02.09.1918
Neðri deild: 2. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í B-deild Alþingistíðinda. (5)

1. mál, dansk-íslensk sambandslög

Forssætisráðherra (J. M.):

Jeg býst við, að bæði jeg og aðrir hafi gert ráð fyrir því, að meira yrði úr sorta þeim, sem var á fjöllunum, en raun er á orðin. Ræða háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) var ekki veigamikil, því að þar kom ekki annað fram en það, sem blöðin hafa ymprað á, nema hvað þm. vildi ekki láta flýta þinginu neitt. Jeg skil þó ekki annað en að hann hafi haft nægan tíma til þess að hugsa málið síðan í vor, og honum ættu að nægja 34 dagar til þess að tala við sjálfan sig. Að kvarta yfir því, að þingið eða þjóðin hafi ekki kynt sjer málið, er ástæðulaust. Alþjóð Íslands hefir verið að kynna sjer þetta mál í 100 ár, og alþýðu er óvenju ljóst, hvaða kröfur hún vill gera, svo að það er öldungis óþarft að tala um hana eins og fáráðling. Málið er ljóst og frv. er skýrt.

Jeg ætla ekki að deila við háttv. þm. (B. Sv.) um frv. 1908, hvort það hafi verið gott eða ekki, en mig furðar það satt að segja, að hann skyldi vilja láta líta svo út, sem þetta frv. væri verra; að minsta kosti eru teknir í burtu í þessu frv. svo að segja allir þeir agnúar, sem fundnir voru að frv. 1908. Eins og hv. þm. veit, var 1908 gefinn út bæklingur um það hvers vegna ekki ætti að samþykkja frv., og flestalt, sem þar er tínt til, er fallið burt.

Að hjer sje að ræða um fullveldi í orði, en ekki á borð, er langt frá því að vera rjett, og háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) er svo kunnur þeim málum, að hann veit, að hann fer ekki með rjett mál. Það er ekkert ákvæði í frv. sem skerðir fullveldi þess, og þar sem hann sagði, að 6. gr. skerti fullveldið, þá er það rangt, og þm. (B. Sv.) getur ekki sagt það með góðri samvisku. Og það, sem hann í þessu sambandi sagði um frv. 1908, var ekki rjett. Það virtust helst vera einhverjar óljósar endurminningar um frv. sjáfstæðismanna 1909, 4. lið í 3. gr.

Jeg býst við, að væntanleg nefnd í málinu skýri í áliti sínu, hversu rangt það er, að ekki megi binda atvinnu við búsetu. Það er ekki skertur rjettur neins manns, þótt svo sje gert, en það verða að vera sömu skilyrði fyrir Dani og Íslendinga, og mjer er ekkert ljúfara, að Íslendingar, sem búa erlendis, reki hjer atvinnu, heldur en þegnar hverrar annarar þjóðar sem er. Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) er svo æfður stjórnmálamaður, að hann veit þetta, en hann hefir líklega mint, að hann væri að skrifa í blöðin, svo að hann gæti látið það fjúka, í von um, að það gæti gengið í einhvern. Jeg tel engan skaða í 6. gr. Og það getur hver sjeð, að eigi samkomulag að verða þegar samið er, þá, verður að gera eitthvað semjendum til geðs.

Það er sjálfsagt rjett, að Ísland eigi að vera fyrir Íslendinga, en það getur enginn meint það með því, að það eigi að banna öðrum að setjast hjer að í landinu, heldur aðallega það, að atvinnurekstur sje bundinn við búsetu í landinu. Og það getur hann verið samkv. 6. gr. frv.

Háttv. þm. (B. Sv.) var að tala um, að Danir vildu sýna bróðurþel að eins á pappírnum, en ekki í raun og veru, en hingað til hefir það verið mótsett. Það hefir verið mjög erfitt að fá þá til að viðurkenna nokkuð á pappírnum. Þeir hafa ekki blandað sjer mikið í mál okkar, allra síst í orði, en viðurkenninguna hefir vantað. Nú fæst viðurkenningin, og það er engin skerðing, þótt vjer veitum Dönum, eða t. d. Norðmönnum, jafnrjetti hjer.

Mig furðaði á því, sem háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) sagði um 16. gr. Jeg get ekki sjeð, að sú nefnd, sem þar er gert ráð fyrir, sje fremur skerðing á valdi okkar en valdi Dana, og því síður, að nefndin geti tafið framgang mála á Alþingi. Jeg hygg, að nefndin komi stjórninni einni við, en ekki þinginu. Það er líka auðsjeð, að nefndin er að eins ráðgefandi og hefir ekkert vald, og trúað gæti jeg því, að svo gæti farið, að nefndin þreyttist á því að gera athugasemdir, þegar hún sæi, að ekkert tillit væri tekið til þeirra.

En óhugsandi er, að nefndin geti orðið skaðleg frelsi okkar. Og jeg sje enga hættu stafa af því, þó að löggjöf okkar sje lík og annarsataðar á Norðurlöndum. Það mun vera krafa nú, að lögin sjeu sem svipuðust í öllum siðmenningarlöndum, náttúrlega með þeim afbrigðum, sem sjerstakir staðhættir heimta, og hefir mikið verið unnið að því, að svo yrði, síðustu árin.

Jeg býst við, að ef nefndin gerir tillögur, þá ætti það að vera löggjöf Íslands fremur til bóta, og ætti háttv. þm. (B. Sv.) sem gömlum stjórnmálamanni að vera þetta kunnugt.

Jeg ætla ekki að fara að þræta við háttv. þm. (B. Sv.) um fjárspursmálið; jeg tel það ekki mikilsvert atriði í málinu; þótt það hefði alveg fallið burt, var það fjártjón, en ekkert aðalatriði, og jeg hjelt, að menn legðu ekki jafnmikla áherslu á þetta eins og þeir gerðu áður fyr. En aftur á móti legg jeg áherslu á, að forrjettindi íslenskra stúdenta við háskólann í Kaupmannahöfn hverfi, því að jeg tel þau ekki heppileg fyrir háskóla Íslands, og þau hafa dregið frá honum. Jeg held, að þessu atriði í frv. sje svo fyrir komið, að enginn sje óánægður með það, ekki einu sinni þeir, sem eru óánægðir með frv.

Athugasemdirnar eru því veigalitlar, og það svo, að enginn ætti að vera efablandinn um, að taka beri frv., en ekki hafna því.

Skorður þær, sem settar eru fyrir sambandaslitum, finst mjer ekki vera meira en hæfilegar. Það er ekki mikill áhugi á að slíta sambandinu, ef ekki er hægt að fá ¾ til að greiða atkvæði; það er þá að eins stundarþytur, en ekki alvarleg krafa. Það er ekki bundið, á hvern hátt atkvæðagreiðsla á að fara fram, og það má gera hana svo hæga, að allir geti greitt atkvæði meira að segja fara inn á hvert heimili, svo að sjúkir menn geti greitt atkvæði. Dæmin, sem blöðin hafa flutt, geta verið rjett hugsuð, en hafa þann galla, að koma ekki fyrir í framkvæmdinni.

Slíkt og annað eins er ekkert annað en hreinar og beinar grýlur.

Háttv. þm. (B. Sv.) var að tala um það, að ef þjóðfáninn væri fenginn, mætti ekki gleyma að gæta þess, að gera ekki fána annarar þjóðar jafnrjettháan. Ef hann hefði athugað tillögu þá, sem jeg gerði í ríkisráðinu, hefði hann sjeð að jeg hafði sjeð fyrir þessu. Og það er ólíklegt, að það verði eigi tekið til greina nú sem þá. (B. Sv.: Var ekki tekið til greina þá). Nei, en þessa atriða var gætt, þar sem gert var ráð fyrir að fella burt lagaákvæði þar um.

Eins er það auðvitað, að ef Íslendingar taka að sjer að reka fiskveiðagæsluna sjálfir, þá gera þeir það auðvitað undir sínum eigin þjóðfána.

Jeg er því samdóma, að rjett sje að fara meir að bestu manna ráði hjerlendra en erlendra manna, og það sagði jeg líka. En hitt er og rjett, að jeg sagði, að gott væri að fá með sjer góða menn, er bæði hafa vit á málunum, hafa fylgst með í þeim og vilja vel. Það er gott, ef þeir dæma um og segja, að þetta sje heppilegt og nægilegt sem stendur.

Það er auðvitað, að jeg stend og hefi staðið dálítið á öðrum meið en háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) frá byrjun. En jeg skil ekki, að nokkur maður ráðist í að hafna samningum þeim, er oss bjóðast nú, nema því að eins, að hann sje búinn til að bera fram kröfuna um fullkominn skilnað við Danmörku. Ef menn vilja hafna þessu, og verða þar með valdandi beinnar afturfarar í kröfum vorum, án þess, þá skil jeg það ekki. En hitt skildi jeg, ef þessir háttv. þm., sem vilja neita, hefðu hug til þess að segja hreint og beint: »Skilnað við Dani! Við viljum ekki vera að þessu lengur! Ef háttv. þm. vilja ekki semja, þá hlýtur það hugsanarjett að þýða það, að þeir vilji ekkert annað en beinan skilnað. En þá er rjettara að segja það.