02.09.1918
Neðri deild: 2. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í B-deild Alþingistíðinda. (4)

1. mál, dansk-íslensk sambandslög

Benedikt Sveinsson:

Það er sjálfsagt lofsvert að vilja fara vel með þingtímann. Þingið í sumar var óþarflega langt, og er því ekki nema eðlilegt, að nú komi fram sú iðrunar- og endurbótarstefna, að hafa þingsetuna sem allra stysta. Skal jeg síst draga úr slíku hugarfari þingmanna. En of dýr gæti þingsparnaðurinn orðið, ef hann væri eingöngu látinn koma niður á slíku stórmáli, sem sambandsmálið er. Það frumvarp, er liggur nú fyrir þinginu, er án efa merkasta og mikilvægasta málið, sem nokkru sinni hefir fyrir þingið komið. Sennilega munu að vísu flestir þingmenn þegar ráðnir í því, hvernig þeir ætli að greiða atkvæði, en þó er skylt að ræða málið samkvæmt þingsköpum, því að margt kann að koma fram í ítarlegum umræðum, sem breytir afstöðu manna til þess. Aftur mundu afbrigði hamla, að málið væri rætt rækilega, og skyldi síst neyta afbrigða í slíku stórmáli, sem þetta er. Afbrigðum var óspart beitt í stjórnarskrármálinu 1914, og hefir síst hlotist gott af, og er það hugboð mitt, að eins yrði um þetta stórmál.

Árið 1908 gafst þjóðinni góður tími til að athuga sambandsmálið; var kunnugt orðið um efni frumvarpsins tímanlega í maímánuði, en ekki kosið fyr en í september um haustið. Þá um vorið var gefin út fróðleg bók, »Bláa bókin«, um öll störf og tillögur nefndarinnar, ásamt nefndaráliti og ýmsum öðrum fróðlegum fylgiskjölum, sem gerði þjóðinni langt um hægra fyrir en ella að átta sig til hlítar á málinu. En nú er annað uppi á teningnum. Nú er að eins blábert frumvarpið með athugasemdum birt fyrir þingi og þjóð, og kemur mönnum þetta einkennilega og undarlega fyrir sjónir.

Jeg hafði búist við, að gefin yrði út nokkurskonar »blá bók«, þar sem væru öll skjöl, er að samningunum lúta, gerðabók samninganefndar o. s. frv. Gæti birting þeirra skjala skýrt og upplýst ýmisleg mikilvæg atriði, og ættu þau síst að liggja í láginni. Slíkri bók ætti að útbýta meðal kjósenda í landinu svo snemma, að þeir fengju góðan tíma til athugunar áður en atkvæðagreiðslan fer fram.

Jeg kalla það alls ekki forsvaranlegt, ef kjósendum verður ekki fengið annað í hendur en niðurstaða samningatilraunamanna, samningarnir sjálfir, sem jeg efast um að alþjóða manna sje farin að kynna sjer. Að vísu kunna að vera til svo blindir fylgdamenn frv., að þeim þyki engin þörf á, að vanda til atkvgr. eða gefa kjósendum nægilegan frest til að athuga málið. Sannast það hjer sem oftar, að hverjum þykir sinn fugl fagur. Jeg er ekki í efa um, að sumir þeir, sem ákafast fylgdu frumvarpinu 1908, hefðu þá verið harðánægðir með eins mánaðar frest undir kosningar, og mundu úrslitin þá hafa orðið önnur. En af því að nægilegur tími gafst til að athuga það frv., tókst svo giftusamlega til, sem raun varð á. Þá voru stjórnmálamenn eins glöggir og þeir, sem nú eru uppi, og leið þó mánuður eða meira áður en þeir, sumir hverjir, jafnvel hjer í höfuðstaðnum, voru búnir að átta sig.

Hæstv. forsætisráðh. var einn þeirra manna, sem voru harðánægðir með frv. 1908. Skal jeg því ekki lá honum, þótt hann sje ánægður með þetta frv. því að þótt það sje mikill gallagripur, er það að að sumu leyti betra en gamla frv. En hins vegar er það að öðru leyti verra. Kröfur þjóðarinnar hafa einnig skýrst og vaxið síðan 1908. Öll aðstaða innanlands og gagnvart öðrum löndum hefir gerbreyst. Það, sem var við hlítandi þá, getur verið óhæfilegt nú.

Hæstv. forsætisráðerra sagði, að Ísland væri viðurkent fullvalda ríki í samningunum og fengi nú öll sín mál í sínar hendur. Þetta, að Ísland sje fullvalda ríki, er að vísu sagt berum orðum í 1. gr. frv., en ef lesið er áfram, kemur í ljós, að þetta eru ekki nema orðin tóm. 6. gr. kemur þvert ofan í ummæli 1. greinar. Þar er Dönum veittur allur sá sami rjettur á Íslandi sem Íslendingum sjálfum. Christensen getur hróðugur sagt, að hann hafi »komið, sjeð og sigrað«. Jafnrjettisákvæði 6. gr. eru að nú verri en í frv. 1908. Það liggur í augum uppi, ef borið er saman, og einkum ef athugaðar eru skýringarnar, sem fylgja 6. gr. og jeg mun síðar víkja að.

Í frv. 1908 var fiskiveiðarjettur Dana að nokkru leyti bundinn við landhelgisvörn þeirra og gert ráð fyrir, að hann fjelli niður síðar meir, ef Íslendingar tækju að sjer strandvarnirnar. Í nýja frv. er ekkert ákvæði um, að Danir missi fiskiveiðarjettinn í landhelgi við Ísland, þótt Íslendingar annist einir strandvörnina. Danir hafa nú ekkert aðhald. Þeir eru beint leystir frá því að auka nokkuð strandvarnirnar og þurfa ekkert að gjalda. fyrir rjett sinn. En eftir frv. 1908 höfðu Danir þó tvennskonar aðhald í þessu efni. Í fyrsta lagi hefðu Íslendingar að sjálfsögðu tekið strandgæsluna í sínar hendur ef Danir hefðu vanrækt hana, og þar með síðar meir svift Dani og Færeyinga fiskiveiðarjettinum, eins og Færeyingar óttuðust mjög. En nú eru Danir leystir frá slíkum óþægindum. Í öðru lagi hefðu Danir líka skirst við að nota landhelgina mjög til fiskveiða, því að ella hefði ágangur þeirra orðið hvöt fyrir Íslendinga til að taka strandgæsluna í sínar hendur og losna við ágang þeirra. Christensen hefir haft sitt fram. Hann má vel una þessum málalokum. Hann kom, sá og sigraði.

Það lætur vel í eyrum, að Ísland sje fullvalda ríki, en hið fullvalda Ísland má ekki gera slíkan samning við annað ríki, að fullveldinu sje þar með kipt upp með rótum. Ef samningar þessir ganga í gildi, fær þrjátíu sinnum fjölmennari þjóð og hundrað sinnum ríkari borgararjett í þessu kostauðga landi. Hingað til hefir það verið takmarkið í frelsisbaráttu þjóðarinnar, að Ísland yrði fyrir Íslendinga. En nú á Ísland að vera fyrir Dani og Íslendinga. »Ísland fyrir Íslendinga« hefir ekki að eins verið slagorð eins stjórnmálaflokks, heldur allrar þjóðarinnar. Æskulýður landsins (ungmennafjelögin) hefir og tekið þessi orð á stefnuskrá sína. Eftir fá ár eru unglingarnir orðnir atkvæðisbærir, en þá á að vera búið að hleypa útlendum skara inn í landið og eyðileggja meginkjarnann í æskuhugsjónum þeirra, höfuðskilyrðið fyrir velgengni þjóðar vorrar í þessu landi.

Sambandamenn hafa verið að tala um að takmarka rjettindi Dana hjer í landi, með þeim hætti að gera heimilisfestu innanlands að skilyrði fyrir atvinnurekstri í landinu. Jeg skal engu spá um efndirnar, sem á því yrðu. En örðugt mundi það þó veitast, þar sem slíkt væri ótvírætt brot á anda samningsins. Í aths. við 6. gr. láta hvorirtveggja nefndarmennirnir, dönsku og íslensku, svo um mælt:

»Sjálfstæði landanna hefir í för með sjer sjálfstæðan ríkisborgararjett. Þess vegna er af Dana hálfu lögð áhersla á, að skýlaust sje ákveðið, að öll ríkisborgararjettindi sjeu algerlega gagnkvæm, án nokkurs fyrirvara eða afdráttar«. Þetta virðist svo skýrt og »afdráttarlaust«, sem orð tungunnar geta framast látið í ljós, og þarf engrar útlistunar.

Annars er hjer harla undarlega að orði kveðið. Fyrst er þess getið, »að sjálfstæði landanna hafi í för með sjer sjálfstæðan ríkisborgararjett«. En svo kemur í næstu setningu: Þess vegna er af Dana hálfu lögð áhersla á, að skýlaust sje ákveðið« o. s. frv.

Setningarnar eru í raun rjettri í mótsetningu hvor við aðra, og hefði heldur átt að standa: »Þó er af Dana hálfu lögð áhersla á o. s. frv.«. En þetta orðalag er eðlilegt, þar sem Danir leyfa að eins á pappírnum, að Ísland sje kallað frjálst og fullvalda ríki; þess vegna þurfa þeir að taka það skýlaust fram, að þeir hafi sama rjett og íslenskir borgarar hjer á landi. Og ekki er nóg með að jafnrjettið sje svo skýrt og afdráttarlaust ákveðið í texa frv. og aths., heldur er því bætt við, »að af þessari gagnkvæmni leiðir það, að afnema verður allar þær takmarkanir, sem nú eiga sjer stað á fullu gagnkvæmu jafnrjetti«. Hjer er Íslendingum skipað að plokka burt alt, sem nú er í lögum og gæti takmarkað fullkomnasta jafnrjetti Dana hjer á landi. Til eru einmitt ýms lög, sem miða að því að tryggja, að Ísland sje fyrir Íslendinga. Yfir því hefir Knutur Berlin verið að fjargviðrast og aðrir hans sinnar. En nú er skipað að reita alt slíkt burt. Þetta er svo grátleg afturför, að furðu gegnir, að nokkur Íslendingur skuli geta mælt því bót. Hjer er árangurinn af viðleitni bestu manna þjóðarinnar á undanförnum áratugum að stuðla að því með löggjöf, að Ísland verði fyrir Íslendinga, strikaður út og afmáður.

Erindrekar Dana hafa ekki sett þessi afdráttarlausu skilyrði um jafnrjettið í samninginn alveg út í bláinn. Nefndarmennirnir íslensku hafa einnig fallist á þau, og þau eru í samræmi við allan anda samningsins, þótt heyrst hafi síðan, að torvelda mætti Dönum aðstöðu þeirra með búsetuskilyrðum. En jeg sje ekki betur en slíkt væri brot á samningnum, og væri það ekki fögur aðferð eða heillavænleg að gera samning með þeim hug að svíkja hann. Íslendingar mundu einnig komast skamt með það. Gerðardómur á að skera úr, ef ágreiningur rís um skilning á samningnum, og gerðarmennirnir fara væntanlega að lögum og halda sig að ákvæðum samninganna.

Þá er enn eitt ákvæði, sem sýnir bróðurþelið á pappírnum, en leiðir jafnframt í ljós það, sem undir býr. Það er hin makalausa lögjöfnunarnefnd, sem stofna skal samkv. 16. gr. Þar er ákveðið, að stofna skuli »dansk-íslenska ráðgjafarnefnd, sem í eru að minsta kosti 6 menn« o. s. frv., og síðan tekið fram, að »sjerhvert lagafrumvarp, sem varðar nánari meðferð mála þeirra, er um ræðir í sambandslögum þessum, og lagafrumvörp um sjermál annarshvors ríkisins, sem einnig varða hitt ríkið og stöðu og rjettindi þegna þess, skal hlutaðeigandi stjórnarráð leggja fyrir nefndina til álita áður en þau eru lögð fyrir Ríkisþing eða Alþingi«, o. s. frv. — »Nefndinni ber að gera tillögu um breytingar á þeim frumvarpsákvæðum, sem hún telur koma í bága við hagsmuni annarshvors ríkisins eða þegna þess«. — Þá á nefndin og að undirbúa samning lagafrumvarpa, er miða að »samvinnu milli ríkjanna og samræmi í löggjöf þeirra«.

Eins og allir hljóta að sjá eru Danir hjer að tryggja sjer, að Íslendingar gangi ekki á þennan afarríka rjett, sem þeir hafa búið sjer með samningnum. Nær þetta árvakra eftirlit nefndarinnar ekki einungis til sammálanna, heldur og sjermála Íslands, og sannast hjer það, sem skáldið kvað, að

»Öll vor lífskjör, lítil eða stór,

þau liggja helkrept undir sömu klóna«.

Hjer er nú hart að gengið gagnvart »ríki«, sem kallað er »fullvalda«. Og það hefði jeg haldið, að ekki mundi þykja greiðari framgangur lagafrumvarpa á Alþingi við þær tafir, að skjóta hverju einasta frumvarpi, er snertir hagamuni þegnanna samkvæmt samningnum, undir þessa nefnd. Það er nú sennilegt, að nefndin sje ekki altaf á Íslandi, heldur líti einnig eftir lögum Dana, þótt það hafi að vísu ef til vill ekki verið tilgangur þeirra góðu dönsku manna, er hjer hafa um vjelt. Og hræddur er jeg um, að framtíðarmenn hjer á landi muni einhvern tíma verða saddir á því að þurfa að sækja alla sína lagasmíð undir klær þessarar nefndar.

Enn er það að samvinnu milli ríkjanna og samræmi í löggjöf. Það hefir nú varla verið ætlun nefndarmanna nje annara, að Danir mundu sníða sín lög að dæmum Íslendinga. Nei, þetta ákvæði er með sama merki brent sem önnur fyrirmæli frumvarpsins. Tilætlunin er vitanlega sú með »samræminu«, að Íslendingar sniði sín lög eftir dönskum. Ísland á ekki lengur að vera hlutlaust um það að sníða sjer sjálft stakk eftir vexti, heldur gangast Íslendingar nú undir að lögskipa fasta nefnd, sem vinna á að því, statt og stöðugt, að þeir geri lög sín sem líkust því, sem er í Danmörku. Þessi er ætlunin með því að setja upp nefnd til að »efla samvinnu milli ríkjanna« og »samræmi í löggjöf!« Alt er á eina bók lært.

Til þess að búa svo enn betur um hnútana á Ísland nú að veita fje til þess að »danisera« landið. — Jeg kalla, að Ísland veiti fjeð, þar sem hjer er um ráðstöfun þess fjár að ræða, sem frá Íslandi er runnið í upphafi, Íslendingar hafa notið og þeir hafa jafnvel fengið viðurkent af Dönum, að þeir ættu heimting á. Það er kunnugt, að Danir hafa viðurkent það með stöðulögunum sælu 1871, að Ísland ætti fje hjá Danmörku, og ákváðu þeir með þeim lögum, að Ísland skyldi fá 60000 krónur á ári sem æfinlegt árgjald úr ríkissjóði Dana (auk nokkurs fjár, sem greitt var fyrstu árin, en síðan minkaði og hvarf eftir 30 ár), en þar með skyldu á enda kljáð öll skuldaskifti milli ríkissjóðs Dana og Íslands. Þetta 60000 kr. árgjald samavarar höfuðstóli, er nemur hálfri annari miljón króna, ef vextir eru taldir 4%. — Auk þessa er »Garðstyrkurinn« svonefndi, eða forrjettindi íslenskra stúdenta við háskólann í Kaupmannahöfn. Sá styrkur er bygður á fje, sem konungar drógu undir sig af eignum biskupsstólanna íslensku og af klaustrafje, og hafa Íslendingar því talið sig eiga rjetta kröfu þess fjár, er eigi mundi nema minna en einni miljón króna. — Hvorttveggja þetta fje, »Garðsstyrkurinn« og árgjaldið, sem Danir höfðu sjálfir undirgengist að greiða, á nú að falla í hendur Dana, (minst 2½ miljón), en upp úr því steypa þeir tvo nýja sjóði, er hvor nemur miljón króna, og er annar lagður Kaupmannahafnarhaskóla, en hinn háskóla Íslands, — »til þess að efla andlegt samband milli Danmerkur og Íslands, styðja íslenska vísindastarfsemi« o. s. frv. — Mjúk eru orðin og áferðargóð, en kemur hjer ekki fram alveg sami andinn og sami tilgangurinn sem lýsir sjer í orðum Nellemanns gamla, fyrrum Íslandaraðherra, er hann mælti fram með styrk til íslenskra manna úr dönskum mentasjóðum: »De maa föle sig som Danske«. Það á að verja þessu fje samkvæmt tilgangi laganna til að innræta Íslendingum, að þar sem þeir eru og »jafnrjettisbræður« þeirra, þá sje þar alt »ein hjörð og einn hirðir«.

Jeg býst nú við, að sumir menn geri mjög mikið úr niðurlagsatriðum frumvarpa þessa, þar sem rætt er um uppsegjanleik málanna. En Danir hafa einnig þar haft vaðið fyrir neðan sig og búið tryggilega um hnútana, enda er þess beint getið í athugasemdunum, að jafnframt því sem uppsagnarfresturinn sje nú nokkuð styttur frá því, sem var 1908, þá sjeu þrengri skilyrði sett fyrir uppsögninni. Hafa sendimennirnir dönsku einnig bent greinilega á hömlurnar fyrir uppsögninni, þegar þeir komu heim hjeðan úr sigurförinni.

Með hinum afarströngu uppsagnarskilyrðum finst mjer framið brot á þeim bróðuranda, sem verið er að segja að ráðið hafi gerðum dönsku nefndarmannanna við samningana(!). — Hjer er þess fyrst og fremst krafist, að 2/3 hlutar sameinaðs þinga fallist á uppsögn samninganna, og ætti það út af fyrir sig að vera nægilegur skildagi. En svo er eigi að nefndarinnar dómi, heldur er og krafist, að minst 75 af hverju hundraði kjósenda skuli taka þátt í atkvæðagreiðslu um samningsálit. Er slíkt hörð og ósanngjörn krafa í svo strjálbyggu landi og torsóttu yfirferðar sem Ísland er, enda munu þess því nær eins dæmi, að svo margir kjósendur hafi sótt kjörfundi, jafnvel þótt um mikil kappsmál hafi verið að tefla. Og ofan á alt þetta er svo gerð sú krafa, að minst ¾ þeirra, sem atkvæði greiða, fallist á uppsögn samningsins, svo að gilt sje.

Þetta er sá ákvörðunarrjettur, sem Íslendingum, þegnum hina »frjálsa og fullvalda ríkis«, er ætlaður og ákveðinn af örlagasmiðum þjóðarinnar!

Það er eigi ætt að skilyrði nú, að minat 75% kjósenda sæki kjörfund, og að minst 75% af þeim skuli vera með til þess, að þessi samningur öðlist gildi. Nú láta menn sjer nægja einfaldan meiri hluta hve fárra kjósenda sem vera skal, þeirra er fund kunna að sækja. En það er oft hægra að binda en leysa, og auðsjáanlega til þess stofnað með ráðnum huga, að svo verði hjer.

Það hefir líka komið fram hjer í blöðum, sem annars dásama samning þennan, að það sje óhugaanlegt, að samningnum verði sagt upp að lögum. Það þarf nú varla að fara í grafgötur um það, að Danir fari að renna á vaðið og nota sjer þau rjettindi, sem þeir hafa fengið takmarkalaus hjer á landi samkvæmt samningnum. Það er því engin hætta á, að Íslendingar mælist einir við hjer á landi um eða eftir árslok 1940. Þá verður orðið hjer fult af útlendingum í skjóli sambandalaganna, og þyrftu þeir ekki að halda vel saman til þess að hindra uppsögn samninganna. Örlítill minni hluti, sem væri á móti frumvarpinu, gæti setið heima, og við þá bættust þeir, sem væru sjúkir, áhugalausir og fjarverandi. Svo auðvelt er að afstýra uppsögn samninganna, að ekki þyrfti annað en þetta til að aftra henni.

Þá vil jeg víkja að 7. gr. Hæstv. forsætisráðherra lagði áherslu á, að Ísland ætti íhlutunarrjett um utanríkismálin. Jeg játa, að þetta er rjett á vissan hátt: vjer höfum leyfi til að senda íslenskar undirtyllur til danskra sendiherrasveita og ræðismanna, en þó á eigin kostnað, og gæti það orðið talsvert útdráttarsamt og engu ódýrra heldur en vjer sendum sendimenn á eigin spýtur, án þess að spyrja utanríkisstjórn Dana um það. Rjettindin eru því ekki mikilvæg. Og þar sem vjer höfum þegar tekið utanríkismálin í vorar hendur, þá er ekki hjer um annað að ræða en að vjer skilum þeim aftur í hendur Dana.

Sumir vilja reyndar gera lítið úr þeim rjetti, sem Ísland hefir neytt um utanríkismál sín síðustu árin, og vilja láta heita svo, að það sje að eins neyðarúrræði, sem jafnvel megi grípa til framvegis þegar líkt stendur á, án þess að landið sje þar fyrir hóti frjálsara ráðsmensku sinnar en áður, og er þetta tekið fram í athugasemd við 7. gr. frumvarpsins, til þess að breiða þægilega yfir það, að Íslendingar hafi farið með utanríkismál sín nú sem alfrjáls og fullvalda þjóð á þessum vandasömustu tímum.

Það er sjálfsagt, að Ísland fái siglingafána, það er að segja fullkominn fána, og geri jeg þá ráð fyrir því, að sjeð verði um, að danski fáninn verði ekki lengur jafnrjetthár á stöngum stjórnarráðins. Jeg vek máls á þessu, svo að það verði ekki af gleymsku, ef engin umbót verður gerð á þessu frá því, sem nú er.

Jeg geri enn fremur ráð fyrir því, að Ísland geti tekið að sjer gæslu fiskiveiðanna, þótt það hafi ekki gunnfána. Það er þó vitanlega gömul kenning heimastjórnarmanna, að engin þjóð geti haft á hendi strandvarnir nema hún hafi gunnfána, og því hjeldu sambandamenn fram 1908. En sú kredda mun nú dauð vera.

Hæstv. forsætisráðherra drap á, að mikill meiri hluti þjóðarinnar væri ánægður með frumvarp þetta. Jeg veit ekki, á hverju hann byggir það, og efast stórlega um, að hann viti mikið um það, enda býst jeg við, að minstur hluti þjóðarinnar hafi myndað sjer nokkra skoðun um þessi síðustu afdrif málsins. Margir kjósendur hafa alls ekki kynt sjer það hið minsta enn þá og ekki fengið nema hraflfrjettir af því, sem gerðist á fyrra þinginu. En jafnstórvægilegt höfuðmál sem þetta þarf vandlega íhugun og meiri gögn en kjósendur hafa fengið enn þá. Jeg býst við, að hæstv. forsæisráðherra sje manna mestur hjartnanna og nýrnanna rannsakari, en hlýt þó að efast um, að hann geti vitað gerla um þær skoðanir þjóðarinnar, sem hún er ekki enn farin að mynda sjer sjálf.

En þótt svo væri, að meiri hluti kjósenda væri þessu fylgjandi, þá er það engin sönnun fyrir því, að þjóðinni verði þessi Sambandslög holl og gagnleg til frambúðar. Vjer höfum oft sjeð þess dæmi, að þingið hefir haft stórmál með höndum, þar sem allur þingheimur, eða því sem næst, hefir verið einu máli um ágæti málsins, en eftir tvö eða þrjú ár hafa allir verið sammála um, að minni hlutinn hafi haft rjett fyrir sjer og málið hefði ekki átt fram að ganga.

Hæstv. forsætisráðherra var að vitna í það, að útlendingar væri ánægðir með frumvarpið Íslandi til handa. Svo var það líka 1908; þá var líka flaggað með nöfnum margra merkra útlendra manna, sem vegsömuðu uppkastið. En þá sá þjóðin betur og fór sínu fram; Íslendingar ættu að byggja meira á dómgreind sinni heldur en því, hvað útlendir menn segja, þótt taka megi umsagnir þeirra til athugunar. Hann sagði enn fremur, að ýmsir menn á Norðurlöndum, sem væri velviljaðir Íslandi, væru ánægðir með frv. En af hverju er það sprottið? Það getur verið sprottið af þeirri grýlu, sem vakin hefir verið, að Englendingar ætluðu að taka Ísland, og má þá vænta þess, að margir á Norðurlöndum verði fegnir, að ekki verði úr þeim illspám. En þótt frv. sje vel tekið af ráðandi flokkum í Danmörku, þá getur það engan undrað, sem les frv. ofan í kjölinn.

Það er ágætt að fá skýr orð, svo að alt sje ekki í myrkri og rokkri, eins og 1908, og að þessu leyti er nýja uppkastið betra. En jafnframt því sem skýr orð eru um fullveldi landsins, þá er vendilega skafið burt alt það, sem að sjálfsögðu átti að vera samfara fullveldinu, svo að Ísland verður að eina að nafninu til fullvalda ríki, en í framkvæmdinni í klóm erlendrar þjóðar, líkt og »fullvalda« ríkin Persía eða Marokkó. Þetta hljóta allir að sjá, sem lesa málið í kjölinn.

Jeg hlýt á krefjast þess fastlega af þingi og stjórn, að þjóðinni verði veittur nægur tími til þess að kynna sjer alla málavöxtu, áður en hún kveður upp dóm sinn. Hún verður að fá þingtíðindin með umræðum og þingskjölum og glögga skýrslu um alt starf nefndarinnar. Þjóðin er alveg óviðbúin að leggja nokkurn dóm á þetta mál, því að Íslendingar hafa haft alt annað að gera síðastliðinn mánuð en að íhuga sambandsmálið, og gögn hafa þeir engin haft í höndum. Það má segja, að hafi verið hallæri, og þjóðin önnum kafin við bjargráð, bæði til lands og sjávar. Frv. þetta á lengi að standa, og reynslan sker úr því, hvernig það reynist, en ekki verður samviska stjórnhafanna verri fyrir það, þótt þeir gefi þjóðinni nægilegt tóm til að athuga málið. Hitt, að greiða atkvæði um frv. löngu áður en þingtíðindin koma út og menn hafa getað kynt sjer málið rækilega, er hin mesta óhæfa og beint brot á anda stjórnarskrárinnar. Þjóðin hefir alls ekki óskað þess, að sambandsmálið væri tekið upp en hún hefir krafist þess að fá siglingafána. En því hefir hæstv. forsæisráðherra ekki fengið framgengt, jafnvel þótt þar sje um beint íslenskt sjermál að gera. En um hitt hafa Íslendingar ekki beðið, að samið væri í ótíma og flaustri við Dani um samband landanna, þótt þeir hafi auðvitað ekki á móti því að taka við viðurkenning á rjetti sínum, ef hún er skýr og undirbragðalaus. Vjer höfum lengi átt í deilum við Dani um rjettindi vor og sótt nokkuð á. En nú eru orðin straumbrigði í heiminum, svo að vjer stöndum langtum betur að vígi en nokkru sinni áður síðan land þetta komst í samband við Danmörku. Nú er það orðin alheimsstefna, að hver þjóð fái að ráða sjer sjálf, og þeim mun fremur á Ísland rjett á því að verða viðurkent, þar sem það er gamalt menningarland með sjerstöku þjóðerni. Og þótt þjóðirnar berist á banaspjót, þá eru þær þó sammála um þetta. Hver þjóðin af annari fær nú frelsi sitt á ný. Þarf ekki annað en að benda á framkomu Þjóðverja gagnvart Finnum og margendurtekna yfirlýsingu Bandamanna um rjett smáþjóðanna móts við hinar meiri þjóðir. Það væri því beint brot á stefnu tímans, ef Íslendingar fengju ekki fullkomið vald yfir sinu landi nú, afarkostalaust. Þeir fá það, ef þeir hafa sjálfir dug og drengskap til að krefjast þess.