07.09.1918
Efri deild: 3. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í B-deild Alþingistíðinda. (45)

1. mál, dansk-íslensk sambandslög

Frsm. meiri hl. (Jóhannes Jóhannesson):

Áliti háttv. minni hl. nefndarinnar hefir ekki verið útbýtt fyr en nú á fundinum undir ræðu hv. þm. Ísaf. (M. T.), svo að jeg hefi ekki enn haft tíma til að lesa það, því að jeg mat meira að hlusta á ræðu hans. Jeg mun því ekki athuga neitt álitið fyr en við aðra umræðu, og svo er og um ýmislegt af athugasemdum þeim, er háttv. þm. (M. T.) gerði.

Háttv. þm. Ísaf. (M. T.) sagði, að hann hefði ásamt öðrum flutt frv. á Alþingi 1917 um fána. Þetta er rjett, en hann gekk inn á, að frv. gengi ekki lengra til nefndar, og hann greiddi atkvæði með þingsál. þeirri, er borin var fram í málinu. Hann hefir því að öllu leyti sætt sig við þá meðferð, sem málið fjekk.

Háttv. frsm. minni hlutans (M. T.) sagði, að Danir hefðu átt upptökin að málinu, svo að við hefðum staðið vel að vígi, en jeg held því fram, að svo sje ekki, því að málið byrjar með upptöku fánamálsins, og það var hans hátign konungurinn, sem óskaði þess, að sambandsmálið í heild sinni yrði nú tekið til meðferðar. En þótt það væru Danir, sem ættu upptökin, þá væri það þeim að eins til lofs og sóma, en þeir óska ekki eftir nýjum samningum; þeir eru ekki í þeirra þágu. Ef ekkert verður úr samningum, þá er afleiðingin status quo, með öðrum orðum, að við búum eftir sem áður við stöðulögin. Þetta liggur svo í augum uppi, að ástæðulaust virðist að fjölyrða um það. Jeg get því ekki sjeð, að neinn hagur sje fyrir Dani að samningum; allur hagurinn er okkar megin, og jeg held því fram, að með frv. öðlist Danir hjer engan meiri rjett en þeir nú hafa eða hafa haft.

Það er rjett, að nefnd sú, er samdi við Dani fyrir hönd Alþingis, fór ekki með samningavald fyrir Alþingis hönd, enda bar nefndin sig altaf saman við fullveldisnefndirnar og stjórnina. Háttv. þm. (M. T.) vildi bera brigður á, að svo hefði verið, en það hlýtur að stafa af minnisleysi hans, og jeg staðhæfi, að það er rjett, að nefndin bar öll atriði, er máli skiftu, undir fullveldisnefndir og stjórn. En um það, hvort málið hefir verið borið undir aðra þingflokka en minn, er jeg var fulltrúi fyrir, get jeg ekki borið, en ætla samt, að svo hafi verið, og það er beinlínis rangt hjá háttv. þm. Ísaf. (M. T.), er hann vildi halda því fram, að skjal nr. 7 hefði ekki verið borið undir fullveldisnefndina, en hvort hann var á fundi man jeg ekki. Um að jeg fer hjer með rjett mál leyfi jeg mjer að skírskota til háttv. meðnefndarmanna minna. Hann hjelt því fram, að milligöngunefndin íslenska hefði þar gert Dönum tilboð um jafnrjetti, sem dönsku nefndarmönnunum hefði ekki dottið í hug að fara fram á, en þetta er með öllu rangt, og jeg sje ekki betur en að það sje borið fram á móti betri vitund, því að háttv. þm. (M. T.) átti sæti í fullveldisnefnd og hefir kynt sjer öll skjöl málsins, en jeg hefi hjer í höndum skjal, dagsett 1. júlí; er það um grundvallarskilyrði af Dana hálfu fyrir samningum og lagt fram í nefndinni sem skjal nr. 2, þegar á 2. fundi hennar.

Í þessu skjali segir svo:

»Danske paa Island og Islændere í Danmark skal i alle Henseender nyde lige Ret med de i det paagældende Land födte Statsborgere. Adgang til Fiskeri paa de to Landes Söterritorier er fri for alle Statsborgere uden Hensyn til Bopæl«.

Eða á Íslensku :

»Danir á Íslandi og Íslendingar í Danmörku skulu að öllu leyti njóta jafnrjettis við innfædda ríkisborgara í því landi. Heimild til fiskiveiða innan landhelgi hinna tveggja landa er frjáls öllum ríkisborgurum án tillits til búsetu«.

Með þessu er það sýnt og sannað, að það er ósannindi að bera það fram, að milligöngumennirnir íslensku hafi boðið það fram ótilneyddir, sem Dönum hafi ekki dottið í hug að fara fram á, og þetta skjal, sem jeg nú hefi nefnt og tilfært orð úr, þekti háttv. frsm. minni hl. (M. T.) og fullveldisnefndirnar fullvel. Má hann nú sjálfum sjer um kenna, að hann situr nú hjer sem sá maður, sem sannað er um að fer með ósannindi í þingsalnum.

Að því er snertir hina almennu hlið málsins leyfi jeg mjer að skírskota til þess, sem hæstv. forsætisráðherra sagði um hana.

Jeg tek það fram, til að andmæla því, að hrapað hafi verið að máli þessu, að frá því 1. júlí sumar og til 18. júlí var alt þingið í stöðugri samvinnu við samninganefndirnar og fylgdi störfum þeirra og íhugaði málið með milligöngumönnum sínum. Það mun því nær sanni, að fá mál, eða jafnvel ekkert, hafi gengið í gegnum þingið betur athugað, ekki einungis af nefndum eða þingflokkum, heldur og af þinginu í heild sinni. Þetta er rjett og satt; enda átti það svo að vera, að mál þetta væri vandlega athugað, svo þýðingarmikið sem það er. En það er þá ekki rjett að bera fram þau brigsyrði, að þingmönnum sje eigi gefinn tími til að kynna sjer málið.

Þegar áður en þingslit fóru fram í sumar höfðu þingmenn athugað málið svo vel, atriði fyrir atriði, að þeir treystu sjer til, allir nema tveir, að greiða atkvæði með því. Skömmu eftir þinglok var frumvarpið birt almenningi; og jeg geri ráð fyrir, að þingmenn hafi átt fundi með kjósendum sínum og skýrt þar fyrir þeim málið. Og jeg er viss um, að geti kjósendur háttv. þm. Ísaf. (M. T.) eigi orðið honum samferða í máli þessu, þá er það af einhverju öðru en því, að hann hafi ekki haft tíma til að skýra það fyrir þeim. Það er ekki eyðandi orðum að því, að engin ástæða sje til að flýta málinu, engin ástæða til að láta sig langa til að fá sem fyrst hina langþráðu og sárþjáðu viðurkenningu á fullveldi voru. Auk þess hefir það svo afarmikla þýðingu fyrir öryggi vort, að vjer getum sem fyrst fengið tilkynt öllum þjóðum fullkomið hlutleysi vort, hvernig sem fer um önnur lönd.

Mjer skildist á háttv. þm. (M. T.), að hann teldi geta orðið hættulega fyrir oss hlunnindaveislu vora til Dana, með því að aðrar þjóðir mundu heimta hið sama. En þess er að gæta, að hjer er ekki verið að veita Dönum hlunnindi fram yfir þau, er þeir hafa nú hjer í landi, og fjarstæða að halda því fram, að aðrar þjóðir mundu með ofbeldi vilja knýja það fram, að vjer veittum þeim rjettindi fram yfir það, sem oss væri ljúft að veita. Það er að gera þeim ástæðulausar getsakir. Jeg tel ekki nema eðlilegt og rjett að álykta sem svo, að fyrst svo giftusamlega hefir tekist til, að nálega alt þingið hefir orðið sammála um samninga þessa, þá muni þeir vera góðir og hagkvæmir í vorn garð; og þessi skoðun styrkist við það, að mikilsvirtir erlendir fræðimenn, sem oss eru að öllu góðu kunnir, og síst munu vilja, að vjer berum skarðan hlut frá borði, hafa lýst yfir því, að þeir telji samning þennan tryggilegan fyrir oss og oss hagfeldan.

Háttv. þm. (M. T.) sagði, að ef þetta frv. ætti að verða samþykt, þá þyrfti það að vera betra í öllum greinum en frumvarpið 1908. Jeg segi líka, að það sje betra en það í öllum þeim greinum, þar sem á betra varð kosið. Og að því er snertir jafnrjetti ríkisborgaranna þarf ekki annað en að benda á, að ákvæðið um það var eftir frv. 1908 óuppsegjanlegt, en eftir frv. 1918 uppsegjanlegt eftir 25 ár.