07.09.1918
Efri deild: 4. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í B-deild Alþingistíðinda. (56)

1. mál, dansk-íslensk sambandslög

Frsm. minni hl. (Magnús Torfason):

Eins og háttv. deildarmenn sjá, hefi jeg að eins farið með löndum og komið með þær brtt., sem sjálfsagt er að samþykkja. Á brtt. legg jeg misjafna áherslu. Aðaláhersluna legg jeg á brtt. við 6. gr., þar næst á brtt. við 18. gr., því að hún er afleit. En ef brtt. við 6. gr. verður samþykt, gerir minna til, þótt 18. gr. standi eins og hún er. Það drægi úr henni.

Þá skal jeg snúa mjer að 6. grein, Jeg skal að sjálfsögðu játa, að þessi grein er uppsegjanleg. Eftir 25 ár gætum við fengið fullveldi yfir fæðingarjettinum. En hvernig er ástandið þangað til? Samkvæmt minni skoðun — en hún er ekki fyrst til orðin í nál. minni hl., heldur varð hún til strax og framboðið kom fram í fullveldisnefndinni — verður Ísland samkvæmt frv. þegar fullvalda yfir fæðingjarjettinum gagnvart öllum öðrum ríkjum en Danmörku, og getum vjer meinað þeim að njóta gæða landsins. Er ekki nema eðlilegt, að Danir unni oss þess, því að þeirra er þægðin, að við berum okkur svo gegn öðrum ríkjum en Danmörku. En engin hætta er á vanbrúkun. Sakir fámennis okkar og fátæktar, landflákanna óræktuðu, afllinda og náttúrufegurðar, er okkur nauðsyn að verja okkur sem allra best fyrir útlendum áhrifum og yfirráðum. Höfum vjer miklu meiri ástæðu til þess en nokkur önnur þjóð. Aftur höfum vjer engan sjerstakan fæðingjarjett gagnvart Dönum. Hann er gagnkvæmur og sameiginlegur í framkvæmd.

Þá kem jeg að sönnunum fyrir þessu, og vil jeg þá fyrst benda á fylgiskjal nr. 6 í sambandsnefndargerðunum. Þar er sú grein, er samsvarar 6. gr., orðuð svo:

»Danske paa Island og Islændere í Danmark skal i alle Henseender nyde lige Ret med de i det paagældende Land födte Statsborgere«.

Þetta er sem næst eins og samskonar ákvæði í frv. 1908, og segir svo mikið, sem Danir geti engan rjett haft hjer á landi nema þeir sjeu hjer búsettir. En í fylgiskjali nr. 7 — skjalinu fræga — stendur svo:

»Danske Statsborgere skulde paa Island i enhver Henseende nyde lige Ret med Islandske Statsborgere og omvendt«.

Hjer er orðaröðin breytt, eins og menn sjá. Í tilboði Dana stendur: »Danske paa Íslandg ?: Danir búsettir á Íslandi.

Í fylgiskjali 7 er búið að setja þetta »paa Island« aftur fyrir. Þar með er búsetuskilyrða þurkað út. Skal jeg nú færa rök fyrir, að þessi skilningur sje rjettur.

Fyrst skal jeg geta þess, að í almennu athugasemdunum við frv. er það tekið fram, að hvort ríkið fyrir sig setji ákvæði um greiðslu af ríkisfje til konungs, að Ísland hafi sinn eigin kaupfána og enn fremur að umtal um sameiginleg hermál sje fallið burt. Alls þessa er sjerstaklega látið getið. En fæðingjarjetturinn er ekki nefndur í þessu sambandi. Þetta verður ekki skilið öðruvísi en að hvort ríkið út af fyrir sig ráði ekki yfir fæðingarjettinum. Enn fremur staðfesta ummæli Dana sjálfra um 6. gr. þetta sama. Þar er einmitt sagt, að öll ríkisborgararjettindin sjeu gagnkvæm. Mjer skilst, að ef þetta hefði átt að vera með þeirri takmörkun, að borgararnir yrðu að vera búsettir í hinu landinu, þá hefði orðið að taka það fram.

Það sjest enn fremur, að þessi skilningur er rjettur á því, sem síðar er tekið fram í sömu klausu, því að afnema verði allar takmarkanir, sem nú eigi sjer stað á fullu, gagnkvæmu jafnrjetti. En af því að afnema verður — samkvæmt dönsku boði — úr stjórnarskránni 5 ára búsetuskilyrði fyrir kosningarrjetti, að því er Dani snertir, sjest svo ljóst, að ekki verður um deilt, að minn skilningur er rjettur. Ef við vildum ráða kosningarrjettinum, áttum við að segja við Dani: »Blessaðir setjið þið í ykkar grundvallarlög 5 ára búsetuskilyrði fyrir Íslendinga til þess að ná kosningarrjetti hjá ykkur«. En þeir munu ekki kæra sig mikið um það. Þeim má standa á sama um, hvort þessar fáu íslensku hræður, sem þar búa, hafa kosningarrjett eða ekki. En vísast er, að Dönum fjölgi hjer, og okkur má ekki standa á sama um það, hvort þeir verði að bíða 5 ár eða eitt eftir kosningarrjettinum. Af þessu er og bert, að öll okkar búsetuskilyrði verður að skafa burt samkvæmt sambandslagafrv. nýja.

Í nál. meiri hlutans er talað um, að við getum sett búsetuskilyrði fyrir rjetti til að eiga fasteignir hjer á landi. En það, sem vantar, er bara þetta, að Danir hafa enga ástæðu til að setja slík skilyrði gagnvart okkur.

Nú stendur í aths. við 6. gr., að jafnrjettið eigi að vera án nokkurs fyrirvara eða afdráttar. Skilst mjer því, að búsetuskilyrði hljóti að vera samkomulagsatriði milli ríkjanna, eitt af því, sem ráðgjafarnefndin (sbr. 16. gr.) á að fjalla um. Vitaskuld er nokkur vörn í því, að Danir hafa nú í lögum búsetuskilyrði fyrir rjetti til atvinnurekstrar í Danmörku. En þessi ákvæði geta Danir vel verið búnir að nema úr gildi, að því er snertir Ísland, fyrir næsta þing. Og hvar stöndum vjer þá?

Af þessu er skiljanlegt, að Danir leggja sýnilega áherslu á að hafa oss alveg bundna, áður en þeir hreyfa sig. Annað mál er, að jeg vil ekki fullyrða neitt um það, hvort þeir hagnýta sjer þetta út í ystu æsar, en hugsast getur það. Annars verður selstöðurjetturinn í báðum löndum samkomulagsatriði. Enn skal jeg geta þess, að meðferð þessa atriðis í fullveldisnefndinni gefur fulla ástæðu til að skilja þetta eins og jeg hefi haldið fram. Undir eins og jeg vissi um þetta ákvæði, þá mótmælti jeg því fastlega, og mig rangminnir ekki, að einn milligöngumannanna, sem ekki var háttv. fram. (Jóh. Jóh.), vildi halda fram eins og nú, að með þessari breytingu á 6. gr., samkvæmt fylgiskjali nr. 7 hjá samninganefndinni, væri ekki gerð nein efnisbreyting. Jeg sagði þá þegar, að þetta væri efnisbreyting, og að með því væri þurkaður út búseturjettur, og ef það væri engin efnisbreyting, því mætti það þá ekki standa eins og áður. En það sagði hann að mætti ekki vegna þess, að Danir vildu það ekki.

Þetta skjal var þá, eins og jeg tók fram við 1. umr, í próförk, og gaf það mjer strax grun um, að Dönum væri kunnugt um efni þess, því að jeg fæ ekki skilið, að milligöngunefndin hefði látið gera próförk af einhverju, sem hún hefði ekki talað við Dani um; vitanlega hefir eitthvert munnlegt umtal áður átt sjer stað um þetta. Jeg get bætt því við, að það sem jeg veit frekast um skjallegt upphaf þessara breytinga, er það, að handritið var með hendi háttv. 2. þm. Árn. (E. A.); lengra get jeg ekki rakið það. En þetta er sönnun þess, að jeg fer með rjett mál, sjerstaklega þegar það er borið saman við yfirlýsingu þá, er jeg las upp í dag. Enn fremur hefir háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) lýst yfir, að hann vissi ekkert um það fyr en seint og síðar meir. Hins vegar get jeg ekkert sagt um það, hvort þetta hefir verið borið undir aðra menn í fullveldisnefndinni einslega.

Mönnum var kunnugt um, að jeg er nokkuð harður í horn að taka í þessu máli, og því get jeg skilið það, að þetta hafi verið sagt öðrum en mjer, og jeg vitað síðastur um það.

Jeg skal, út af því, sem háttv. frsm. meiri hl. (Jóh. Jóh.) sagði um orð mín um þetta atriði í dag, sjerstaklega er hann nefndi Bjarna Jónsson frá Vogi, taka fram, að jeg nefndi ekki hans nafn. Þau orð, sem jeg sagði, þá, sagði jeg ekki honum til niðrunar, og jeg játa fúslega, að hann var ekki slakastur í þessari nefnd, og þykist vita að ef enginn hefði verið linari en hann, þá hefðum við staðið með mun betri samning nú. En jeg verð að líta svo á að hann meti meiri ábyrgð á, að þetta atriði komst inn en aðrir þingmenn, því að mjer er kunnugt um, að hann er afar glöggskygn á, hvers virði fæðingjarjetturinn er, og hann taldi fæðingjarjettinn mestu skifta og var óánægður með þetta atriði, eins og það var orðað 1908 burtsjeð frá því, að það var þá án uppsagnar. Þetta er mjög eðlilegt, því að þessi þingmaður (B. J.) leggur afarríka áherslu á, að Ísland hafi öll einkenni fullvalda ríkis. En eins og jeg hefi tekið fram, og ekki hefir verið mótmælt, þá finst ekkert dæmi þess, að fullvalda ríki hafi veitt öðru ríki slíkan rjett, t. d. Noregur og Svíþjóð, Austurríki og Ungveraland, og liggja löndin þó þar saman og þjóðirnar að nokkru leyti blandaðar. Það var því eðlilegt að hann liti svo á, að fullveldi án fæðingjarjettar væri hrein mótsögn. Það, sem jeg tók fram í dag, var því ekki til þess að niðra honum, en jeg áleit, að það væri rjett, að það kæmi fram, hvað honum var mikið um, og jeg er ekki í neinum vafa um, að hann meðfram linaðist af því, að hann var örvona um að fá nógu marga aðra þm. til þess að ganga lengra. Jeg lít svo á, að þetta hafi verið skakt hjá honum, því að fyrst og fremst er jeg ekki í neinum vafa um, að þessu atriði hefði verið mun betur hagað ef hann hefði sagt nei við því. Ef hann hefði verið á móti því og ráðherra vor gert þetta að fráfararatriði, þá er víst, að þetta hefði aldrei verið samþykt af þjóðinni.

Út af því, að sagt var í Nd., að hæstv. fjármálaráðh. hefði ekki komið nærri samningunum, skal lýst, að hann fór til eins nefndarmanna Dana til þess að fá þessu atriði kipt í lag. Jeg segi þetta út af því, að jeg skil ekki, að hann hafi þá verið búinn að samþykkja þetta og verið að leika skollaleik við mig um að fara til dönsku nefndarinnar til þess að fá þetta leiðrjett, og kemur þá að því, sem jeg hefi haldið fram að væri of mælt hjá meiri hlutanum, um að hann hafi unnið í fullu samræmi við fullveldisnefndir og landsstjórnina; það er sýnt, ef í þessum ummælum á að felast vilji allrar stjórnarinnar.

Í sambandi við þetta skal jeg taka það fram, að það, sem meðal annars gerir það að verkum, að jeg hefi hreyft þessu, er að milligöngumenn vorir tóku fje á sjer fyrir þetta verk sitt. En mig grunaði þegar, að þeir hefðu ekki staðið svo vel í ístaðinu, að þeir eigi heiðurslaun fyrir það.

Viðvíkjandi því, að engin hætta stafi af þessu, þá þýðir ekki að munnhöggvast um það, en jeg held því fram, að hættan aukist árlega; það gera auðsuppsprettur vorar, t. d. fossarnir, og svo batnandi flutningatæki. Jeg gæti hugsað, að við hefðum flugvjelar eftir örfá ár. Og landið getur orðið Gósenland fyrir ferðamenn, því að þegar járnbrautir eru komnar norður og austur, þá má segja, að menn gæti kosið sjer veður hjer á, landi. Og þegar flugvjelarnar eru orðnar almennar, þá geta Danir skroppið hingað á örstuttum tíma, en annars stýrt þeim frá Danmörku.

Það er enginn vafi á því, að þeir munu beina hingað miklu meira fje sínu en nú rofar fyrir. Við verðum að gæta að því, að hvert ár verður viðburðaríkara en áður, og það er víst, að næstu 25 ár verða miklu lengri en síðustu 25 ár. Það eru mestu líkindi fyrir, að næstu 25 ár skóli oss meir áfram en öll þau 1044 ár, sem liðin eru frá því að Ísland bygðist.

Að því er skipin snertir, er ósköp hægt að segja, að Danir hafi þar ekki meiri tekjur af en aðrir. En það er að eins staðhæfing, sem frsm. meiri hl. (Jóh. Jóh.) verður að sanna. En við vitum, að nú eru þetta stórveislur fyrir Dani og að þeir vilja friðlaust ná í auðsuppsprettur vorar.

Þegar verið er að tala um, að Danir sjeu latir, þá er það að mörgu leyti ekki rjett. Mjer er kunnugt um, að það eru margir Danir, einkum skipstjórar, á botnvörpungaflota Englendinga. Sá skipstjóri Englendinga, sem þótti einna snjallastur, var danskur. Hann var kallaður »Lykkeper« og einna ríkastur skipstjóri í Hull.

En hugsum oss, að Norðmenn vildu gera þann samning við oss, að skipagjöldin væru jöfn. Ætli nokkur vildi semja við þá um þetta? Jeg held ekki. Af því má ráða, hve íssjárvert þetta ákvæði er.

Það er ekki rjett sagt, að við höfum ekki ráðið neitt um skilyrði um bútsetu hjer á landi, eða að við höfum verið ofurseldir Dönum um það. Við höfum ráðið skipagjöldunum, sett takmarkanir með fossalögunum og siglingalögunum, sem sýna, að við höfum getað takmarkað jafnrjettið með búsetu að nokkru.

Þá skal jeg snúa mjer að 7. gr. Í þessu sama fylgiskjali hjá sambandslaganefndinni stóð, að við ættum að fá í utanríkisráðið »Kontorchef« eða »Fuldmægtig«. En fyrir atfylgi fullveldisnefndarinnar var þessu síðar breytt í »trúnaðarmanna«, eða með öðrum orðum að við fengum þetta fært upp, og rjettur okkar var ekki gerður hlægilegur með því að láta okkur fá einhverjar undirtyllur, sem ekki einu sinni væru konunglegir embættismenn. Þetta sýnir, að milligöngumennirnir fóru lengra en fullveldisnefndin vildi vera láta.

Í sambandi við þetta skal jeg geta þess, að í fylgiskjali 8 er tekið fram, viðvíkjandi rjetti okkar til þess að hafa hönd í bagga með sendisveitum utanlands, að við höfum rjett til verslunarráðunauta, »Handelsattachéer«, en síðan var þetta stytt í »Attachéer«, og er hjer annað dæmi þess, að fullveldisnefndin færir upp kröfurnar frá því, sem milligöngumennirnir höfðu gengið inn á.

Jeg skal játa, að það hefði má ske verið rjettara að láta þetta koma fram í nefndarálitinu, og jeg geri það, ef framhaldsnefndarálit kemur frá meiri hlutanum. En með þessu er sýnt, að það er rjett, sem jeg segi síðast í nefndaráliti mínu, að milligöngumennirnir hafa ekki haldið vel á umboði sínu.

Viðvíkjandi inngangi að ræðu háttv. frsm. meiri hl. (Jóh. Jóh.), þá, mun jeg svara honum við 3. umr., að svo miklu leyti, sem honum er ekki þegar svarað, og ræðu hæstv. fjármálaráðherra áskil jeg mjer að svara við 3. umr., enda var ræða hans öll þannig vaxin, að hún átti betur þá við.

Háttv. frsm. meiri hl. (Jóh. Jóh.) vildi ekki viðurkenna, að bestu menn Dana hefur viðurkent, að Ísland væri ríki. (Jóh. Jóh.: Þekki ekki mennina). Jeg veit ekki, hvernig hefir verið ástatt fyrir háttv. frsm. meiri hl. (Jóh. Jóh.) á Kolviðarhóli 1907. En það er fullyrt, að sá, sem jeg hefi kallað Íslands besta vin, hafi kallað Ísland þar ríki. Annars ætla jeg ekki að tína upp nein nöfn, en frv. sýnir, að bestu menn Dana hafa viðurkent þetta.

Við getum auðvitað sagt, að ekkert ríki, hversu stórt og voldugt sem það er, sje fullráða ferða sinna og þurfi ekki að taka tillit til annara, en sá er munurinn, að það gerir það að eins vegna sinna bagsmuna. En fullvalda ríki getur orðið undirlægja annara þjóða, án þess að fullveldið að formi til sje skert. Í því efni má benda á, hvernig farið hefir fyrir Persíu, sem þó er fullvalda ríki, að jeg ekki nefni Marokkó.

Háttv. frsm. meiri hl. (Jóh. Jóh.) sagði, að skilningur minn á 6. gr. væri kórvilla. Þetta eru stóryrði, sem enga þýðingu hafa og auðvitað sanna ekki neitt. En það ber alt að þeim brunni, að jeg muni hafa rjett fyrir mjer, og ekki að eins jeg, því að það eru margir fleiri lögfræðingar á sömu skoðun. Jeg hefi athugað þetta atriði gaumgæfilega, og hefði jeg sjeð nokkurn veg til þess að skilja það öðruvísi en jeg hefi gert, þá mundi jeg hafa gert það og þagað. En mundi nokkur Íslendingur hafa þagað eftir að hann væri kominn að þeirri niðurstöðu, að rjettur væri minn skilningur og ýmsra annara? Og munu Íslendingar þegja eftir að jeg og margir fleiri höfum bent þeim á rjetta skilninginn? Svo skotið mun oss varla enn vera.

Undantekningin um fiskiveiðarjettinn sannar ekki nema það, sem jeg sagði, en það mætti segja, að þetta hefði verið óþarft út af fyrir sig, ef ekki lægi fiskur undir steini.

Háttv. frsm. (Jóh. Jóh.) sagði, að þessi fiskiveiðarjettur væri ekki ríflegri en í uppkastinu frá 1908, en þetta er ekki rjett að öllu leyti. Hann (Jóh. Jóh.) gat þess, að þessi rjettur hefði verið lengri þá, eða 87 ár, en væri nú 25 ár. Þetta er að vísu rjett, enda sjest á nál., að altaf er verið að klifa um þessi 37 ár. En munurinn á þessu tvennu er þó sá, að fiskiveiðarjetturinn var takmarkaður við landhelgisgæsluna 1908, en það er bann ekki nú.

Andlega sambandið við Dani taldi háttv. frsm. (Jóh. Jóh.) í vora þágu. Hann um sína skoðun, en jeg hefi ekki þá skoðun, að of margt fólk sje hjer í landi, svo að þörf sje á auknum útflutningi til Danmerkur, og jeg tel það t. d. ekki í okkar þágu, að íslensk skáld skuli yrkja á, dönsku úti í Danmörku.

Jeg gat þess, að þetta jafnrjettisákvæði gæti orðið til þess, að aðrar þjóðir heimtuðu sömu rjettindi hjer heima og Danir. Og jeg held, að það hafi ekki verið ónýtt að geta vísað til þess, að þeir gætu ekki búist við að fá meiri rjettindi hjer heldur en Danir.

Jeg þori að vísu ekki með það að fara, en það er eins og mig rámi í, að Englendingar hafi farið fram á það, að minkuð yrðu skipagjöldin, en þeim hafi þá verið bent á, að þeir sættu líkum kjörum og Danir, og því hafi málið ekki komist lengra. En annars gleður það mig að heyra, að háttv. frsm. meiri hl. (Jóh. Jóh.) hefir þá von, að Íslendingar verði meiri kappar í atinu við stórþjóðirnar heldur en við Dani.

Þá gat háttv. frsm. meiri hl. (Jóh. Jóh.) þess, að hann gæti ekki sjeð annað en að danskir leppar og íslenskir leppar væru sama markinu brendir. En þetta er ekki rjett hjá honum, þar sem búsetuskilyrðin er ekki ákveðið. Hvað þá leppa snertir, sem búsettir eru hjer heima, þá getum við ráðið við þá, svona nokkurn veginn, ef við höfum dáð til, en það getum við ekki við leppana, sem búsettir eru í Danmörku. Við getum lagt allskonar gjöld, t. d. aukaútsvar, á leppana, sem búsettir eru hjer, þar til það borgar sig ekki fyrir þá að vera leppar, en þetta getum við ekki við hina, því að til þeirra náum við ekki.

Vitaskuld er þetta framkvæmdaratriði og fer eftir því, hverjir eiga í hlut. Í Færeyjum var t. d. leppur fyrir talsverðri botnvörpuútgerð fyrir stríðið, og hann slapp við mestöll gjöld. Var það drengilegt af Færeyingum að launa oss svo notkun fiskimanna. Hefði hann verið á Íslandi, gátum við lagt svo mikið á hann, að það hefði ekki borgað sig fyrir Breta að hafa hann.

Þá gat háttv. frsm. meiri hl. (Jóh. Jóh.) ekki viðurkent, að þessi 1 miljón, sem Hafnarháskóli á að fá umráð yfir, væri veitt honum í þágu Dana. Hann þurfti auðvitað langt mál til þess að greiða svo úr þessu, að ekki yrði að ræða um blábera staðhæfingu. Jeg held aftur á móti, að Dönum sje það alls ekki ógeðfelt að ala Íslendinga í landi sínu og venja þá við dönsku brjóstin. En hins vegar held jeg, að við Íslendingar hefðum betra af að leita til stórþjóðanna og verða fyrir áhrifum frá þeim. Þar mundum við fá fult eins fullkomna mentun og kynnast frjálsmannlegri hugsunarhætti, sjerstaklega gagnvart Íslendingum og Íslandi.

Jeg hefi gleymt viðvíkjandi 13. og 14. gr., þar sem verið er að ræða um þessar fjárreiður, að skýra betur, hvað meint er með því, að í nál. er sagt, að Garðstyrkurinn sje þegar meira virði en ein miljón kr. Peningar falla í verði, og styrkurinn verður verðmeiri með líðandi árum, og því langt yfir miljón kr. virði.

Viðvíkjandi 16. gr., sem jeg legg til að numin verði burtu, get jeg lýst yfir, að það geri jeg vegna hins danska anda, sem þar ríkir. Jeg hefi litið svo á, að við ljetum þar við sitja fyrst um sinn að skipa nefnd til framkvæmdar sambandslögunum, og sæjum hvernig sambandslögunum reiddi af og samvinnunni við Dani, og þá væri altaf nægur tími til þess að skipa nefnd síðar.

Þá kemur að 18. gr. Skal jeg viðvíkjandi meiri hl. álitinu geta þess um hana, að það má kann ske segja, að það sje rjett sagt, að vjer getum hagað þess um kosningum eins og vjer viljum. En jeg hefi altaf gengið út frá því, að þessar kosningar yrðu leynilegar, og tel jeg varla sæmilegt að breyta út frá þessu, þar sem það er stjórnarskráratriði. Það getur því ekki komið til mála, að þær verði opinberar, enda er ekki að vita, nema auðvald Dana hjer á landi verði orðið svo mikið er til sambandsálita dregur, að það verði okkur í hag að hafa þær leynilegar.

Kosningarnar verða að vera löglegar, og munu Danir hafa augun á okkur og þeim, og ekki getur það komið til mála, að við lögleiðum neina skyldu til þess að greiða atkvæði. Það leiðir af því, að kosningar eiga að vera frjálsar.

Eftir mínum skilningi hefir þetta að vísu ekki mikið að segja, þar sem auðir seðlar geta aldrei talist til greiddra atkvæða; það hefir aldrei verið gert og mjer er nær að halda, að Danir mundu aldrei ganga inn á það, heldur mundu þeir láta gerðardóminn skera úr því.

Viðvíkjandi þessari grein er það eitt atriði hjá hæstv. fjármálaráðherra, sem jeg vildi athuga. Hann vildi halda því fram, að við mundum verða betri menn þá heldur en nú. Jeg vildi óska þess, að svo yrði, en þetta getur þó aldrei verið annað en von, og höfum við ekki gefið það fordæmi hjer á þinginu að það geti gefið tilefni til þess, að ala með okkur slíka von.

Þá kemur brtt. við 20. gr., þar sem jeg legg til, að lögin öðlist ekki gildi fyr en 1. janúar 1920. Þetta geri jeg af því, að stjórnarskrárbreyting þarf að vera um garð gengin til þess, að samningsskilyrðunum verði fullnægt. Annars getur þetta tvent rekið sig óþægilega á.

Það mundi sannast, að ef kosningar til aukaþingsins yrðu á móti þessu frv., svo að það yrði felt, þá mætti skoða það sem samningsrof, eða að samningurinn væri ekki uppfyltur af vorri hendi, og yrði þá aðstaðan eins og enginn samningur hefði verið gerður, eða »status quo«. Þessu máli mínu til stuðnings get jeg vitnað í marga merka menn í Danmörku, sem 1908 hjeldu sömu skoðunum fram um grundvallarlögin.

Þá hefi jeg leyft mjer að leggja það til, að frv. verði samþykt á sama hátt og segir í 18. gr., að ¾ atkvæðisbærra manna þurfi að sækja fundinn og að ¾ greiddra atkvæða þurfi að samþykkja lögin. Þetta hefi jeg gert vegna þess, að mjer finst sjálfsagt, að ekki verði hægara að komast í gildruna heldur en úr henni. Þetta er alment um öll lög, og mjer finst þetta vera mun betra en hjá háttv. meiri hl.

Þá legg jeg til, að fyrirsögninni verði breytt þannig, að í íslenska textanum komi Ísland á undan Danmörku. Finst mjer þetta vera mun íslenskulegra heldur en hjá háttv. meiri hl., og í öðru lagi tek jeg þetta upp hjer af því, að meiri hlutinn, og þá sjerstaklega sá maður, sem tileinkar sjer þetta verk, hefir sagt, að á þessu frv. væru öll einkenni fullveldis. En einmitt þetta frv. byrjar með því að vanta öll ytri fullveldiseinkennin.

Þegar fullvalda ríki gerir samning við annað ríki, þá byrjar það með því að nefna sitt ríki fyrst. Á þetta var lögð mikil áhersla í fullveldisnefndinni, en vitanlega var runnið frá þessu.

Nú þykist jeg hafa tekið það fram, sem þörf var á, en sumt, sem jeg vildi gera athugasemdir við hjá háttv. frsm. (Jóh. Jóh.), ætla jeg að geyma mjer til 3. umr., og er þar á meðal inngangurinn.