07.09.1918
Neðri deild: 4. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í B-deild Alþingistíðinda. (35)

1. mál, dansk-íslensk sambandslög

Benedikt Sveinsson:

Þetta mál er nú einnig frá minni hendi útrætt, og vil jeg að eins gera örstuttar athugasemdir út af orðum háttv. þm. Dala. (B. J.) nú og í sambandi við nokkur orð í ræðu háttv. 2. þm. (E. A.) í gær.

Jeg spurði í gær, hvort menn vissu þess nokkur dæmi, að nokkurt fullvalda ríki veitti öðru ríki slík rjettindi, sem þau, er Dönum eru veitt í frv. þessu, þar sem borgurum annara landsins er veitt fult og óskorað jafnrjetti við borgarana í hinu landinu.

Háttv. meiri hluti gat að vonum ekki gefið neinar upplýsingar um, að svo væri nokkurstaðar. En háttv. aðstoðarfrsm., 2. þm. Árn. (E. A.), sagði, að þetta gæti þm. N.-Þ. sagt sjer sjálfur, þar sem hann hefði viljað veita slík rjettindi 1909. Þetta svar er alveg út í hött, því að þótt þm. N.-Þ. hefði 1909 viljað gera eitthvað það, sem skaðlegt gat orðið, þá felst ekki í því neitt svar gegn spurningunni, og í annan stað bæri þá heldur að láta sjer þau víti nú að varnaði verða.

Annars var frv. 1909 alt annars eðlis en frv. 1918. Skal jeg sem dæmi þess, hvort þessara frv. Dönum muni hollara, geta um eitt atriði, sem getur verið góður prófsteinn. Annað frv. var samþ. á Alþingi Íslendinga, ráðherra Íslands fór með það á fund konunga og dönsku stjórnarinnar og síðan átti að leggja það fyrir Ríkisþingið, en Danir virtu það ekki viðlits. — En nú senda þeir sína bestu menn til þess að komast að þeim samningum, sem felast í þessu frv. Eftir gerða samninga koma þessir menn heim til Danmerkur sem sigurvegarar, og öll þjóðin er í sjöunda himni af fögnuði yfir erindislokum þeirra. Ef þetta sýnir ekki mismuninn fulláþreifanlega, að þeir virða ekki annað viðlits en taka hinu tveim höndum, þá kann jeg eigi sundur að greina.

Annað skal jeg og flytja fram til upplýsingar því, er jeg talaði um, og það eru rjettindi breskra þegna í nýlendum Breta. Það var úr Times Weekly 2. ágúst í ár. Er þar skýrt frá, alríkisstefnu (fundi), sem háður var í Lundúnum í sumar. Þangað sóttu fulltrúar frá öllum löndum Bretaveldis. Var á 15. fundi þessar stefnu, 24. júní 1918, samþykt svo feld yfirlýsing, sem jeg skal leyfa mjer að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta. Er hún viðvíkjandi þeim rjetti, er íbúar hvers einstaks landa skyldu hafa og hefðu:

»Það heyrir tvímælalaust undir valdsvið stjórnar hvers einstaka lands innan breska ríkisins að ákveða ein, hverjir sjeu íbúar í landinu, með hömlum á innflutningi frá hinum löndunum. Breskum borgurum, sem búsettir eru innan einhvers lands í breska ríkinu, skal heimilt að koma til annara landa breska ríkisins í heimsókn, sjer til skemtunar eða í verslunarerindum, svo og að setjast þar að til bráðabirgða í því skyni að leita sjer mentunar, en rjettur þessi nær ekki til heimsóknar eða bráðbirgðaaðseturs í því skyni að leita sjer atvinnu nje til að taka sjer fasta bólfestu«.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) talaði um það, að hjer væri um engin sameiginleg mál eða sameiginlega stjórn að ræða, heldur að eins um samning, sem tvö jafnrjetthá, ríki gerðu með sjer. En þetta sannar ekkert, því að það er alkunna, að tvö eða fleiri ríki geta sín á, milli gert mjög svo skaðlegan og varhugaverðan samning. Nægir í þessu sambandi að benda á, samninga þá, sem Rússar og Persar gerðu sín á, milli, og mætti svo lengi upp telja.

Skal jeg svo að lokum láta um mælt, að ekki veit jeg nú þann mistiltein fyrir mold ofan, er hættulegur sje íslenskri þjóð, ef hann er ekki fólginn í þessum sambandslagasamningi.