07.09.1918
Efri deild: 4. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í B-deild Alþingistíðinda. (58)

1. mál, dansk-íslensk sambandslög

Frsm. minni hl. (Magnús Torfason):

Jeg bjóst aldrei við því að sannfæra háttv. frsm. meiri hlutans (Jóh. Jóh.). Við höfum sem sje svo skiftar skoðanir á sjálfum undirstöðuatriðum 6. gr. Okkur þýðir því ekki að tala langt mál hjer, af því að skoðanir okkar á þeim sjerstöku atriðum, er af þessum undirstöðuatriðum leiða, fara þar eftir.

Það hlýtur að vera misminni eða misskilningur háttv. frsm. meiri hlutans (Jóh. Jóh.), að jeg hafi sagt, að vjer Íslendingar hefðum engan sjerstakan ríkisborgararjett eftir frv. (Jóh. Jóh.: Jeg skildi þm (M. T.) svo!). Jeg tók það einmitt fram, að vjer hefðum hismið.

Í sambandi við 6. gr. vil jeg annars geta þess, að þetta orð, »gagnkvæmt«, er ekki fyllilega rjett þýðing á, danska orðinu »omvendt«. Væri ef til vill rjettast að þýða það »öfugt«, þótt það þyki ljótt orð, en ætti líka kann ske vel við 6. gr.; annars hafa sumir viljað þýða það »þversum«.

Jeg hefi ekki haldið því fram, að Danir geti komið hingað og greitt hjer atkvæði þegar án vissra takmarkana. Mjer hefir aldrei dottið í hug að neita kjördæmisbúsetu. Þeir þurfa hennar hjer, eins og í Danmörku, þetta eina ár.

Annars þótti mjer það skemtilegt, þegar háttv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.) var að leiðrjetta mig og notaði þá sjálfur orðin: »Danir á Íslandi«. Ef svo hefði verið orðuð greinin, værum við sammála um hana. Annars held jeg, að þessum skilningi mínum á 6. gr. sje best lýst með því að segja, að þetta jafnrjetti sje »uniformt«. Jeg man ekki íslenska orðið. Til þess, að jafnrjettið sje svo, þarf auðvitað samkomulag. Og að nema á 5 ára ákvæðið burt úr hjerlendum lögum bendir til þess, að þessi rjettur sje »uniform«. Get jeg því verið háttv. frsm. meiri hlutans (Jóh. Jóh.) þakklátur, því að orð hans sýndu mjer dæmið rjett og vöktu mjer hugsunina, hversu orða skyldi mína skoðun sem greinilegast.

Mjer dettur ekki í hug að halda, að Danir muni kæra sig um embættisrjett hjer á Íslandi, gegn því, að vjer höfum embættisrjett í Danmörku, án uppfyllingar sjerstakra skilyrða. Það er eitt af því, sem hlýtur að vera samningaatriði.

Eins og tekið hefir verið fram í hv. Nd., hefir þetta verið kallað verslun. Jeg hefi nú ekki viljað segja, að vjer höfum gefið búseturjettinn fyrir ekki neitt. Hann er auðvitað gefinn til þess, að allur okkar fæðingjarjettur skuli uppsegjanlegur eftir 25 ár. En Danir sögðu áður, að hann væri uppsegjanlegur. Og sjálfsagt er hann líka gefinn til þess, að geta því fremur haldið í fullveldið, sem vjer metum allir mikils.

Það þýðir ekki að karpa við hv. frsm. meiri hl. (Jóh. Jóh.) um þennan skilning á 6. gr. Það er ekki ný röksemdaleiðsla, þótt mín skoðun sje kölluð »fáránlegur misskilningur«, og jeg ætlaðist ekki heldur til þess, að milligöngumenn vorir í nefndinni skyldu elta alt það, sem þeir nefna »fáranlegar firrur«. En svo stóð á, að við báðir, jeg og háttv. þm. N.-Þ. (B Sv.) vildum samþykkja frv., ef sýnt væri svart á hvítu, að dönsku nefndarmennirnir samþyktu skilning milligöngumanna vorra á orðalagi 6. gr. Og jeg skal bæta því við, að á þeirri stundu, er nefndarmennirnir íslensku geta komið með órækar sönnur fyrir þeim skilningi, skal jeg glaður samþykkja frv.

Út af því dettur mjer í hug, að rjett væri að fresta 3. umr. um nokkurn tíma. Síminn mun nú brátt verða kominn í lag. Veit jeg, að hæstv. forsætisráðherra myndi fúslega eiga skeytaskifti við Dani um málið og fá svör þeirra um skilninginn á 6. gr. Og jeg geri ráð fyrir því, að Danir leggi talavert upp úr því, að málið sje samþykt í einu hljóði hjer á þingi.

Háttv. frsm. meiri hl. (Jóh. Jóh.) fór þannig orðum, að jeg hefði gefið í skyn, að vjer ættum helst að vera sem lengst í skjóli Dana og undir þeirra verndarvæng. Það var ekki meining mín. En jeg sagði, að á meðan vjer hefðum ekki fullveldið, og gætum því ekki samið við aðrar þjóðir, gætum við altaf skotið okkur undir þetta samband vort við Danmörku, í þeim atriðum er Danir hefðu ekki betri rjett á landi hjer en aðrar þjóðir, og gætu þær þá ekki vænst eftir að fá hann. En í þessu sambandi stöndum vjer svo að vígi, að vjer getum ekki neitað Dönum um neitt, eftir því sem jeg skil þetta ákvæði.

Garðstyrkinn hefi jeg reiknað svo, að hann hafi verið 1½ milj. kr. virði fyrir stríðið, og reikna jeg þá ekki með dýrtíðaruppbót. En hins vegar búast margir við, að peningar muni lengi eftir stríðið verða í hálfu lægra verði en áður stríðið hófst, og frá því sjónarmiði lít jeg svo a, að vjer höfum fengið altof lítið fyrir Garðstyrkinn. En þetta er ekkert aðalatriði.

Jeg hafð leyft mjer að kalla þessa ráðgefandi nefnd »lögjöfnunarnefnd«, af því að »lögjöfnun« átti að vera hennar aðalstarf. En meining mín var alls ekki sú, að hún hefði neitt löggjafarvald.

Að því er það snertir, að vjer megum ekki heima það sama til að koma samningnum á og slíta honum, þá vil jeg minna á það, að þetta kemur fram sem lög; og veit jeg ekki betur en að það fallist jafnan í faðma, að sama þurfi til þess að búa til lögin og upphefja þau.

Fleiru þarf jeg ekki að svara.