, því að nú getur Ísland eftir frv. þessu, í fyrsta sinni um mörg hundruð ár, dregið andann frjálst. Nú er loks horfin af því þessi mara, sem það hefir nú erfiðað undir öldum saman, því að nú er fengin fall viðurkenning fyrir því, að Ísland sje jafnsjálfstætt og rjetthátt og hvert annað ríki, og í því einu sambandi við annað ríki, að það hefir sama konung, en annars engu ríki háð. Meðferð allra mála tilheyrir hvoru landi. Það er eigi samband milli þeirra ríkja, sem gera samning um öll mál sín sem jafnrjettháir aðilar, enda sjest vel, að það getur eigi verið hjer, þar sem samstjórn er engin.

Skal jeg ekki rekja mál þetta frekar. Vildi jeg að eins kveðja þetta mál í þessari deild með þeim orðum, að nú getur Ísland aftur dregið andann frjálst. Er því vel farið, að engin er mótstaðan, og minnumst vjer nú þeirra orða, er svo mæltu: »Dagur í austri.«